Um íslensk mannanöfn og stóryrtan prófessor

Miðflokkurinn er andvígur frumvarpi dómsmálaráðherra um mannanöfn. Frumvarpið vegur að íslenskri nafnahefð og er íslenskri tungu óþarft og skaðlegt. Einkum tvennt veldur áhyggjum. Í fyrsta lagi stendur til að heimila öllum að taka upp ættarnafn. Afleiðingin getur orðið sú að okkar helsta sérkenni, föðurnafn og móðurnafn, muni hverfa smátt og smátt. Í öðru lagi munu breytingarnar hafa neikvæð áhrif á íslenskuna. Nöfn og beyging þeirra eru jafn mikilvæg og annar íslenskur orðaforði. Riðlist beygingakerfið fer að hrikta í stoðum íslenskrar tungu. Íslensk mannanöfn eru hluti íslensks máls og því er það stór þáttur í verndun málsins að íslensk mannanöfn samræmist íslensku beygingakerfi. Þetta hefur okkar helsti sérfræðingur í mannanöfnum dr. Guðrún Kvaran bent á. Miðflokkurinn er ekki á móti því að mannanafnalögin verði lagfærð og leggur til að nefnd sérfræðinga verði falið að fara yfir gildandi lög og laga þau skynsamlega að breyttum tímum. Þetta þarf að gera með varðveislu íslenskrar tungu og mannanafnahefðar í öndvegi.

Millinöfn og ættarnöfn

Á Alþingi benti ég á tvö atriði sem fóru fyrir brjóstið á fyrrverandi prófessor í íslensku, Eiríki Rögnvaldssyni. Prófessorinn fór mikinn og sakaði mig og annan þingmann til um „fáfræði“, „belging“ og að „vera úti á túni“ í viðtali á vefsíðunni vísir.is. Fjallaði ég um millinöfn en millinafn er ekki annað nafn af tveimur heldur nafn sem líkist ættarnafni. Millinöfn voru heimiluð árið 1996. Allmörg hafa verið samþykkt síðan og margir líta á þau sem ættarnöfn eða kenninöfn, þ.e. sleppa að nota föður- eða móðurnafnið. Verði ættarnöfnum sleppt lausum er augljóst hvert stefnir. Það sýnir reynslan af millinöfnum.

Einnig ræddi ég um stafsetningu og málfræði og sagði að það væri engin ástæða til þess að undanskilja mannanöfn. Um þetta sagði prófessorinn: „Það eru til reglur, en ekki lög, um stafsetningu, en það eru engar opinberar reglur um málfræði. Og almenningur má stafsetja orð eftir eigin höfði.“ Hér fer íslenskufræðingurinn með rangt mál. Um stafsetningu er fjallað í lögum nr. 61 frá 2011 (Lög um stöðu íslenskra tungu og íslensks táknmáls). Í 6. grein er fjallað um Íslenska málnefnd. Þar stendur um stafsetningu: Íslensk málnefnd semur íslenskar ritreglur sem gilda m.a. um stafsetningarkennslu í skólum og ráðherra gefur út. Grundvallarbreytingar á ritreglum eru háðar samþykki ráðherra. Lög standa til þess að víða skuli nota íslenska tungu sbr. 8 gr. laganna.

Metnaðarleysi íslenskuprófessors

Frumvarp dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem lítur út eins og því hafi verið hnuplað úr ranni Viðreisnar, er ekki liður í að styðja íslenska tungu, sem á undir högg að sækja eins og margoft hefur verið bent á. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ríkisstjórnin vegur að íslenskri nafnahefð. Með nýlegri samþykkt laga um kynrænt sjálfræði var ákvæðið um að stúlkum skuli gefa kvenmannsnafn og drengjum karlmannsnafn fellt úr gildi. Mannanafnanefnd sagði að með því hafi verið vegið að íslenskri nafnahefð. Nú megi sem dæmi nefna dreng Þorgerði og stúlku Sigurð. Íslensk nafnahefð er einstök á heimsvísu, einkum ef horft til smæðar þjóðarinnar, og vekur ávallt jákvæða athygli. Þetta þekkja þeir sem hafa búið erlendis. Prófessorinn má hafa uppi hver þau stóryrði sem hann kýs en hann mætti huga betur að skyldum sínum við íslenska tungu.

 

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 22. október, 2020