Öfgar og heimsendaspár leysa ekki loftslagsmálin

Það er gömul saga og ný að stjórnvöld reynast mjög treg til að gefa eftir völd sem þau hafa tekið sér. Í viðureigninni við faraldurinn sætti fólk víða um heim sig við að gengið yrði á frelsi einstaklinga vegna þess að um væri að ræða tímabundið ástand til að takast á við sameiginlega ógn.

Í ljósi reynslunnar blasir við að stjórnvöld muni nú vilja nýta aukin völd sín í nýjum tilgangi. Það munu þau gera með vísan í loftslagsmál. Það er því tímabært að ræða hvort og þá hvernig þeim verði heimilað að beita auknum hömlum. Ef íslensk stjórnvöld gera það á grundvelli loftslagsstefnu undanfarinna ára mun það fela í sér mestu frelsisskerðingu um áratuga skeið, minnkandi framleiðslu, lífskjaraskerðingu og skila nákvæmlega engum árangri í loftslagsmálum.

Ég geri ekki lítið úr mikilvægi umhverfismála. Þau voru t.d. eina umræðuefni mitt í ræðu á fyrsta landsþingi Miðflokksins. En umhverfismál eru líklega stærsta fórnarlamb hinna stórskaðlegu nýaldarstjórnmála þar sem allt snýst um umbúðir og yfirlýst markmið fremur en innihald og raunveruleg áhrif.

Áður en ég vík að þeim aðferðum sem duga best er rétt að líta til þess sem er í vændum nú þegar stjórnvöld og aðrir munu færa vald sitt yfir daglegu lífi fólks frá sóttvörnum að umhverfismálum.

Ný skýrsla

Nefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (ICPP) hefur nú birt nýja skýrslu um þróun þeirra mála. Slíkar skýrslur eru ekki skrifaðar af fólki með mjög ólíkar skoðanir, fremur af aktívistum sem berjast fyrir tilteknum viðbrögðum. Þrátt fyrir það hafa skýrsluhöfundar gert athugasemdir við hvernig innihaldið hefur verið túlkað og sett fram í fjölmiðlum. Líklega hafa þeir sem eru yfirlýsingaglaðastir um innihald skýrslunnar ekki lesið hana enda er hún rúmlega 4.000 síður að lengd.

Ólesin hefur skýrslan verið gripin fegins hendi og notuð sem rökstuðningur fyrir þeim heimsendaspám sem haldið var mjög á lofti þar til þær féllu í skugga veirunnar um sinn. Í hvert skipti sem verða hamfarir tengdar veðurfari eru þær tengdar við loftslagsbreytingar (sem nýaldarpólitíkusar vilja nú gefa nýtt nafn að hætti Orwells og kalla „hamfarahlýnun“). Þótt popúlistar stökkvi á alla slíka atburði og telji þá tilefni til að veita stjórnvöldum aukin völd til að hefta framþróun og skerða frelsi almennings gleymist alltaf eitt mikilvægt atriði. Það atriði kallast samhengi.

Samhengið

Björn Lomborg hjá rannsóknaveitunni Copenhagen Consensus hefur verið ötull við að setja hlutina í samhengi og fá stjórnmála- og embættismenn til að líta á heildarmyndina og hvernig best megi nýta fjármagn til að bæta líf fólks. Björn og félagar eru engir sérvitringar og hafa aldrei efast um mikilvægi þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta eru afburðafræðimenn á sínu sviði sem hvetja einfaldlega til þess að litið verði til staðreynda og heildaráhrifa. Þeir hafa útskýrt að núverandi aðferðir muni skila nánast engum árangri og bent á betri leiðir til að bæta líf framtíðarkynslóða. Öll vinna þeirra byggist á opinberum gögnum og ekki síst skýrslum ICPP og loftslagslíkönum Sameinuðu þjóðanna.

Með vísan í opinber gögn hefur Björn sýnt fram á að tíðni náttúruhamfara sem tengja má veðurfari hafi síður en svo aukist (þótt veðurfarsbreytingar geti haft áhrif). Einnig það að þrátt fyrir gríðarlega fjölgun mannfólks og mjög aukna byggð á þeim svæðum sem líklegust eru til að verða fyrir áhrifum veðurfarstengdra hamfara sé fjöldi þeirra sem látast af slíkum völdum aðeins brot af því sem áður var. Fjöldinn hefur fallið um meira en 99% á einni öld.

Framfaraþrá og vísindaleg nálgun hafa skilað mannkyninu gríðarlegum árangri. Það er því mikið áhyggjuefni ef því verður nú fórnað á altari öfgahyggju sem lítur á manninn sem vandamál fremur en uppsprettu lausna og framfara.

Þótt hamfarir tengdar veðurfari hafi oft verið tíðari en nú og mannfall margfalt meira liggur munurinn í því að nú birtist hvert slíkt tilvik á forsíðum blaða og vefmiðla og sem stærstu fréttir í sjónvarpi. Það er svo iðulega skilgreint sem sönnun á boðskap heimsendaspámanna og spárnar aðlagaðar eftir á. Hver atburður verður áminning um að heimsendir sé á næstu skrælnuðu grösum.

