Skynsemin sigraði í Borgarfirði en hvað með Stóru-Brákarey?

Það var ánægjulegt að sjá að góð og skynsamleg lausn fékkst varðandi hús Páls Guðmundssonar, myndhöggvara á Húsafelli. Þjóðin fylgdist með þessari deilu og virtist stefna í óefni þegar skynsemin náði yfirhöndinni. Samningaviðræður voru vissulega erfiðar, enda miklar tilfinningar í málinu. Niðurstaðan er ánægjuleg og að endingu öllum til sóma sem að málinu komu. Allir landsmenn fagna úrslitum málsins og gleðjast með Páli yfir húsinu.

Þessi niðurstaða ætti að vera okkur lexía um það að setjast niður og reyna að finna skynsamar lausnir, það er nú einu sinni það sem við Miðflokksmenn reynum að tala fyrir. Röklegar og skynsamar lausnir til hagsbóta fyrir alla. Hér í Borgarfirði er annað mál sem þyrfti að leiða til lykta með líkum hætti. Það lýtur að húsunum í Stóru-Brákarey en notkun þeirra hefur verið í sjálfheldu um nokkurt skeið og tafið uppbyggingu og hindrað nýtingu á eyjunni sem gefur svo mikla möguleika fyrir samfélagið í Borgarnesi. Ýmis starfsemi þar var lögð af í vetur og var ófullnægjandi brunavörnum m.a. kennt um.

Eyjan hefur um nokkurt skeið verið nánast mannlaus og engir á ferli í húsum, enda slík umferð bönnuð. Hér er um að ræða íþyngjandi ástand sem snertir marga. Húsakostur þarna hefur í gegnum tíðina verið nýttur fyrir fjölmarga starfsemi sem ýmist hefur greitt lága leigu fyrir afnot af húsunum eða enga. Þannig eru t.d. um fjögur hundruð félagsmenn í fornbílafélagi, bifhjólaklúbbi, skotáhugafólk og eldri borgarar sem stunda pútt með aðstöðu í húsunum. Auk þess vinnustaður Öldunnar, bátasmiðja og trésmíðaverkstæði svo nokkrir rekstraraðilar séu nefndir. Fleira mætti tína til, allt mikilsverð og áhugaverð starfsemi.

Margir hafa tjáð sig um málið sem brennur eðlilega á íbúum Borgarnes. Þar hafa verið í gangi margar áhugaverðar hugmyndir um það hvernig megi nýta Stóru-Brákarey til að efla samfélagið og augljóslega hugur í Borgnesingum um framtíðaruppbyggingu þarna. Eins og gengur eru skoðanir skiptar um hvers kyns starfsemi á þar helst heima en flestir eru sammála um að nýta skuli eyjuna. Það er ekki ætlun mín með þessu stutta innslagi að taka afstöðu í deilunni. Ég vil fyrst og fremst fá menn til að horfa skynsamlega á málið og leita lausna sem fyrst til hagsbóta fyrir alla íbúa. Við sáum það í Húsafelli að það er hægt að leysa málin ef menn setjast niður og leita skynsamra lausna.

 

Sigurður Páll Jónsson er alþingismaður og situr í 2. sæti á framboðslista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi

sigurdurpall@althingi.is

Greinin birtist í Skessuhorni þann 18. ágúst, 2021