Mistökin eru hennar

Heilbrigðisráðherra hafa verið æði mislagðar hendur undanfarin misseri og raunar kjörtímabilið allt. Mörgum þótti nóg um þegar framkvæmd liðskiptaaðgerða mátti ekki fara fram á Íslandi heldur skyldi sárkvalið fólk fljúga til Svíþjóðar í aðgerð, af engri sjáanlegri ástæðu annarri en að ráðherranum hugnast ekki einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Áfram hélt furðan í boði ráðherra; skimun fyrir leghálskrabbameini var færð frá einkaaðila til ríkisins án nokkurs undirbúnings eða ástæðu og sátu konur ógreindar eða með rangar greiningar krabbameins svo mánuðum skipti. Þá er ótalið Landakotsmálið og nýlegar hrakfarir ráðherrans við öflun bóluefna fyrir íslenska þjóð í heimsfaraldri því að á sama tíma og aðrar fullvalda þjóðir í kringum okkur hafa bólusett fólk fram að þrítugu, fögnum við því að sjötugir megi nú fyrst sækja sína fyrstu sprautu. En heilbrigðisráðherra lét ekki þar staðar numið heldur bætti um betur nú á dögunum og ákvað að hneppa skyldi íslenska ríkisborgara í ólögmætt varðhald við komuna til landsins; fólk sem aðeins hafði unnið sér það til saka að koma heim til sín erlendis frá. Allt í nafni sóttvarna – þar sem stjórnarskrárvarin mannréttindi mega sín lítils.

Dómstólar komust að þeirri niðurstöðu að ráðherrann hefði gerst brotleg við stjórnarskrá og virt mannréttindi borgaranna að vettugi; hundruð Íslendinga voru frelsissvipt án lagastoðar. Viðbrögð ráðherrans eru að benda á aðra, Alþingi væri um að kenna en ekki henni – mistök hefðu verið gerð við breytingar á sóttvarnalögum.

En það stenst enga skoðun þegar betur er að gáð. Ný sóttvarnalög sem samþykkt voru á dögunum eru nákvæmlega eins og Alþingi hafði ætlað sér. Ekki var gert ráð fyrir heimild fyrir íþyngjandi aðgerðum ráðherra. Þetta samþykkti ráðherrann í þingsal ásamt öðrum þingmönnum.

Fróðlegt verður að sjá hvort ráðherrann nýtur trausts til áframhaldandi setu í ríkisstjórn sem hefur á fyrri stigum skipt út ráðherra fyrir minni sakir. Ábyrgð heilbrigðisráðherra hér er mikil.

Sem betur fer birtir þó sífellt til hér innanlands þegar litið er á tölur um smit, spítalainnlagnir og annað vegna heimsfaraldurs Covid-19. Hálfum mánuði eftir að skellt var aftur í lás, þegar aðeins þrjú smit greindust utan sóttkvíar, er enginn á spítala. Ekki einn. Hamfaraspá margra hefur því ekki ræst.

Það þarf hver og einn að bera ábyrgð á sjálfum sér. Persónulegar sóttvarnir og varúð er það sem hefur mesta þýðingu í viðbrögðum við heimsfaraldrinum og áframhaldandi bólusetning sem ver viðkvæmustu hópana og raunar okkur öll. Stjórnvöld þurfa að gæta að meðalhófi í aðgerðum sínum og lágmarkskrafan er þó og verður alltaf að aðgerðirnar þurfa að standast lög. Stjórnarskrárvarin mannréttindi eru ekki bara upp á punt.

 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi

bergthorola@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 9. apríl, 2021