Sjálfstæðisflokkurinn – til hvers?

Viðskiptablaðið vakti athygli á því í pistli Óðins 21. september að ríkisstjórnin hefði í raun tekið lífskjör landsmanna að láni og að uppsafnaður hallarekstur áranna 2019-2023 væri samanlagt 571 milljarður.

Í pistli Óðins segir: „Ef við lítum aftur til ársins 2019, þegar Covid hafði ekki tekið hús á heiminum, þá voru ríkisútgjöldin 867 milljarðar samkvæmt ríkisreikningi og að núvirði 1.017 milljarðar króna. Fjárlögin fyrir næsta ár gera ráð fyrir 1.296 milljarða útgjöldum. Aukningin er 279 milljarðar eða 27,5%.“ Þetta er gríðarleg aukning að raunvirði og fjármálaráðherra verður að gera grein fyrir þessari þróun í tengslum við afgreiðslu fjárlaga næsta árs.

Heimsfaraldur Covid-19 sem reið yfir heimsbyggðina og setti allt á hliðina, bókstaflega, réttlætti vissulega tímabundna aukningu ríkisútgjalda til þess að hjálpa fólki og fyrirtækjum yfir erfiðasta hjallann. En eins og svo oft áður þegar ríkisútgjöld eru einu sinni aukin eru þeir fáir sem nenna að taka slaginn sem þarf til að lækka þau aftur, eins og nýtt fjárlagafrumvarp ber glögglega með sér.

Það er því skondið að velta því fyrir sér hvað Sjálfstæðisflokkurinn er að gera í þessari ríkisstjórn. Ekki er hann að stemma stigu við aukningu ríkisútgjalda, það er alveg á hreinu. Þrátt fyrir að halda á fjármálaráðuneytinu. Stuðningsmenn þessa flokks segja iðulega „jah ef mínir menn væru ekki í ríkisstjórninni þá væri þetta allt miklu verra“, en er það?

Væru fleiri opinberir starfsmenn? Varla, enda nær útilokað að fjölga þeim meira en verið hefur síðustu misseri undir þessari ríkisstjórn. Hrein vinstristjórn hefði ekki getað staðið sig betur í þeim efnum.

Væru ríkisútgjöld hærri? Varla, enda útgjaldavöxturinn slíkur á tímabilinu að þróunin gæti vart verið verri þótt menn reyndu sitt besta.

Væri báknið stærra og umfangsmeira? Varla, enda báknið stækkað stjórnlaust í boði Sjálfstæðisflokksins sem einu sinni sló sig til riddara undir flagginu „báknið burt“. Það er af sem áður var. Stjórnvöld innleiða nú regluverk af færibandinu í Brussel með meira íþyngjandi hætti en aðildarþjóðir Evrópusambandsins.

Væri eftirlitsiðnaðurinn meiri? Varla, enda blómstrar hann undir verndarvæng Sjálfstæðisflokksins. Ráðherrar flokksins reyna svo að kasta ryki í augu fólks og afnema úreltar reglugerðir og leggja af lögverndun starfsheita sem enginn hefur menntað sig til í áratugi.

Það er því vert að spyrja sig sömuleiðis hvort ekki sé ástæða til að leiða til valda einhverja sem meta stöðuna rétt og taka raunverulega slaginn fyrir lægri ríkisútgjöldum, meiri lífsgæðum og meira frelsi fólks þegar á reynir, ekki bara í orði. Þetta ríkisstjórnarsamstarf er löngu komið að leiðarlokum og þjóðin á betra skilið.

Bergþór Ólason, alþingismaður.
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 3. október, 2022.