Þakkir

Þakkir

 

Síðastliðinn laug­ar­dag birt­ist grein eft­ir mig í Morg­un­blaðinu sem vakti nokkra at­hygli. Ástæða er til að þakka fólk­inu sem hrósaði grein­inni en þó sér­stak­lega þeim sem reyttu hár sitt og for­dæmdu skrif­in. Án þeirra hefði ekki tek­ist að færa sönn­ur á inni­hald grein­ar­inn­ar.

Að vísu verð ég að fall­ast á að ekk­ert bendi til þess að þorri gagn­rýn­enda hafi haft fyr­ir því að lesa grein­ina. Lík­lega hafa nokkr­ir þeirra gert það en þeim tókst þó ágæt­lega að leyna því.

Með viðbrögðunum fékkst staðfest­ing á öll­um meg­in­at­riðum grein­ar­inn­ar um eðli svo kallaðra ímynd­ar­stjórn­mála og rétt­trúnaðar sam­tím­ans. Litl­ar sem eng­ar at­huga­semd­ir voru gerðar við inni­haldið. Þess í stað völdu gagn­rýn­end­ur sér það sem þá langaði helst að setja út á, ímynduðu sér að það stæði í grein­inni og for­dæmdu það svo. Þessu fylgdu hefðbundið per­són­uníð og sleggju­dóm­ar. Allt sam­kvæmt upp­skrift ímynd­ar­stjórn­mál­anna.

Allt annað en inni­haldið

Vilji menn taka und­ir stefnu sam­tak­anna Black Li­ves Matter (ekki bara nafnið) geta þeir gert það. Telji þeir rétt­læt­an­legt að sví­v­irða eða út­skúfa þá sem leit­ast við að efna til rök­ræðu um rétt­trúnaðinn (eða styðja hann ekki á nógu öfga­kennd­an hátt) geta þeir sagt það. Þeir sem telja rétt að meta það sem fólk seg­ir og ger­ir út frá húðlit eða öðrum ein­kenn­um mega láta vita af því. Gagn­rýn­end­ur grein­ar­inn­ar treysta sér hins veg­ar ekki til að ræða þessi atriði eða annað inni­hald henn­ar.

Hinir sömu telja að þeir sem leggja áherslu á jafn­an rétt alls fólks séu með því að lýsa and­stöðu við alla aðra hópa en eig­in út­hlutaða hóp. Rök­vísi er ekki beint meg­in­ein­kenni rétt­trúnaðarridd­ar­ans.

Gagn­rýn­end­um rétt­trúnaðar­ins eru svo gerðar upp alls kon­ar hvat­ir, ekki vegna þess sem þeir segja eða gera, held­ur á grund­velli þess hóps sem viðkom­andi var út­hlutað.

Neyðarstimp­ill­inn

Þeir sem lengst gengu (fáir þeirra eru þekkt­ir fyr­ir jafnaðargeð og umb­urðarlyndi) töldu meira að segja til­efni til að nýta neyðarstimp­il vinstriöfga­manna, fas­ist­astimp­il­inn.

Þetta er löngu þekkt sem fyrsta og síðasta út­spilið úr þeirri átt þegar rök­in skort­ir. Aðferðin var t.d. mikið notuð af komm­ún­ist­um í Aust­ur-Evr­ópu. All­ir sem ekki voru komm­ún­ist­ar töld­ust fas­ist­ar. Vest­ræn ríki voru að þeirra mati und­ir stjórn fas­ista og Berlín­ar­múr­inn var fyr­ir vikið kallaður „and­fasíski vegg­ur­inn“.

Hvað er fasískt við að vilja tryggja jafn­an rétt allra ein­stak­linga? Þeirri spurn­ingu telja þeir sem fara frjáls­lega með stimp­il­inn óþarft að svara. Þeir þurfa reynd­ar alls ekki að út­skýra neitt. Hvers vegna ættu þeir að þurfa að út­skýra til­finn­ing­ar sín­ar þegar þær vega svo miklu þyngra en staðreynd­ir?

