Stjórnlaust stórmál

Málefni flóttamanna og annarra innflytjenda eru með alstærstu málum sem þjóðir heims standa frammi fyrir. Meira en nokkru sinni fyrr einkennast stjórnmál Vesturlanda af yfirbragði umfram innihaldi. Ein af afleiðingum þeirrar þróunar er sú að því stærra sem viðfangsefnið er þeim mun erfiðara er að ræða það.

Til að ná árangri í stórum málum þarf hins vegar að vera hægt að skoða og ræða staðreyndirnar, meta innihaldið en ekki bara umbúðirnar. Ef við viljum hjálpa sem flestum þeirra sem þurfa mest á hjálp að halda og gera eins mikið gagn og kostur er þurfum við að gera okkur grein fyrir eðli málanna og meta þannig hvernig best er að bregðast við.

Innflytjendamál eru hins vegar í ólestri á Íslandi og einkennast í auknum mæli af stjórnleysi. Hælisleitendur bíða í sumum tilvikum árum saman eftir því að fá niðurstöðu. Með því er mikið lagt á fólk sem hingað leitar. Um leið ýtir þessi staðreynd undir tilhæfulausar umsóknir. Slíkum umsóknum er sérstaklega beint að ríkjum þar sem frestunarmöguleikarnir eru mestir. Úr verður keðjuverkun sem er skaðleg fyrir næstum alla en sérstaklega þá sem þurfa mest á hjálp að halda.

Ísland sker sig úr

Hælisumsóknum hefur fjölgað gríðarlega á Íslandi á undanförnum árum á sama tíma og þeim hefur fækkað í mörgum nágrannalöndum okkar. Nú er svo komið að hælisumsóknir eru hlutfallslega flestar á Íslandi af öllum Norðurlandaþjóðunum (meira að segja fleiri en í Svíþjóð). Í fyrra voru slíkar umsóknir, miðað við íbúafjölda, fimmfalt fleiri á Íslandi en í Danmörku og Noregi.

Í Finnlandi, eins og á Íslandi, höfðu umsóknir verið mun færri en annars staðar á Norðurlöndunum áratugum saman. Það vakti því athygli þar í landi þegar fjöldi umsókna tók skyndilega fram úr Noregi og Danmörku (í fyrra voru þær tvöfalt fleiri). Breytt lög og reglur, þ.m.t. auknir frestunarmöguleikar, höfðu komið Finnlandi á kortið hjá þeim sem skipuleggja ferðir til Vesturlanda. Finnskur ráðherra sagði mér fyrir nokkrum árum að skyndilega hefðu hátt í 60.000 Írakar sótt um hæli þar í landi á skömmum tíma. Þegar stjórnvöld könnuðu hvað hefði gerst kom í ljós að eftir reglubreytingu hefði straumi sem áður lá til Belgíu verið beint til Finnlands.

Hvernig er staðan á Íslandi samanborið við Finnland eftir þessa hröðu breytingu? Hlutfallslega eru umsóknirnar þrefalt fleiri á Íslandi. Það er afleiðing ákvarðana og ákvarðanaleysis á undanförnum árum.

Bætt í

Á síðasta þingi lagði ríkisstjórnin fram frumvarp sem hefði tryggt þeim sem fá hæli á Íslandi, hvort sem þeir koma á eigin vegum eða annarra, löglega eða ekki, sömu þjónustu og ríkið veitir þeim kvótaflóttamönum sem við bjóðum til landsins. Það tókst að koma í veg fyrir afgreiðslu þessa máls. Með samþykkt hefði verið settur stór rauður hringur um Ísland sem áfangastað í bókum þeirra sem selja fólki væntingar dýrum dómi og senda það af stað í hættulega óvissuferð. Með því hefði Íslandi verið tryggt heimsmet sem helsti áfangastaðurinn miðað við fólksfjölda (ef við höfum ekki náð því nú þegar).

Hvernig gerum við mest gagn?

Þegar straumur flóttamanna og förufólks til Evrópu jókst gríðarlega árið 2015 (eftir að landamæri Þýskalands voru opnuð) jók ríkisstjórnin framlög til flóttamannamála verulega en ég lagði áherslu á að fjármagnið gerði sem mest gagn fyrir þá sem þyrftu mest á hjálp að halda. Ég ákvað svo að fara til Líbanons og Möltu til að kynna mér ástandið af eigin raun. Það reyndist mjög lærdómsrík ferð.

