Það er önnur leið og hún er til hægri

Mörgum þótti heldur ríflegur skammtur af yfirlæti í þeim orðum oddvita Framsóknarmanna í Reykjavík er hann sagði við oddvita Sjálfstæðismanna í borginni, í beinni útsendingu í sínu gamla setti hjá RÚV, að „enginn vildi vinna með þeim“ og átti þá við að honum hafi verið nauðugur sá einn kostur að reisa við tvífallinn meirihluta Dags B. Eggertssonar eftir kosningarnar. Þetta gerði hann þrátt fyrir að hafa fengið fjölda fólks til að kjósa breytingar í borginni – sem sagt breytingu á stjórn borgarinnar, breytingu á þrotinu sem Dagur hefur boðið upp áífjölda ára, breytingu til hins betra. En Einar stóð ekki sterkari í stígvélunum en svo að hann hljóp strax í faðm Dags og frá breytingunum sem hann boðaði. Hann valdi að fara til vinstri.

Það liggur fyrir að hann gat valið að fara til hægri. Hann gat valið breytingarnar sem hann boðaði.

Þegar Einar Þorsteinsson sagði þessi fleygu orð þá var hann með 18,7% fylgi. Eftir að hann valdi til vinstri mælist fylgið hins vegar 8,2%. Það hlýtur að vera smá skellur fyrir karlangann að missa rúmlega helminginn af því fylgi sem flokknum hlotnaðist í liðnum borgarstjórnarkosningum. 55% fall á rúmu hálfu ári – það gæti talist Reykjavíkurmet í dýfingum.

En Einar getur reynt að hugga sig við það að hann er ekki sá eini sem brást væntingum kjósenda eftir síðustu kosningar því Sjálfstæðisflokkurinn á landsvísu stendur í sömu sporum.

Flokkur sem lofaði kjósendum sínum skattalækkunum, minna bákni, frjálsara samfélagi og svo framvegis situr nú annað kjörtímabilið sveittur við að halda lífi í vinum sínum til vinstri. Hvert málið á fætur öðru rímar við stefnu vinstri manna á meðan mál með marki hægrimanna stoppa við hvern stein sem VG dreifir í götuna. En svar Sjálfstæðismanna er alltaf það sama – það sé ekki annað stjórnarsamstarf í boði, þeir verði að styðja við vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur og dansa eftir sovésku tónlistinni sem ómar hátt um Stjórnarráðið.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins lækkar jafnt og þétt og forsvarsmenn reyna að teikna upp þá mynd að þetta sé í raun hinn eðlilegasti hlutur enda svo margir flokkar. Þetta hafi auðvitað ekkert að gera með það að flokkurinn velur stöðugt vinstri leiðina þegar sú hægri er í boði. Ríkisstjórn sem gæti raunverulega gert breytingar í frelsisátt er í boði – stærsti hægriflokkurinn bara velur annað á hverjum degi.

En rökin og útskýringarnar verða að líkindum jafnhaldlítil fyrir oddvita Framsóknar í borginni og þau eru gagnvart stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins. En fyrir þessa sömu stuðningsmenn, sem horfa sorgaraugum á það sem hefði getað orðið í lands- og borgarmálunum, ætti Miðflokkurinn að kveikja vonarneista. Það er nefnilega önnur leið fær – sú er til hægri.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 3. febrúar, 2023.