Heimsendaspár

1972 varaði Maurice Strong, fyrsti yfirmaður umhverfisstefnu SÞ, við því að við (mannkynið) hefðum bara 18 ár til að koma í veg fyrir umhverfishamfarir sem yrðu eins viðvarandi og útrýming af völdum kjarnorkustyrjaldar. Síðan þá hafa eftirmenn hans reglulega fært endapunktinn en jafnan gefið heiminum 5-10 ár. Ákafamenn hafa svo nýtt þetta til að boða yfirvofandi heimsendi.

E.t.v. telja einhverjir þetta nauðsynlegt til að reyna að hafa áhrif á fólk og stefnu stjórnvalda (tilgangurinn helgi meðalið). En er það skynsamlegt? Er skynsamlegt að nálgast þetta stóra viðfangsefni út frá öfgatrú, spá heimsendi, ýta stöðugt undir ótta, ráðast af offorsi á gagnrýnendur og varpa fram yfirborðskenndum lausnum?

Ég held ekki. Ég tel umhverfismál mikilvægari en svo að það sé hægt að eftirláta þau öfgahyggju nýaldarstjórnmálanna. Þessi mál, eins og önnur stór viðfangsefni sem mannkynið hefur tekist á við, verða ekki leyst öðruvísi en með skynsemishyggju, rökræðu og vísindalegum framförum.

Stefna íslenskra stjórnvalda

Stjórnvöld víða á Vesturlöndum hafa ofurselt sig ímyndarnálguninni í loftslagsmálum sama hvað það kostar. Þegar bresk stjórnvöld samþykktu markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 upplýsti þáverandi fjármálaráðherra að það myndi kosta talsvert yfir 1.000 milljarða punda að ná markmiðinu (yfir 175.000.000.000.000 krónur). Síðar var sú tala álitin vanáætluð. Fyrir slíka peninga væri hægt að ná miklum framförum og bæta líf margs fólks.

Loftslagsáætlun íslensku ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir að landið setji met í samdrætti losunar þrátt fyrir að við höfum minna svigrúm en nokkurt annað land til að minnka losun í ljósi þess að við erum nú þegar með hæsta hlutfall endurnýjanlegrar orku. Það að tilkynna einhliða að farið verði umfram umsamin markmið veikir auk þess samkeppnisstöðu okkar og möguleika á að ýta undir minni losun annarra.

Í loftslagsáætluninni birtist víða nokkuð opinskátt mat og talsmenn stefnunnar hafa á stundum verið hreinskilnir um aðferðirnar. Flestir ráðherrar hafa þó forðast að ræða hvað þurfi til.

Afleiðingarnar

Það er í öllu falli ljóst að ekki er hægt að ná markmiðinu nema með því að draga úr framleiðslu innanlands, hækka skatta og gjöld á almenning og leggja á nýja til að stýra neysluhegðun og hefta ferðafrelsi. Minnka landbúnað, draga úr fjölda ferðamanna og fækka ferðum Íslendinga til útlanda. Minni framleiðslu og neyslu má svo augljóslega endurorða sem lakari lífskjör.

Störf og framleiðsla munu í auknum mæli færast frá Vesturlöndum til Kína og annarra vaxandi efnahagssvæða. Allt þetta leiðir til aukinnar misskiptingar þar sem færri hafa efni á að reka og eiga bíl, ferðast eða kaupa ýmsar vörur. Það verður ekki leyst með grænum styrkjum (sem að mestu hafa farið í að niðurgreiða dýra bíla) eða nýjum „grænum“ hátæknistörfum.

Lausnir

Vesturlönd hafa dregið úr eigin losun með því að færa framleiðslu til landa sem framleiða vörurnar með kolabruna. Ef álframleiðsla flyttist frá Íslandi til Kína myndi losun nærri tífaldast.

Raunin er sú að það er best fyrir loftslagsmál heimsins að við framleiðum sem mest á Íslandi. Eftirspurn eftir vörum og lífsgæðum mun bara aukast í heiminum. Milljarðar manna vilja að sjálfsögðu vinna sig upp úr fátækt og skert lífskjör á Íslandi eða annars staðar á Vesturlöndum munu ekki koma í veg fyrir það.

Það er ekki hægt að hverfa af braut framfara. Þvert á móti, við þurfum að leysa loftslagsmálin eins og önnur stór viðfangsefni, með vísindum og annarri mannlegri hugkvæmni. Á því sviði eigum við Íslendingar mikil tækifæri ef við látum ekki heimsendaspámenn og afturhaldsöfl stöðva okkur.

Heimurinn þarf miklu meiri endurnýjanlega orku. Þar getur Ísland gert ótrúlega hluti og þarf að nýta tækifærin betur. Það mun þýða að losun landsins aukist í stað þess að minnka en á heimsvísu mun það draga úr losun, reynast það besta sem við getum gert í loftslagsmálum og bæta lífskjör Íslendinga.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 12. ágúst, 2021