Pólitísk skemmdarverk á íslenskri tungu

Pólitísk skemmdarverk á íslenskri tungu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson:
 
Hvað sam­ein­ar þjóðir um­fram annað? Tungu­málið. Tungu­málið teng­ir fólk sam­an í nú­tím­an­um en teng­ir okk­ur líka við fortíðina og kom­andi kyn­slóðir. Tungu­málið er í senn ómet­an­leg­ur menn­ing­ar­arf­ur og sam­ein­ing­arafl.
 

Eft­ir að ég hóf að skrifa grein und­ir þess­ari fyr­ir­sögn fyr­ir um tveim­ur árum ákvað ég að láta hana bíða og safna dæm­um. Síðan þá hef­ur ástandið versnað að því marki að það kall­ar á viðbrögð og svar við spurn­ing­unni: Vilj­um við vernda ís­lensk­una eða ekki?

Í millitíðinni hafa nokkr­ir tjáð sig um málið á mjög skil­merki­leg­an hátt, einkum upp í síðkastið. Áður hafði verið varað við því í hvað stefndi í af­bragðsgóðum mál­farspistl­um í Morg­un­blaðinu.

Hvaða máli skipt­ir tungu­mál okk­ar?

Hvað sam­ein­ar þjóðir um­fram annað? Tungu­málið. Tungu­málið teng­ir fólk sam­an í nú­tím­an­um en teng­ir okk­ur líka við fortíðina og kom­andi kyn­slóðir (ef það varðveit­ist). Tungu­málið er í senn ómet­an­leg­ur menn­ing­ar­arf­ur og sam­ein­ing­arafl. Það er einnig verk­færi sem ger­ir okk­ur ekki aðeins kleift að tjá okk­ur og skilja aðra, við þurf­um það til að geta hugsað.

Það er því ekki að ástæðulausu að þeir sem leit­ast við að ná stjórn á tján­ingu og hugs­un fólks reyna jafn­an að hafa stjórn á tungu­mál­inu og jafn­vel breyta því.

Þetta fór ekki fram hjá rit­höf­und­in­um Geor­ge Orwell eins og víða má sjá í skrif­um hans. Í bók­inni 1984 lýsti hann því hvernig „Stóri bróðir“ náði alls­herj­ar­valdi yfir al­menn­ingi og kæmi í veg fyr­ir að fólk gæti hugsað eða tjáð óþókn­an­leg­ar skoðanir, með því að ná stjórn á tungu­mál­inu. Það var gert með inn­leiðingu ný­lensku, tungu­máls þar sem orðaforði og mál­fræði voru tak­mörkuð en orðum einnig gef­in ný merk­ing. Allt annað varð hat­ursorðræða. Sam­hliða þessu var inn­leidd tví­hugs­un (e. dou­blet­hink) sem gekk út á að gera merk­ingu orða óljós­ari eða snúa þeim upp í and­hverfu sína. Þannig gæti fólk sætt sig við þversagn­ir og trúað hlut­um sem gengju ekki upp ef rök­hugs­un og rök­ræða fengju að viðgang­ast.

Nú er mark­visst unnið að því að breyta ís­lensku í ný­lensku, hefta tján­ingu og inn­leiða tungu­mál sem ætlað er að draga úr gagn­rýni og rök­hugs­un.

Að fela inni­haldið

Oft hef­ur verið bent á að einn af kost­um ís­lensku sé sá að orð lýsi jafn­an merk­ing­unni, eða inni­hald­inu, vel. Með þeirri umbúðamennsku sem ein­kenn­ir stjórn­mál sam­tím­ans hef­ur borið mjög á því að orðum sé skipt út fyr­ir önn­ur í þeim til­gangi að fela inni­haldið. Þegar slík orð eru kynnt til sög­unn­ar má jafn­an gefa sér að eitt­hvað standi til.

Fóst­ur­eyðing­ar höfðu verið nán­ast óum­deilt mál á Íslandi ára­tug­um sam­an. En um sama leyti og rík­is­stjórn lands­ins ákvað að reyna við heims­met í því hversu lengi mætti eyða fóstri kynnti hún til sög­unn­ar orðið „þung­un­ar­rof“.

Ekki leið á löngu þar til orðið kona var farið að þvæl­ast fyr­ir yf­ir­völd­um. Nú skal talað um ein­stak­linga með leg eða „leg­hafa“ frem­ur en kon­ur. Ef les­end­ur telja að ég sé að skálda þessa vit­leysu get ég bent þeim á að rík­is­stjórn­in hef­ur þegar leitt orðið í lög og notað það í umræðu um kon­ur.

Ef þið viljið vera í náðinni hjá stóra bróður skuluð þið líka hætta að nota orðið móðir. Ykk­ur er nú ætlað að tala um „fæðing­araðila“ eða „fæðing­ar­for­eldri“.

