Sneitt af fullveldinu

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Ísland varð fullvalda ríki 1. desember 1918. Þá eftir áratuga baráttu framsækinna Íslendinga sem skildu mikilvægi þess að þjóðin réði eigin málum. Baráttan fyrir heimastjórn, stjórnarskrá, fullveldi og síðar lýðveldi var háð með lagarökum og staðfestu. Fullveldið markar tilveru ríkisins þar sem Íslendingar réðu meira um sín mál. Um leið var lagður grunnur að stofnun lýðveldisins tuttugu og sex árum síðar.

Það var ekki sjálfgefið að fá fullveldi og geta síðar stofnað lýðveldi enda sjáum við nú, rúmum hundrað árum frá fullveldinu, að aðrar þjóðir eru enn að berjast fyrir sínu fullveldi og sjálfstæði.

Íslendingar hafa alla tíð gert sér grein fyrir mikilvægi þess að eiga góð samskipti við önnur ríki og taka þátt í alþjóðasamstarfi. Þátttakan hefur oftast tekið mið af hagsmunum fullveldisins þar sem horft er til alþjóðalaga og samninga, s.s. Hafréttarsáttmálans. Afstaða okkar í utanríkismálum hefur þá einnig tekið mið af mikilvægi þess að virða fullveldið, alþjóðasamninga og landamæri ríkja. Undantekningar frá þeirri meginreglu að afsala ekki fullveldinu eða hluta þess eru vissulega til en engin með jafn afdrifaríkum afleiðingum og þátttaka okkar í EES-samstarfinu.

Engin ein ákvörðun hefur haft í för með sér jafn mikið framsal fullveldis og til þess var stofnað fyrst og fremst á viðskipalegum hagsmunum enda samningurinn fyrst og fremst viðskiptasamningur þótt á honum hangi ýmislegt annað. Því miður nálgast sumir stjórnmálamenn fullveldið líkt og það sé einhvers konar vara sem skipta megi milli alþjóðlegra stofnana í von um viðskipti og/eða ímynduð völd. Aðrir telja það nánast skyldu Íslendinga að ganga til liðs við yfirþjóðlegt vald og vera þannig „þjóð meðal þjóða“. Ekkert vinnur meir gegn fullveldi þjóðar en að fela öðrum að taka ákvarðanir fyrir sig líkt og ESB stendur fyrir.

EES-samstarfið hefur verið Íslendingum jákvætt á ýmsan hátt, sérstaklega þegar kemur að því að keppa á viðskiptalegum forsendum innan Evrópu. En samstarfið hefur í raun þróast á þann veg að fullveldi Íslands má líkja við salamipylsu þar sem ein sneið er skorin í einu og snædd af ESB.

Orkupakkarnir eru dæmi um þetta og Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á því að innleiða orkustefnu ESB á Íslandi. Ég og margir aðrir vöruðum sterklega við því að þetta yrði gert því með því væri verið að undirbúa jarðveg fyrir næsta orkupakka sem er á fullri ferð innan samþykktarferlis ESB. Þeir orkupakkar sem á eftir koma munu miða að því að miðstýra m.a. ákvörðunarvaldi um verðlagningu og hvernig farið verður með orku sem verður til á Íslandi enda lítur ESB á orku sem hverja aðra vöru. Á þessari sneið pylsunnar bera utanríkis- og ferðamálaráðherra ábyrgð.

 

Höfundur:  Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi og formaður þingflokks Miðflokksins

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 2. desember, 2020