Stærra bákn og meiri skattbyrði

„Mér finnst standa upp úr þessu frum­varpi, líkt og und­an­far­in ár, óhóf­leg bjart­sýni á þróun efna­hags­mála og að ein­hverju leyti sem af­leiðing af því er áfram verið að bæta við báknið. Talað er fjálg­lega um skatta­lækk­an­ir en á sama tíma er hins veg­ar gert ráð fyr­ir að skatt­tekj­ur rík­is­ins auk­ist mjög veru­lega. Um marga tugi millj­arða króna.“

Þetta seg­ir Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, formaður Miðflokks­ins, í sam­tali við mbl.is um fjár­laga­frum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar vegna árs­ins 2020. Haldið sé síðan áfram að búa til nýja skatta og gjöld. „Alls kon­ar dell­u­gjöld sem mörg hver eru í raun­inni nefskatt­ur. Nú á til dæm­is að setja á ein­hver sorp­gjöld. Fólk borg­ar þegar ein­hverja skatta og borg­ar sér­stak­lega fyr­ir förg­un en nú á að setja á eins kon­ar refsiskatt fyr­ir að henda sorpi og á sama tíma á auðvitað að hækka aðra svo­kallað græna skatt.

Þrjú þrep eins og hjá vinstri­stjórn­inni

Mér þykir þetta mik­il öfugþróun, að vera að flækja skatt­kerfið með þess­um hætti og um leið auðvitað fela þær álög­ur sem verið er að leggja á fólk með því að dreifa þeim á hitt og þetta og gefa því ný nöfn. Þannig að álög­ur á al­menn­ing á Íslandi eru á heild­ina litið alltaf að aukast. Þetta eru þessi sýnd­ar­stjórn­mál ég hef verið að gagn­rýna.“

Sig­mund­ur seg­ir að við þetta bæt­ist að Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra ætli að taka aft­ur upp þriggja þrepa skatt­kerfi, líkt og verið hafi í tíð rík­is­stjórn­ar Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs, þegar hann hafi áður státað sig af því að skattþrep­um hefði verið fækkað niður í tvö í rík­is­stjórn­inni sem þeir tveir fóru fyr­ir.

„Ég hefði talið miklu væn­legra að koma til móts við þá tekju­lægstu með því að hækka per­sónu­afslátt­inn en þess í stað er hann lækkaður og skatt­ar hækkaðir í milliþrep­inu nýja. Þannig að mér þykja margt í þessu vera póli­tísk leiktjöld en áhrif­in af því verða jafnt og þétt aukn­ar álög­ur á al­menn­ing og flókn­ara skatt­kerfi.“

Þá gagn­rýn­ir Sig­mund­ur enn­frem­ur að sam­nýt­ing skattþrepa hjóna, og annarra sam­skattaðra ein­stak­linga, falli niður um ára­mót­in sam­kvæmt frum­varp­inu sem skila eigi rík­is­sjóði þrem­ur millj­örðum króna ár­lega. „Þetta er skatta­hækk­un og geng­ur þannig gegn því sem ég hefði talið meðal grund­vall­ar­hug­sjóna Sjálf­stæðis­flokksins."

 

Viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, sem birtist í Morgunblaðinu þann 7. september, 2019