Táknrænn minnisvarði fyrir framlag íslenskra kvenna til listar

Saga allra þeirra huldukvenna sem sagan greinir ekki frá.

Í febrúar mælti ég fyrir tillögu minni og tólf annarra þingmanna til þingsályktunar um að reistur yrði minnisvarði um Margréti hina oddhögu í Skálholti. Margrét var prestkona í Skálholti á ofanverðum dögum Páls biskups Jónssonar og var eftir því sem sagan segir „oddhögust allra manna á Íslandi“ um sína daga. Páll biskup (1155-1211) var framkvæmdamaður og listunnandi. Í hans tíð störfuðu margir listamenn í Skálholti og Margrét var í þjónustu biskups ásamt fleiri listamönnum og bjó í Skálholti ásamt manni sínum, séra Þóri.

Minnisvarði um Margréti

Eins og tillagan gerir ráð fyrir er löngu komin tími til að minning þessarar merku konu verði heiðruð og henni verði reistur minnisvarði í Skálholti, þar sem Margrét starfaði að list sinni.

Í sögu Páls biskups segir um biskupsstaf af tönn, sem Margrét skar fyrir Pál og var sendur Þóri erkibiskupi í Niðarósi, að hann hafi verið gerður svo haglega að „engi maðr hafði fyrr sét jafnvel gervan á Íslandi“ eins og það er orðað í sögu biskups.

Húnn af bagli

Þegar steinþró Páls biskups var tekin úr jörðu og opnuð sumarið 1954 fannst í henni húnn af bagli úr rostungstönn, útskorinn í líki dýrshöfuðs og forkunnarvel gerður. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður, sem stýrði uppgreftrinum, taldi líklegt að þarna væri á ferð verk Margrétar hinnar oddhögu og hafa margir hallast að þeirri skoðun með honum.

Jákvæðar umsagnir

Allsherjar- og menntamálanefnd þingsins hafa borist umsagnir um málið frá Listasafni Íslands og Skálholtsbiskupi, herra Kristjáni Björnssyni, sem báðar eru afar jákvæðar í garð tillögunnar.

Allar, sem sagan greinir ekki frá

Segir í umsögn Listasafns Íslands um tillöguna „ … Það minnismerki yrði táknrænt fyrir framlag íslenskra kvenna til listar; til allra þeirra huldukvenna sem sagan greinir ekki frá eða lítið er vitað um frá fyrri tíð. Verðugt er að geta Margrétar sem fyrstu nafngreindu listakonunnar … „

Ein merkasta listakona Íslands

Í umsögn vígslubiskups segir m.a. svo: „ … Það hefur allt of lítið verið gert af því að lyfta og heiðra minningu þeirra kvenna sem unnið hafa og þjónað í Skálholti í allar þær aldir sem biskupsstóll hefur verið þar á hinu forna höfuðbóli … Með Páli biskupi heldur áfram að streyma til landsins þekking og listræn hæfni. Frá þessum tíma eigum við minjar sem eru merkar og sannarlega gerðar hér í Skálholti og á vegum biskupsstólsins. Ein allra merkasta listakona Íslands á þessum tíma er Margrét hin oddhaga. Minningu hennar hefur verið haldið á lofti í Skálholti og það er vitað með vissu (samkv. rannsóknum Kristján Eldjárns, síðar forseta Íslands) að Margrét hefur skorið út merkan bagal með hún úr beini með táknum fyrir þjónustu biskupa og hlutverk þeirra. Sá bagalshúnn fannst við uppgröft í Skálholti á 6. áratugnum í steinþró Páls biskups og er varðveittur og sýndur á Þjóðminjasafninu í Reykjavík. Steinþróin er einn merkasti gripurinn á sýningu Þjóðminjasafnsins í kjallara Skálholtsdómkirkju. …“

Í farteskið

Með slíkar umsagnir í farteskinu mun minnisvarði um nafngreinda merka listakonu frá 12. öld brátt rísa í Skálholti og verða þannig táknrænt fyrir stórmerk framlög íslenskra kvenna til listar og ekki síður margra þeirra huldukvenna, sem sagan greinir ekki frá. 

 

Karl Gauti Hjaltason
Þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi
kgauti@althingi.is

Greinin birtist í Dagskránni - Fréttablaði Suðurlands þann 28. apríl, 2021