Rétti tíminn til að rústa starfsumhverfi leigubílstjóra

Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp um breytt starfsumhverfi í leigubifreiðaakstri. Þeir sem hyggjast stunda leigubifreiðaakstur þurfa ekki að skrá sig á leigubifreiðastöð. Fjöldi útgefinna leyfa verður ekki lengur takmarkaður.

Ástandið núna

Þetta frumvarp, sem leigubílstjórar telja að muni skerða mjög afkomu þeirra, er lagt fram þegar atvinnutekjur þeirra hafa dregist verulega saman vegna veirufaraldursins. Fjöldi bílstjóra er atvinnulaus og þeir sem enn reyna að gera út sínar bifreiðar hafa varla upp í rekstrarkostnað við bílinn.

Norðmenn fara aðra leið

Fyrr á þessu ári breyttu Norðmenn sinni löggjöf, en fóru þó talsvert aðra leið en stjórnvöld á Íslandi hyggjast gera. Norðmenn nýta áfram heimildir til takmörkunar á fjölda útgefinna leyfa. Þannig er það t.d. í Bergen, sem er talsvert stærri borg en Reykjavík, með íbúafjölda um 300 þúsund. Íslensk stjórnvöld hyggjast ganga lengra en Noregur sem er þó að innleiða sömu reglur EB og við. Einkennilegt er að við skulum sífellt finna þörf til að ganga lengra en allir aðrir í að þóknast Evrópureglum, þegar enga nauðsyn ber til þess.

Allt logandi í Finnlandi

Fréttir um reynslu Finna af ofangreindri innleiðingu á samkeppni á leigubifreiðamarkaði gefa til kynna að hún virðist miður góð. Finnska dagblaðið Ilta-Sanomat ræddi við fjölmarga leigubifreiðarstjóra. Segja þeir frá slagsmálum bílstjóra um kúnna í Helsinki og segja þeir að glannalegir bílstjórar myndi „hálfgerð gengi“ og hafi yfirtekið markaðinn á ákveðnum svæðum í borginni. Þeir segja að kjör þeirra hafi versnað mikið með tilkomu nýju laganna og margir þeirra forðist þau svæði þar sem árásargjarnir bílstjórar hafa sig mest í frammi.

Verðið á akstri hækkaði

Finnska samkeppnisstofnunin gerði rannsókn á leigubílaumbótunum í janúar, sem gaf til kynna að verð á fari í leigubíl hefði hækkað upp úr öllu valdi. Athyglisvert er að þetta gerist þrátt fyrir stóraukna samkeppni og versnandi kjör meðal finnskra leigubifreiðarstjóra. Samgönguráðherrann Timo Harakka hefur lofað að gera ráðstafanir í þessum efnum, en þær ráðstafanir hafa enn ekki komið fram.

Farþegar upplifa sig síður örugga

En lítum nánar á finnsku könnunina. Þar kemur einnig fram að farþegar leigubifreiða í svæðinu í kringum Helsinki finni til minna öryggis en áður, en sérstaka athygli vekur að farþegar með takmarkaða hreyfigetu töldu öryggi minna eftir gildistöku laganna. Fjöldi leyfishafa í Finnlandi fór úr rúmlega sjö þúsund í tæplega 12 þúsund með tilkomu laganna og mun aðgengi að þjónustunni hafa aukist í stærri bæjum, en minnkað í minni sveitarfélögum.

Rétti tíminn til að rýra atvinnumöguleika leigubílstjóra?

Vinna leigubifreiðarstjóra hefur dregist það mikið saman að tekjurnar duga ekki fyrir rekstri bifreiðar, hvað þá launum. Eftirlit með brotum á núgildandi löggjöf hér á landi hefur reynst mjög brotakennt. Leyfislausir skutlarar og aðrir lögbrjótar aka farþegum og sumir bjóða til sölu ólögleg fíkniefni. Þrátt fyrir kvartanir og augljós lögbrot hirða eftirlitsaðilar ekki um að fylgjast með brotum eða koma yfir þá lögum. Að klæða breytingarnar í þau föt að eftirlit muni verða betra er í besta falli fyrirsláttur í ljósi reynslunnar.

Rennt blint í sjóinn

Bifreiðarstjórar búa nú við mikinn samdrátt í sínum rekstri og berjast alla daga fyrir afkomu sinni. Í því ástandi eru fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar háskalegar. En hún sýnir einnig skort á ábyrgð í ljósi þess að áhrif breytinganna eru háð fullkominni óvissu. Menn hafa reynslu Finna fyrir augunum en láta sem þeir sjái ekki neitt.

 

Höfundur:  Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 13. nóvember, 2020