Rót­tæk­ling­ar á Vest­ur­lönd­um tóku þetta upp og Sex Pistols sungu „Guð blessi drottn­ing­una [og] fas­ista­stjórn henn­ar“. Þar var reynd­ar átt við stjórn Verka­manna­flokks­ins und­ir for­ystu James Callag­h­an. Lagið var hins veg­ar mun betra en ámót­leg­ur söng­ur ís­lenskra öfga­manna þar sem skort­ir ekki aðeins vit held­ur einnig frum­leika. Það er ekk­ert pönk í því að stinga fingr­un­um í eyr­un, loka aug­un­um og öskra of­notaða frasa.

Eðli öfga­hreyf­inga

Þótt hama­gang­ur öfga­fólks geti stund­um virst spaugi­leg­ur er þó mik­il­vægt að taka þró­un­inni al­var­lega. Bols­hevik­ar voru inn­an við 1% Rússa þegar þeir tóku völd­in þar í landi. Þegar maður les sög­una og velt­ir fyr­ir sér hvernig í ósköp­un­um hlut­ir geti stund­um farið svo ótrú­lega illa á skömm­um tíma veit­ir sam­tím­inn ákveðin svör.

Öfga­menn flokka fólk und­an­tekn­inga­laust í hópa og segj­ast vera að gæta hags­muna þeirra sem hall­ar á. Oft­ar en ekki er það sama fólk og fer verst út úr bylt­ing­unni.

Af­leiðing­arn­ar

Und­an­farn­ar vik­ur hef­ur glæpatíðni snar­auk­ist í Banda­ríkj­un­um. Marg­ar borg­ir brugðust við kröfu „bylt­ing­ar­inn­ar“ um að fjár­svelta lög­regl­una. Borg­ar­stjórn Minn­ea­pol­is samþykkti meira að segja álykt­un um að leggja niður eigið lög­reglulið. Í New York sem var þekkt sem glæpa­borg fram á 10. ára­tug­inn hafði náðst gríðarleg­ur ár­ang­ur í að draga úr glæp­um. Morðum fækkaði um 86% milli 1990 og 2019. Borg­ar­stjórn New York svaraði kall­inu um að draga úr lög­gæslu. Lög­reglu­menn sem áfram voru á vakt kvörtuðu und­an því að þeir þyrðu vart að at­hafna sig. Áhrif­in létu ekki á sér standa. 270 voru skotn­ir í New York í júní, meira en tvö­falt (154%) fleiri en í sama mánuði í fyrra. Í Chicago, sem hef­ur glímt við glæpafar­ald­ur árum sam­an er ástandið enn verra. Meira að segja BBC fjallaði um „spreng­ingu í of­beldi“ í Chicago og hafði eft­ir lög­reglu borg­ar­inn­ar að hún væri búin að missa stjórn á ástand­inu. Einnig kom fram að yfir­öld veigruðu sér nú við að ákæra brota­menn.

Allt bitn­ar þetta hlut­falls­lega mest á minni­hluta­hóp­um. Einkum fólki af afr­ísk­um upp­runa. Þetta er hin raun­veru­lega af­leiðing ímynd­ar­stjórn­mál­anna.

Vand­inn við hópa

Það er eðli­legt að skipta fólki í þá hópa sem það vel­ur sér, t.d. út frá skoðunum, en það að skipta fólki í hópa út frá meðfædd­um ein­kenn­um, eða að neyða fólk í til­tekna hópa, end­ar illa.

Þegar fólk sem til­heyr­ir minni­hluta­hóp­um gagn­rýn­ir rétt­trúnaðinn á það ekki von á góðu frá þeim sem þykj­ast bera hag þess fyr­ir brjósti. Það fólk get­ur átt von á trakt­er­ing­um á borð við „ef þú ert ekki sam­mála ertu ekki svart­ur“.