Áður var umræða um lög­leiðingu fíkni­efna (að ein­hverju eða öllu leyti) á jaðri stjórn­mál­anna. Þegar stjórn­völd fóru að þiggja leiðsögn Pírata í mála­flokkn­um tóku þau að styðjast við orðskrípið „af­glæpa­væðingu“. Menn geta haft ólík­ar skoðanir á því hvort eigi að lög­leiða ákveðin fíkni­efni eða ekki en það ber ekki vott um fulla sann­fær­ingu ef þeir þora ekki að segja orðið. Og talandi um fíkni­efni. Nú hef­ur ráðherra boðað áform um að leggja af fíkni­efni. Nei, af­sakið, leggja af orðið „fíkni­efni“.

Þeim mun viðkvæm­ari og um­deild­ari sem mála­flokk­ur­inn er þeim mun meiri er þörf­in fyr­ir að hafa stjórn á umræðu um hann. Líkn­ar­dráp skal nú kallað „dán­araðstoð“. Til­gang­ur­inn er að auka á „aðstoðina“ en van­hugsuð lög­gjöf þar um hef­ur leitt til hræðilegra at­b­urða, m.a. í Kan­ada og Belg­íu.

Eft­ir að mál­efni hæl­is­leit­enda fóru al­gjör­lega úr bönd­un­um á Íslandi var okk­ur sagt að tala um „um­sækj­end­ur um alþjóðlega vernd“. Af­skap­lega vill­andi orðalag um þá sem vilja fá hæli á Íslandi (frem­ur en ann­ars staðar) en einnig svo óþjált og kerf­is­legt að það minn­ir gagn­rýn­end­ur á að tala ekki um það sem þeim kem­ur ekki við.

Oft verður verðbólga í orðanotk­un­inni þegar fyrri til­raun­ir reyn­ast ekki nógu áhrifa­mikl­ar. „Veðurfars­breyt­ing­ar“ urðu að „hnatt­rænni hlýn­un“ sem varð svo að „ham­fara­hlýn­un“ og loks „hnatt­rænni stikn­un“. Auk þess hef­ur verið sett fram krafa um að um­hverf­is­spjöll verði kölluð „vist­morð“.

Stund­um eru þó ákv­arðanir yf­ir­boðaranna um hvaða orð skuli nota fyrst og fremst hlægi­leg­ar. Ein­hverra hluta vegna ákváðu stjórn­völd og upp­lýs­inga­arm­ur þeirra einn dag­inn að land sem við höf­um alla tíð kallað Hvíta-Rúss­land skyldi nú nefnt Bela­rús upp á rúss­nesku. Þetta mun hafa verið gert, af hefðbund­inni rök­vísi, til að hirta þarlend stjórn­völd vegna þess að þau væru okk­ur ekki að skapi. Ligg­ur þá ekki bein­ast við að kalla Rúss­land „Ross­íja“ og ef óá­sætt­an­leg stjórn nær völd­um í Finn­landi hljóta ut­an­rík­is­ráðuneytið og RÚV að fara að tala um Su­omi.

Mál­fræðin

Á Íslandi næg­ir það ekki stóra bróður að inn­leiða ný­lensku með nýj­um orðum. Hér skal mál­fræðinni breytt, eða rétt­ara sagt, hún eyðilögð. Hvers vegna leit­ast sum­ir nú við að tala hið sér­kenni­lega nýja „kynja­mál“? Eft­ir því sem næst verður kom­ist liggja tvær ástæður þar að baki.

Í fyrsta lagi virðist fólkið sem stend­ur fyr­ir þessu ekki gera sér grein fyr­ir því að mál­fræðilegt kyn hef­ur ekk­ert með líf­fræðilegt kyn að gera. Þetta hafa aðrir út­skýrt ágæt­lega eins og ég gat um. Í ís­lensku, eins og mörg­um öðrum mál­um, t.d. þýsku, frönsku og spænsku, hafa nafn­orð kyn og önn­ur orð vísa til þess. Þannig er t.d. orðið hetja kven­kyns hvort sem hetj­an sem vísað er til er karl­kyns eða kven­kyns. Það sama á við um lög­reglu. „Hún“ hand­tók eft­ir­lýst­an glæpa­mann (kk.), jafn­vel þótt lög­regluþjónn­inn hafi verið karl­kyns en glæpa­maður­inn kven­kyns.

