Rugl í Reykjavík

 

Ég fer reglulega í vettvangsferðir í Gufunes til að fylgjast með þeim óraunverulegu framkvæmdum sem þar standa yfir. Fyrir það fyrsta er augljóst að verið er að byggja bæði blokk og koma fyrir fimm smáhýsum í veghelgunarsvæði Sundabrautar. Það eitt og sér er graf alvarlegt mál að Reykjavíkurborg skuli enn einu sinni að hindra kröfu Vegagerðarinnar um að Sundabraut verði lögð út frá öryggissjónarmiðum. Búið er að raska miklu landi í Gufunesi og stórtækar vegaframkvæmdir eru í gangi, búið er að setja upp ljósastaura og leggja lagnir.

Þessi byggð er alveg ofan í görðum Grafarvogsbúa því einungis eitt holt skilur á milli. Landið liggur mjög neðarlega og nánast ógjörningur er að sjá framkvæmdirnar úr Grafarvogshverfinu. Þorpið vistfélag er að byggja þarna hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og á að vera „lifandi vistþorp í borg.“ Svo mikið liggur á að koma fyrstu blokkinni upp að þarna er verið að vinna um helgar. Þessi framkvæmd er óskiljanleg í ljósi hagsmuna landsmanna allra að Sundabraut komi sem fyrst. Svo eru það hin svokölluðu smáhýsi. Búið er að koma fyrir fimm húsum eins og áður segir. Þau eru öll á steyptum grunni og er innflutt. Allt í sambandi við kaupin á húsunum er einkennilegt.

Meirihlutinn í borgarstjórn ákvað að verja 450 milljónum króna í kaup á 25 smáhýsum fyrir heimilislaust fólk, 18 milljónir hvert. Það segir ekki nema hálfa söguna því allur annar kostnaður er ekki gefinn upp. Má þar nefna flutning húsanna til landsins, brjóta nýtt land fyrir þau og byggja undir þau grunna. Lagningar raflagna, heitt og kalt vatn er jafnframt fyrir utan þann kostnað. Frágangur lóða er ekki heldur talinn en samkvæmt útboði sem nýlega var opnað er áætlað að 26 milljónir fari í frágang lóðarinnar í kringum smáhýsin í Gufunesi. Það er sífellt verið að blekkja og aldrei er öll sagan sögð. Þetta verkefni fer á endanum langt yfir milljarð svo mikið er víst. Hugmynd mín um að kaupa hótel eða gistiheimili fyrir heimilslausa var blásin út af borðinu. Líklega var sú hugmynd of góð til að hægt væri að samþykkja hana. Ef slík leið hefði verið farin hefði Reykjavíkurborg getað haft sólarhringsvakt í húsnæðinu. Alvarlegasti hluturinn varðandi smáhýsin í Grafarvogi er sá að svo virðist að þeim sé komið fyrir utan deiliskipulag. Mér er hætt að koma á óvart ruglið í Reykjavíkurborg.

 

Höfundur:  Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins

Greinin birtist í Grafarvogs- Grafarholts- og Árbæjarblaðinu þann 14. október, 2020