Tökum stórar ákvarðanir strax

Nú þarf stór­ar og for­dæma­laus­ar ákv­arðanir sem taka þarf strax.  Þúsund­ir lands­manna bíða nú með önd­ina í háls­in­um hvort þeir missi vinn­una og enn aðrir sjá fram á að missa sinn rekst­ur og um leið sitt lifi­brauð.  Rík­is­stjórn­in hef­ur þegar lagt fram ákveðnar til­lög­ur sem, þegar þetta er ritað, eru til meðferðar í þing­nefnd.  Rík­is­stjórn­in mun ekki ein geta ráðið fram úr því ástandi sem nú er, því mun­um við styðja við þeirra góðu til­lög­ur, leggja til breyt­ing­ar þar sem þarf og benda á nýj­ar eða aðrar leiðir.  Bet­ur sjá augu en auga.

Við þurf­um að vera djörf við aðstæður sem þess­ar og taka marg­ar ákv­arðanir og þá ein­fald­lega breyta og bæta þær sem ekki virka eða ganga of langt.  Nú þarf að ganga langt. 

Fyr­ir­tæki og heim­ili eru und­ir­staðan og þeim verður að bjarga með öll­um ráðum.  Sem bet­ur fer var ráðist í mikl­ar aðgerðir á ár­un­um 2013-2016 sem við búum enn að.  Rík­is­sjóður stend­ur vel og skuld­ir heim­il­anna hafa verið viðráðan­leg­ar.  Allt get­ur þetta breyst ef ekki er gripið kröft­ug­lega í taum­ana.

Við þess­ar aðstæður má sú staða ekki koma upp að lán­veit­end­ur eða rík­is­stofn­an­ir velji hvaða fyr­ir­tækj­um sé bjargað og hverj­um ekki.  All­ir eiga að fá greiðslu­skjól í nokkra mánuði í þess­ari for­dæma­lausu stöðu.  Það geng­ur held­ur ekki að rétta fyr­ir­tækj­um helm­ing launa starfs­manna ef þau eiga ekki fyr­ir hinum helm­ingn­um.  Það geng­ur held­ur ekki að for­eldr­ar sem eru heima með börn­um vegna lok­un­ar skóla eða vegna þess að þau eru í áhættu­hópi fái ekki greidd full laun.  Við eig­um að vera viðbúin því að þurfa að af­nema eða frysta verðtryggða vexti hús­næðislána og við eig­um að hvetja fólk til að velja ís­lenskt.  Nú þarf að spara gjald­eyri.

Koma verður í veg fyr­ir sjálf­virk­ar hækk­an­ir vísi­tölu­tengdra liða og koma í veg fyr­ir hækk­an­ir á vör­um og þjón­ustu. Við eig­um að lækka strax skatta, af­nema trygg­inga­gjaldið og jafn­vel virðis­auka­skatt á mat­væl­um.

Skv. fjöl­miðlum hef­ur Evr­ópu­sam­bandið lokað á út­flutn­ing til Íslands og fleiri landa á nauðsyn­leg­um heil­brigðis­vör­um.  Það hefði ekki átt að koma á óvart m.v. hvernig sam­bandið brást við ósk­um Ítala um aðstoð.  Ítal­ir fengu hins­veg­ar aðstoð frá Kína sem var til fyr­ir­mynd­ar.  Ef­laust fer ákvörðun ESB í bága við EES-samn­ing­inn en und­ir­strik­ar að þegar hags­mun­ir þjóða(r) eru und­ir þá taka menn ákv­arðanir út frá því. Mun­um það.

Í gær birti Miðflokk­ur­inn nokkr­ar leiðir til að vinna á þess­ari erfiðu stöðu sem er uppi.  Al­menn­ar stór­ar aðgerðir.  Við leggj­um þær fram því taka þarf ákv­arðanir hratt og strax.  Ef á þeim eru gall­ar þá lög­um við þá eft­ir á.  Áhrif­in eru um allt okk­ar sam­fé­lag.  Eng­inn slepp­ur al­veg en sum­ir bet­ur en aðrir.

Við erum til­bú­in að vinna með stjórn­ar­flokk­un­um að lausn­um sem virka.

 

Höf­und­ur: Gunn­ar Bragi Sveins­son, þingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 20. mars, 2020