Líbanon er enn að jafna sig eftir langa og grimmilega borgarastyrjöld. Efnahagur landsins er í rúst en landið hefur engu að síður tekið að sér að reisa fjölda flóttamannabúða sem sumar minna á bæi eða jafnvel borgir. Flestir sem þar búa segjast vilja snúa aftur heim þegar tækifæri gefst til. Líbanon hefur hins vegar fengið allt of lítinn stuðning frá stjórnmálamönnum í löndum þar sem ímyndarstjórnmál ráða för. Þar vilja menn hafa „góðmennsku“ sína sýnilega og nálæga fremur en að veita fjármagn þar sem það gerir mest gegn.

Íslensk stjórnvöld verða að ná stjórn á aðgerðum landsins í flóttamanna- og innflytjendamálum. Ella heldur áfram keðjuverkun sem 350.000 manna ríki mun ekki ráða við. Sífellt fleiri munu fara af stað með óraunhæfar væntingar og í mörgum tilvikum borga stórhættulegum glæpamönnum fyrir að koma sér áleiðis. Keðjuverkunin heldur svo áfram.

Löggjöf og framkvæmd

Löggjöf um málaflokkinn er meingölluð. Hún ýtir undir þessa þróun, tekur lítið tillit til raunveruleikans og er ekki til þess fallin að beina aðstoðinni að þeim sem þurfa mest á henni að halda. En það þarf líka að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda og hafa virkað. Dyflinnarreglugerðin var ekki sett að ástæðulausu. Samkvæmt henni á að afgreiða hælisumsóknir í því Evrópulandi sem umsækjandinn kemur fyrst til. Eftir að íslensk stjórnvöld fóru að víkja frá henni varð landið fyrst að áfangastað þeirra sem ekki eiga tilkall til „alþjóðlegrar verndar“. Því skyldu menn fylgja reglunum ef Ísland auglýsir sig sem land sem lítur fram hjá þeim?

Við þurfum að hafa skilvirka löggjöf þar sem umsóknir eru afgreiddar hratt (m.a. 48 tíma reglu eins og í Noregi) og afnema allar reglur sem notaðar eru til að skapa óraunhæfar væntingar um Ísland sem áfangastað. Aðrar Norðurlandaþjóðir keppa nú hver við aðra um að draga úr væntingum fólks um dvalarleyfi. Allar nema Ísland. Ef við skerum okkur úr meðal norrænu landanna á þessu sviði verður ekki við neitt ráðið. Það hefur varla farið fram hjá fólki að þrátt fyrir að landið sé nánast lokað vegna heimsfaraldursins kemur enn mikill fjöldi fólks sem telur Ísland vænlegasta kostinn fyrir hælisumsókn.

Reynsla annarra

Sögur um bestu áfangastaðina dreifast hratt á samfélagsmiðlum og Danir hafa á undanförnum árum gripið til róttækra aðgerða til að draga úr straumnum þangað. Ríkið birti í því skyni auglýsingar í fjölmiðlum í Mið-Austurlöndum og gerði svo kröfu um að flóttamenn afhentu eignir sínar við komuna. Hið síðarnefnda þótti mér ómannúðlegt en líklega var ætlunin ekki að framfylgja stefnunni heldur að draga úr sölu ferða til Danmerkur.

Heildstæðasta og besta stefna sem ég hef séð um þessi mál er stefna danskra sósíaldemókrata fyrir þingkosningarnar í fyrra. Þar eru dregnar skýrar línur um að reglum skuli fylgt en einnig um mikilvægi þess að þeir sem fá hæli í landinu skuli laga sig að dönsku samfélagi. Stefnan byggist í raun á gömlum og góðum gildum jafnaðarmanna um mikilvægi samheldinna samfélaga. Þeir gera sér grein fyrir því að sterkt velferðarkerfi og opin landamæri fara ekki saman.

Allt er þetta spurning um að meta staðreyndir og ná stjórn á málum svo hægt sé að tryggja hagsmuni samfélaganna og hjálpa þeim sem mest þurfa á hjálp að halda eins mikið og kostur er.

Höfundur:  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 7. nóvember, 2020