Ríkisstjórnin hangir á lyginni einni.
Linkindin er orðin eitt af þjóðareinkennum okkar Íslendinga, jafnvel meira áberandi en sauðkindin. Við erum orðin gríðarlega undanlátssöm á flestum sviðum. Ávallt reiðubúin að mæta einhverjum málefnum með það að markmiði að koma til móts við þá sem telja sig ekki njóta sannmælis, meðvirknin alger!
Litlu eða engu virðist skipta um hvað málið eða málstaðurinn snýst. Þjóðarsálin er orðin sundruð í afstöðu sinni til hinna ýmsu málefna og hreinlega rugluð í ríminu vegna mismunandi „frekjumála“ sem tröllríða samfélaginu. Eitt lítið dæmi þessa endalausa núnings er nýliðin Eurovision-söngvakeppni þar sem hótanir og fúkyrði réðu ríkjum eftir skoðunum þrætuaðila.
Innflytjendur eru orðnir 80.000, eða um 20% þjóðarinnar. Fjölgun þeirra hefur gerst á ógnarhraða í stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar. Ég ætla að leyfa mér að hafa þá skoðun að slík umbylting í samsetningu á íbúum landsins sé engum til góða, hvorki þeim sem fyrir eru né þeim sem hingað kjósa að flytja.
Til að mynda fluttu 5.600 til landsins frá 1. desember 2023 til og með 1. september 2024, fleiri en allir íbúar Vestmannaeyja svo að þetta sé sett í samhengi. Þeir sem eru ósammála mér vitna gjarnan í Schengen-samninginn og þörf fyrir vinnuafl vegna ferðaþjónustu og byggingariðnaðarins. Landamærin eru eins og gatasigti og nánast ekkert vitað um bakgrunn þeirra sem hingað sækja. Samfélagsmyndin er gerbreytt af þeim sökum, samstaða rofin meðal þjóðar.
Íslenskan á verulega undir högg að sækja, alltaf fækkar þeim sem nenna eða þurfa að læra okkar ástkæra ylhýra mál og drengir eru hættir að geta lesið sér til gagns.
Pólverjarnir, svo dæmi sé tekið, þurfa lítið að leggja á sig, fá fréttir og helstu upplýsingar um ýmsa þjónustu einfaldlega á pólsku, t.d. á ruv.is. Hægt og bítandi eru þeir að verða ríki í ríkinu. Svo að þeir sem hingað koma í hælisleit eða í atvinnuleit til lengri tíma af Schengen-svæðinu, þurfa ekki heldur að læra málið. Ef þeir tala ekki pólsku, þá bíður alla vega enskan handan við hornið eða túlkaþjónusta á kostnað ríkisins.
Maður og kona eru löngu orðin úrelt hugtök. Nú þarf hinn venjulegi Íslendingur að vera mjög skarpur og minnugur því það er ekkert grín að læra öll nýyrðin sem hafa verið innleidd. Inngilding, sviðsmynd, skautun o.s.frv. Ekki ætla ég að fara út í öll nýju kynorðin, það er jarðsprengjusvæði.
Kristinn boðskapur og náungakærleikur má helst hvergi sjást og alls ekki í skólum. Nýjasta ruglið þar er að fjarlægja krossinn úr merki kirkjugarðanna. Allt vegna undanlátssemi við háværa jaðarhópa. Þess í stað hefur annar boðskapur fengið stöðugt meira rými innan skólakerfis. Svokölluð kynfræðsla sem er af þeim toga að mann setur algerlega hljóðan.
Máttleysi ríkisstjórnarinnar á öllum sviðum er svo sláandi að mann rekur í rogastans. Sama hvar borið er niður, frammistaðan er fyrir neðan allar hellur og sundurlyndið algert. Ekki einu sinni dómsmálaráðherra nær að fylgja eftir landslögum. Ríkisstjórnin hangir saman á lyginni einni saman. Ríkisstjórnin sem og margir alþingismenn muna ekki lengur hverjum þeir þjóna, eru hreinlega með allt niður um sig, hanga saman vegna eiginhagsmuna flokkanna sem ríkisstjórnina mynda og óttans við afhroð í kosningum. Þjóðin mætir algerum afgangi.
Ísland þarf breytingar sem fela í sér nýja lausnamiðaða og kærleiksríka nálgun. Ríkisstjórn sem setur hagsmuni þjóðarinnar í fyrsta sæti og vinnur að þjóðarsátt en ekki sundrung. Það þarf skjaldborg um tungumálið, náttúruna, auðlindirnar og íslenskar afurðir, og ekki síst fólkið og fjölskyldurnar sem byggja þetta einstaka land.
Höfundur er markaðsstjóri.