Skógrækt - einungis ávinningur

Skógrækt er árángursríkasta leiðin sem fyrirfinnst til bindingar kolefnis.  Of mikið magn af efnasamböndum kolefnis í andrúmsloftinu er talin helsta orsök loftslagsbreytinga af mannavöldum. 

Skógrækt hefur fjölmarga aðra kosti.

Skógrækt er fjárfesting til framtíðar.  Langrar framtíðar.  Eftir efnahagshrunið dróst nýskógrækt verulega saman og hefur ekki aukist að neinu ráði allar götur síðan.  Á undanförnum árum hefur áherslan verið lögð á aukningu í birki, en nytjaskógrækt með öflugum trjátegundum hefur ekki aukist.  Ef leggja á áherslu á kolefnisbindingu eða nýtingu trjáviðar erum við á rangri braut, sem nauðsynlegt er að snúa af.

Þess vegna lagði ég í haust fram tillögu til þingsályktunar um fjórföldun skógræktar til kolefnisbindingar, úr rúmum þremur milljónum plantna á ári í tólf milljónir plantna.

Ávinningurinn af öflugri nýskógrækt með stórum og hraðvaxandi trjátegundum, sem sannað er að eiga góð vaxtarskilyrði hérlendis er augljós.  Nytjaskógur bindur mikið magn af kolefni samhliða því að binda jarðveg og hefta uppblástur.

Komandi kynslóðir munu eiga skóg sem sparar gjaldeyri og færir okkur innlent náttúrulegt byggingarefni, samhliða viðamikilli atvinnuuppbyggingu í byggðum landsins.  Með tíð og tíma verðum við sjálfum okkur nóg um timburafurðir.

Að auki hefur skógrækt góð áhrif á veðurlag, auðgar jarðveginn af lífrænum efnum, dregur úr áburðarnotknun og uppskera verður áreiðanlegri.  Þannig styður skógrækt við aðrar greinar landbúnaðar.

Skógur veitir skepnum og mannfólki skjól og er kjörinn til útivistar.  Skógurinn felur í sér mikilvægt skref til bættrar lýðheilsu.  Skógur laðar að dýr af ölum tegundum, því þar er gnægð matar.

 

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi
Greinin birtist í Tímariti Landssamtaka skógareigenda þann 18. mars, 2021