Orkukrísa ríkisstjórnarinnar

Þingmenn Miðflokksins sátu ekki á gagnrýni sinni í garð nýs umhverfis- og orkumálaráðherra við upphaf þings á nýju ári, þegar í ljós kom að ráðherrann ætlaði ekki að leggja fram þingsályktun um vernd og orkunýtingu landsvæða eða svokallaða rammaáætlun fyrr en 31. mars, samkvæmt birtri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, á síðasta framlagningardegi þessa þings.

Þetta þóttu okkur ekki góð skilaboð enda var með þessu staðfest að ekkert myndi gerast í orkunýtingu fyrri hluta kjörtímabilsins – frestun virtist framförum betri til að halda sjó í jafnvægisæfingum ríkisstjórnarinnar.

Það leið þó ekki á löngu þar til nýi ráðherra umhverfis- og orkumála, Guðlaugur Þór Þórðarson, brást við gagnrýni okkar Miðflokksmanna af myndugleik og mælti fyrir rammaáætluninni í þinginu – fyrr en búið var að boða af hans eigin ráðuneyti.

Guðlaugur Þór gerði engar breytingar á rammaáætluninni frá fyrri tíð og lagði hana fram óbreytta. Þannig hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna allir lagt fram efnislega sömu rammaáætlun frá því í september 2016. En ætla má að ráðherrann hafi ekki viljað ýfa fjaðrir samstarfsflokka sinna í ríkisstjórn með breytingum og talið stuðninginn því vísan við þeirra eigin plagg þegar kæmi að umræðum um málið í þinginu.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Þegar ráðherrann mælti fyrir rammaáætluninni 10. febrúar síðastliðinn komu fulltrúar beggja samstarfsflokka hans í ríkisstjórn í pontu Alþingis og gerðu fyrirvara við rammaáætlunina. Efnislega sömu þingsályktun og ráðherrar sömu flokka höfðu áður lagt fram sjálfir á þingi og freistað að fá samþykkt, án árangurs. Fyrst Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra Framsóknarflokks og síðan Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra Vinstri grænna. Þetta gerðist aðeins nokkrum dögum eftir að ríkisstjórnin hafði afgreitt málið frá sér og þingflokkar ríkisstjórnarinnar sömuleiðis.

Það er við þessar aðstæður sem leikhús fáránleikans blasir svo glögglega við hverjum sem vill sjá. Hvað voru fulltrúar Framsóknarflokks og Vinstri grænna að gera athugasemd við? Leturgerðina í skjalinu?

Tafaleikir þessara flokka og skortur á vilja og alvöru til að mæta yfirvofandi skorti á grænni orku blasa við. Þegar menn heykjast á smáatriðum þegar á hólminn er komið með rammaáætlun sem allir flokkar ríkisstjórnarinnar hafa lagt fram á einum eða öðrum tíma – þá er ekki annað hægt en að segja að þessum sömu flokkum sé hreinlega ekki alvara. Það er ámælisvert að ríkisstjórnin skuli nálgast orkumálin af slíkri léttúð.

Á meðan rammaáætlun, þ.e. áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, er stopp, þá er allt stopp.

Bergþór Ólason, alþingismaður. 

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 17. febrúar, 2022.