Samgöngusáttmáli í uppnámi?

Sífellt kemur betur og betur í ljós að varnaðarorð okkar miðflokksfólks á Alþingi í fyrrasumar í umræðu um sk. samgöngusáttmála voru á rökum reist. Í ítarlegum málflutningi okkar vöruðum við eindregið við þeim sið borgarstjórans í Reykjavík að líta á gerða samninga sem hlaðborð. Sjá má á efndum borgarstjóra á gerðum samningum yfir tíma þ.á m. nokkra samninga varðandi Reykjavíkurflugvöll að aldrei var ætlað að standa við nema það sem fellur að smekk borgarstjórans.

Þökk sé baráttu Miðflokksins var unnt að koma í veg fyrir að borgarstjóri hefði frítt spil um framkvæmd samgöngusáttmála. Það glitti í gamla ósiðinn nýlega þegar áætlanir um Sundabrú/Sundabraut voru kynntar. Borgarstjóri steig þegar fram og dró í efa að hægt væri að fara þá leið sem birt var og vitnaði til áðurnefndra hugmynda um göng. Þessi afstaða er viðbót við fyrirsjáanlegan drátt á byggingu mislægra gatnamóta sem getið er í sáttmálanum. Skömmu síðar fór fram kynning á fyrsta áfanga sk. borgarlinu sem ætlað er að kosti 30 milljarða króna. Ef marka má kynninguna mun fyrsti áfangi verða um 14 kílómetrar mest um þröngar íbúðagötur og á leiðinni verða 25 stoppistöðvar.

Ekki beint hraðferð eða hvað? Einnig má spyrja hvernig vagnar af þeirri stærð sem kynnt hefur verið eiga að komast leiðar sinnar um Hverfisgötu, Lækjargötu og Borgarholtsbraut svo dæmi séu nefnd nema útiloka eigi alla aðra umferð. Að auki verður blómleg starfsemi á Ártúnshöfða að víkja. Eitt fyrirtæki hefur þegar flúið höfuðborgina eins og fjölmörg önnur og mun setjast að í Þorlákshöfn. Öðrum verður væntanlega beint að Esjumelum sem eru ekki fýsilegur kostur fyrir starfsemina sem nú er á Höfðanum. Upplýsingum ber ekki saman um hvort sk. borgarlína fari fyrstu ferðina árið 2023 eða 2025. Seinni dagsetningin hefur þann kost fyrir borgarstjóra að hægt er að endurnýta þetta kosningamál enn einu sinni og prika upp með Pótemkíntjöldin einu sinni enn. Verra er að áform um nauðsynleg mislæg gatnamót og Sundabraut eru enn á ný í lausu lofti. Líklegt er að mislægu gatnamótin færist aftur fyrir 2025 og allt er á huldu um Sundabrú/Sundabraut. Hægur vandi er að hefja framkvæmdir við Sundabraut í báðar áttir frá Geldinganesi með skjótum hætti.

Þær framkvæmdir eru fljótunnar og myndu ekki trufla byggð nærri vegstæði. Á framkvæmdatíma væri síðan hægt að vinna að undirbúningi brúarinnar og hafa samráð við haghafa eins og Samskip sem lásu í blöðunum að Sundabrú ætti að skera starfsaðstöðu þeirra nánast í tvennt. Ekki er skýrt hvort uppbygging viðlegukants vestan brúar er inni í kostnaðarmati brúarinnar. Víst er að ef línur skýrast ekki fljótt um framkvæmdir við Sundabraut og mislæg gatnamót ásamt tímalínu er sk. samgöngusamningur í uppnámi.

 

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins í Rekjavíkurkjördæmi suður

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 10. febrúar, 2021