Skuldafenið í Reykjavík

Reykjavíkurborg er sokkin í skuldir. Á löngum starfstíma Dags B. Eggertssonar hófst sú fordæmalausa skuldasöfnun sem Reykvíkingar sitja nú uppi með. Árið 2013 var ríkissjóði skilað hallalausum í fyrsta sinn eftir bankahrunið 2008 og í kjölfarið hóf ríkið að greiða niður skuldir í stórum stíl. Rétt er að rifja upp að viðspyrnan í þeim aðgerðum var að í tengslum við nauðasamninga slitabúa föllnu fjármálafyrirtækjanna og undanþágu þeirra frá gjaldeyrishöftum, lögðu slitabúin fram stöðugleikaframlög sem runnu í ríkissjóð í forsætisráðherratíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Sú aðgerð var án fordæma og var töluð niður af flestum þingmönnum allra flokka þekktum fjármála- og hagfræðispekúlöntum sem töldu þessa aðgerð væri óframkvæmanlega. Að vísu var þessum góða árangri í ríkisfjármálunum glutrað niður á örfáum árum og 2019 var ríkissjóður kominn á ný í halla og hefur verið það síðan. Þessi árangur varð til þess að ríkissjóður var vel í stakk búinn að mæta þeim áföllum sem hlotist hafa vegna Covid en það er mikið áhyggjuefni hvað skuldasöfnunin er mikil síðustu mánuði. Lítum nú til Reykjavíkur. Á sama tíma eða árið 2013 er þessi stórkostlegri árangur náðist í ríkisfjármálum byrjaði Reykjavíkurborg að safna skuldum og er skuldastaðan nú yfirþyrmandi. Ekkert borð var fyrir báru í rekstrinum að taka við fjárhagslegum áföllum.

Skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar jukust um 41 milljarð milli áranna 2019 og 2020 eða úr 345 milljörðum í 386 milljarða - eða um 800 milljónir á viku að meðtöldum rauðum dögum - eða um 3,5 milljarð á mánuði !!!

Samkvæmt lántökuáætlun fyrir árið 2021 er áætlað að samstæðan auki skuldir sínar um 52 milljarða og á borgarsjóður 34 milljarða af þeirri lántökuupphæð - eða 1 milljarð á viku að meðtöldum rauðum dögum - eða um 4,4 milljarða á mánuði!!!

Í árslok 2021 er áætlað að samstæðan skuldi 438 milljarða. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2020 hækkuðu allir tekjupóstar á milli ára og því hefði verið vandræðalaust að reka borgina réttu megin við núllið. Það var hins vegar ekki raunin því eyðslan var botnlaus á árinu og sem dæmi þá hækkuðu laun og launatengd gjöld um 12% og stöðugildi voru aukin um 5% á milli ára. Fjölgun starfsmanna Reykjavíkur á þessu kjörtímabili fer langt yfir 1.000 manns þegar stytting vinnuvikunnar kemur til framkvæmda. Það er staðreynd. Engar tillögur eru bornar upp af borgarstjóra eða meirihlutanum til hagræðingar í rekstri eða sparnaðar. Það er gefið í og slegin ný lán.

Lánakjör borgarinnar fara sífellt hrakandi eins og nýjustu útboðin gefa til kynna. Borgarstóri sér ekki lengur upp úr skuldafeninu og hefur misst sjónar á fjárhagsstöðu borgarinnar. Að slá lán út á komandi kynslóðir til að friðþægja samviskuna fyrir óþörfum og tilgangslausum gæluverkefnum nútímans hefur aldrei verið góð uppskrift. Þessi gríðarlega skuldasöfnun er í það minnsta ekki að skila sér í lögbundna þjónustu eða innviði. Svo mikið er víst þegar litið er yfir þjónustuleysi og eigur sem grotna niður fyrir framan nefið á meirihlutanum. Sveitastjórnarráðherra sem ber ábyrð á sveitarfélögunum lítur í hina áttina þrátt fyrir þessar staðreyndir og hjálpar til við Reykjavíkursukkið með framlengingum á reglugerðum og kýs að líta framhjá úrskurðum úrskurðanefnda ríkissins.

Með þeim aðgerðum heldur borgarstjóri áfram að gefa ranga mynd af rekstri samstæðunnar með froðubókhaldi. Kannski er búið að meta það sem svo að „borgin er of stór til að falla“.

 

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins í Reykjavík

vigdis.haukdsottir@reykjavik.is

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 8. maí