Tveir loddarar lofa vegi

Ein fyndnasta uppákoma ársins varð nú í vikunni þegar borgarstjóri og samgönguráðherra skrifuðu undir ,,viljayfirlýsingu“ um byggingu Sundabrautar. Í ljós kom á fundinum að þeir eru ekki sammála um hvort brautin skuli lögð í göng eða um brú. Í ljós kom einnig að Sundabraut á samkvæmt ,,viljayfirlýsingunni“ að vera tilbúin eftir tíu ár! Semsagt að loknum tvennum alþingiskosningum og tvennum borgarstjórnarkosningum þegar umboð loddaranna tveggja verða löngu útrunnin. Þetta hlýtur að vera einn lengsti gúmmítékki sögunnar og minnir á þegar frambjóðandinn sagði við aðstoðarmanninn:,,Skrifaðu flugvöll!“ í undanfara kosninga hér um árið. Úr því loforði varð ekki heldur neitt. Rétt er að minna á að Sundabraut var fyrst lofað árið 1998 af borgarstjóra Samfylkingarinnar í tengslum við sameiningu Kjalarness og Reykjavíkur. Það hillir því undir að Sundabraut verði tekin í notkun rúmum þrjátíu árum eftir að henni var fyrst lofað þ.e. ef maður trúir ,,viljayfirlýsingu“ loddaranna tveggja.Það hefði hugsanlega mátt taka mark á ,,viljayfirlýsingu“ loddaranna ef minnstu upplýsingar um legu og tímasetningu hefðu fylgt. Rétt er að minna á að nú er gert ráð fyrir landtöku Sundabrautar í miðju athafnasvæði Samskipa. Fram hefur komið að ekkert hefur verið rætt við fyrirtækið vegna þessa en óljósar yfirlýsingar um nýjan viðlegukant hafa verið ámálgaðar.Kostnaðargreining er ekki til. Í næsta nágrenni á að endurreisa kynlífshjálpartækjabúð og breyta í barnaheimili. Minnir upphaf þeirrar framkvæmdar mjög á braggabyggingu sem löngu er orðin fræg að endemum og keyrð var áfram á lögbrotum eins og títt er um framkvæmdir og útboð Reykjavíkurborgar. Það er því að engu hafandi þó tveir loddarar komi saman og skelli í góm fyrir framan ljósmyndara um leið og þeir undirrita ómerkilegan kosningavíxil.

 

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokkins í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Greinin birtist á Vísi þann 8, júní, 2021