Í öðru lagi virðist þetta átak um að fá fólk til að tala vilj­andi rangt mál vera til þess fallið að hægt sé að meta hverj­ir eru „í lagi“. Hverj­ir eru þægir og hlýða skip­un­um um hvernig þeim beri að tala, jafn­vel þegar þess er kraf­ist að þeir tali rangt mál. Þeir hinir sömu verða enda varla til vand­ræða þegar þess verður kraf­ist að þeir geri annað sem til er ætl­ast. Með því að hlusta á mann­eskju tala veist þú þá hvort viðkom­andi er hlýðinn eða „vand­ræðamaður“. Þetta er vænt­an­lega fram­lag yf­ir­boðaranna til að taka á skaut­un­inni (gott orð) sem þeir segj­ast hafa svo mikl­ar áhyggj­ur af.

Þegar ég hóf nám í mennta­skóla hafði ís­lensku­kenn­ar­inn minn, Jón Guðmunds­son, kennt nem­end­um rétt mál í 50 ár. Hon­um þótti mjög vænt um tungu­málið og ég minn­ist þess að hann hafði oft á orði að þótt (ensku)slett­ur gætu verið hvim­leiðar væru þær ekki mjög hættu­leg­ar, þær kæmu og færu eða yrðu töku­orð, tungu­málið yrði ekki eyðilagt fyrr en ráðist yrði að mál­fræðinni.

Breyt­ing­arn­ar eru ekki til þess falln­ar að gera tungu­málið skilj­an­legra, ein­fald­ara eða fal­legra.

Hvernig hljóm­ar ann­ars þessi ný­lenska?: „Það vita öll að ekk­ert trú­ir þessu. Íslend­ing­ar standa sam­an öll sem eitt. Eitt fyr­ir öll og öll fyr­ir eitt.“ Ég vona að skemmtikraft­ar fari ekki að hrópa yfir sal­inn: „Eru ekki öll í stuði?!“

Nokk­ur dæmi

Eitt mik­il­væg­asta hlut­verk Rík­is­út­varps­ins er að vernda ís­lensk­una. Í lög­um um stofn­un­ina seg­ir: „Það skal leggja rækt við ís­lenska tungu, menn­ingu, sögu þjóðar­inn­ar og menn­ing­ar­arf­leifð.“

Hvers vegna fer það fremst í flokki þeirra sem vilja brengla tungu­málið í póli­tísk­um til­gangi og ýta und­ir rugl­ing og skaut­un?

Hvers vegna leggja menn sig fram um að tala rangt mál að því marki að þeir lenda í vand­ræðum með sam­hengi og skilj­an­leika?

Hér á eft­ir fylgja nokk­ur dæmi. Flest úr Rík­is­út­varp­inu:

„Flest ættu að vera kom­in með heitt vatn í kvöld.“ Er verið að vísa til hús­anna eða íbú­anna? Það hafði reynd­ar komið fram í út­varps­frétt­um skömmu áður þar sem sagði á réttu máli: „Flest­ir íbú­ar ættu að vera komn­ir með heitt vatn í kvöld.“ Á þeim 45 mín­út­um sem liðu fram að sjón­varps­frétt­um var þessu breytt.

„Eru mörg far­in úr bæn­um vegna ástands­ins?“ Mörg hvað, dýr? Í frétt um skoðana­könn­un: „Jafn mörg nefndu [X].“ Jafn mörg hvað, voru bara börn spurð? Eða eru bara börn í fram­boði?: „77% vilja ekki þau sem hafa lýst yfir for­setafram­boði.“

M.v. eft­ir­far­andi setn­ingu virðist m.a.s. orðið „það“ orðið hættu­legt: „Hlut­verk okk­ar er að und­ir­búa ungt fólk, und­ir­búa þau und­ir frek­ara nám.“ Svo var bent á vefsíðu „þar sem al­menn­ing­ur er hvatt til að til­kynna aug­lýs­ing­ar“. Einnig var sagt frá því að „þau fjölg­ar sí­fellt sem mæta í há­deg­is­verðinn hjá Hjálp­ræðis­hern­um“.

Oft er leitað í hið of­notaða orð „aðilar“ en samt gleym­ist að það er karl­kyns orð: „Þess­ir aðilar og fólk í kring­um þau.“

Stund­um vand­ræðast menn með þetta að því marki að þeir blanda sam­an ný­lensk­unni og eðli­legri ís­lensku í sömu setn­ingu. T.d.: „Sum­ir hverj­ir eru dá­lítið óviss­ir um hvernig þau eigi að bera sig að“ og „þau þrjár mann­eskj­ur sem sjá um þetta …“ eða „er öll von úti eða telja menn að þau geti leyst úr þessu“.

Vernd­um ís­lensk­una

Ef þeir sem segj­ast vilja vernda ís­lensk­una gera það ekki nú, þegar sótt er að tungu­mál­inu á ann­ar­leg­an hátt, þá er ekk­ert að marka þá. Þá eru þeir bara að tala ný­lensku og geta sagt eins og í bók Orwells: „Stríð er friður, frelsi er þræl­dóm­ur, fá­vísi er styrk­ur.“

Höf­und­ur er formaður Miðflokks­ins.