Lög ESB framar íslenskum lögum

 

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur sent íslenskum stjórnvöldum lokaviðvörun í samningsbrotamáli þar sem þeim er tilkynnt að ESA muni höfða mál fyrir EFTA-dómstólnum bæti íslensk stjórnvöld ekki úr. Málatilbúnaður ESA snýst um að lög Evrópusambandsins (ESB) sem tekin hafa verið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og innleidd í íslenskan rétt gangi framar íslenskum lögum en því telur ESA að sé ábótavant.

Í grunninn segir ESA að lög ESB sem innleidd hafa verið í íslenskan rétt skuli standa íslenskum lögum framar. Utanríkisráðherra kemur með furðusvar er hann er spurður út í málið og segir að innleiðing hér á landi sé síst verri en annars staðar. Þetta skiptir engu í þessu sambandi heldur innihald hótana ESA og við þeim þarf að bregðast.

Eftir því sem fleiri reglur ESB eru innleiddar í íslenskan rétt fjölgar álitaefnum sem þessum. Ljóst er að íslensk lög eiga undir högg að sækja gagnvart hinni evrópsku löggjöf og mun án efa reyna meira á túlkanir og spurningar um rétta innleiðingu á næstu árum, ekki síst í stórum málum eins og orkumálum.

Ríkisstjórnin og fylgitungl hennar í stjórnarandstöðu innleiddu orkupakka 3 vitandi það að orkupakki 4 er á hraðri siglingu í gegnum gangverk ESB og mun fyrr en síðar reka á fjörur Íslands. Til upprifjunar stóð m.a. í áliti Samtaka iðnaðarins á orkupakka 3: „ fjórði orkupakki mun víðtækari [en orkupakki 3] og því mikilvægt að áhersla verði lögð á að halda þar á lofti hérlendri sérstöðu, s.s. hvað varðar endurnýjanlega orkugjafa.“ Við innleiðingu orkupakka 3 var íslenskum lögum breytt til samræmis við kröfur ESB svo innleiðingin stæðist.

Eyjólfur Ármannsson lögfræðingur varaði við lagasetningunni í kringum orkupakka 3. Sagði hann m.a. í grein í Kjarnanum þar sem hann svaraði einum fylgjenda orkustefnu ESB: „EFTA-ríkin geta ekki sett lagalega fyrirvara við upptöku ESBgerða í landsrétt. Það væri andstætt markmiðum EES-samstarfsins og myndi það falla um sjálft sig tækju ríkin upp á því. Lagalegur fyrirvari verður einungis gerður í ákvörðun sameiginlegu EESnefndarinnar.“

Ljóst er að hafi ESA sitt fram um að lög ESB gangi framar landslögum gildir einu hvaða lög íslensk stjórnvöld setja um þau mál sem löggjöf ESB nær til svo sem það sem innleitt hefur verið varðandi orkumál.

Líkt og þingmenn Miðflokksins ásamt sérfræðingum í lögum, orkumálum o.fl. bentu á aftur og aftur í tengslum við orkupakka 3 mátti alls ekki innleiða orkupakkann í íslensk lög því með því væri verið að gefa ESB/ESA aukið færi á að seilast í íslenska löggjöf.

Kröfur ESA um að lög ESB gildi framar íslenskum lögum eiga því jafnt við um orkumál og önnur mál sem innleidd eru á grundvelli samþykkta sameiginlegu EES-nefndarinnar. Lög ESB framar íslenskum lögum.

 

Höfundur:  Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 7. október, 2020