Öllum má vera ljóst að kynþátta­hyggja var stór­kost­legt vanda­mál á Vest­ur­lönd­um eins og ann­ars staðar í heim­in­um. Vest­ræn sam­fé­lög hafa hins veg­ar náð ein­stök­um ár­angri við að draga úr for­dóm­um og auka jafn­rétti þótt enn sé verk að vinna. Áfram­hald­andi ár­ang­ur næst helst á grund­velli þess sem best hef­ur reynst. Rétt­trúnaðarridd­ar­ar virðast þó ekki mega heyra á ár­ang­ur minnst. Þegar ekki tekst að benda á aug­ljósa for­dóma er bent á ósýni­lega kerf­is­bundna for­dóma eða ómeðvitaða for­dóma. Fyr­ir­tæki og stjórn­mála­flokk­ar hafa að und­an­förnu sent fólk á nám­skeið til að tak­ast á við ómeðvitaða for­dóma. Skikkað það í svo­kallaða end­ur­mennt­un.

Kanadísk­ur þingmaður hafði orð á því að hann teldi að land­ar sín­ir væru al­mennt ekki ras­ist­ar. Því var mætt með kröf­um um af­sögn. En hver er raun­in ef menn vilja líta til kynþátta- og menn­ing­ar­hópa og full­yrðinga um „rót­gró­inn kerf­is­læg­an ras­isma sem gegn­sýri sam­fé­lög­in og hafi það að mark­miði að halda öll­um niðri nema hvítu fólki“?

Í Bretlandi hef­ur fólk af austurasísk­um upp­runa lang­hæstu meðal­tekj­urn­ar, þar á eft­ir koma hind­ú­ar og svo inn­flytj­end­ur frá Afr­íku. Svart­ir Bret­ar frá Karabía­hafs­eyj­um og múslim­ar eru hins veg­ar tekju­lægri en hvít­ir Bret­ar. Þegar litið er til barna geng­ur eng­um hópi eins illa í skóla og hvít­um drengj­um úr hópi verka­fólks. Þeir eru nú kallaðir gleymdu dreng­irn­ir.

Lög­reglu­stjóri Lund­úna­lög­regl­unn­ar (Scot­land Yard) sem oft­ast hef­ur reynt að fylgja rétt­trúnaðinum upp­lýsti fyr­ir þing­nefnd að lög­regl­an hafi ekki hlut­falls­lega meiri af­skipti af öðrum kynþátt­um en hvít­um Bret­um þegar litið er til glæpatíðni.

Er þetta sam­fé­lag sem fyr­ir­lít­ur aðra kynþætti en þann hvíta og held­ur þeim niðri?

Tekju­hæsti og best menntaði hóp­ur Banda­ríkj­anna eru lands­menn af níg­er­ísk­um upp­runa. Það er aug­ljós­lega af­leiðing ein­hvers ann­ars en mark­vissra kynþátta­for­dóma. Er ekki lík­legra til ár­ang­urs að líta til vanda þess fólks sem er fast í fá­tækt­ar­gildru og fær ekki tæki­færi til að vinna sig upp vegna þess að því hef­ur verið skipað í hóp?

Byggj­um á raun­veru­legu jafn­ræði

Hvað er skaðlegra í þessu sam­hengi en það að segja ungu fólki að það sé sama hvort það legg­ur sig fram eða ekki, það muni aldrei njóta sann­mæl­is vegna þess að sam­fé­lagið sé gegn­sýrt af for­dóm­um og muni halda því niðri?

Rétt­trúnaðar­hreyf­ing­in er sér­stak­lega hættu­leg vegna þess að hún er byggð á vanda­mál­um en ekki lausn­um. Þar má aldrei viður­kenna að ár­ang­ur hafi náðst vegna þess að það sem skipt­ir mestu máli er fólkið sem met­ur eigið ágæti í hlut­falli við stærð vand­ans sem það þyk­ist vera að tak­ast á við. Fólk sem met­ur eigið ágæti út frá vand­an­um sjálf­um en ekki lausn­um og ár­angri.

Slík stefna er for­dóma­full, eig­in­gjörn og hættu­leg.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Formaður Miðflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1.8.2020