Nei ráðherra!

Mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra (M&m) hélt upp á alþjóðleg­an bar­áttu­dag kvenna með því að áfrýja máli sem hún hafði tapað í héraðsdómi til Lands­rétt­ar. Málið höfðaði ráðherra á hend­ur kyn­syst­ur sinni sem hafði skotið ráðningu á póli­tísk­um sam­verka­manni ráðherr­ans í embætti ráðuneyt­is­stjóra til kær­u­nefnd­ar jafn­rétt­is­mála. Úrsk­urður kær­u­nefnd­ar sem héraðsdóm­ur hef­ur nú staðfest er sá að M&m hafi brotið gegn ákvæðum jafn­rétt­islaga og komst ráðherra þar með í þröng­an hóp þeirra ráðherra ís­lenskra sem brotið hafa þau lög, standi dóm­ur héraðsdóms. Eins og alþjóð veit hef­ur eng­inn brot­legu ráðherr­anna þurft að bera ábyrgð á lög­brot­um sín­um til þessa. Ef­laust verður það sama upp á ten­ingn­um gagn­vart M&m sem með áfrýj­un­inni hef­ur keypt sér tíma fram yfir kosn­ing­ar því nær úti­lokað er að Lands­rétt­ur kveði upp úr­sk­urð sinn fyr­ir sept­em­ber­lok. Hér er um ójafn­an leik að ræða þar sem ráðist er með full­um þunga rík­is­sjóðs að konu sem ekk­ert hef­ur til saka unnið annað en að sækja um starf og vera tal­in hæf­ust til að gegna því. M&m legg­ur tölu­verðan út­gjalda­auka á rík­is­sjóð með því að draga málið á lang­inn og ger­ir hlut sinn í mál­inu enn al­var­legri. Enn um sinn verður áður­nefnd kona að eyða tíma og fjár­mun­um (alla vega tíma­bundið) í að verj­ast at­lögu ráðherr­ans sem þolir ekki að tapa. Von­andi fær þetta óheilla­mál flýtimeðferð fyr­ir Lands­rétti.

Heil­brigðisráðherra hélt upp á alþjóðleg­an bar­áttu­dag kvenna með því að taka á móti bæna­skjali meira en fimm þúsund ein­stak­linga um að skiman­ir á leg­hálskrabba­meini verði flutt­ar til lands­ins að nýju eft­ir hrak­för ráðherr­ans með sýni til Dan­merk­ur. Sú ákvörðun hef­ur valdið óþolandi drætti á því að niður­stöður ber­ist kon­um sem bíða milli von­ar og ótta. Auk þess veld­ur hringl með sýni milli landa auk­inni hættu á að sýn­in mis­far­ist. Áður voru þau flutt milli her­bergja hjá Krabba­meins­fé­lag­inu. Sýna­úr­vinnsla auk brjósta­skimun­ar voru hrifsuð af Krabba­meins­fé­lag­inu og færð Land­spít­ala sem ekki var í fær­um að taka við kefl­inu fyr­ir­vara­laust. Það verður ekki sagt að sýna­taka og úr­vinnsla Krabba­meins­fé­lags­ins hafi verið án áfalla en unnið hafði verið að úr­bót­um og fé­lagið hafði orðið sér úti um ná­kvæm­ari búnað til rann­sókn­ar á sýn­um. Land­spít­al­inn hafði lýst því yfir að hann réði við úr­vinnslu og rann­sókn á sýn­um þrátt fyr­ir mikið álag á spít­al­ann. Marg­ir helstu sér­fræðing­ar lands­ins hafa stigið fram og gert al­var­leg­ar at­huga­semd­ir við ákvörðun heil­brigðisráðherra. M.a. hef­ur verið bent á að með henni geti mik­il­væg þekk­ing og reynsla rann­sókn­ar­fólks hér á landi glat­ast. Það ber að vona að ráðherra beri gæfu til þess að hlusta á radd­ir sér­fræðinga og þess stóra hóps kvenna sem lýst hafa áhyggj­um sín­um og end­ur­skoði ákvörðun sína um skiman­ir.

 

Þor­steinn Sæ­munds­son, þingmaður Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi Suður
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 10. mars, 2021