Ungt fólk trúir á landbúnaðinn, af hverju ekki ráðherra?

Mikið hef­ur verið fjallað um ís­lensk­an land­búnað, ekki bara að und­an­förnu held­ur um langa tíð. Oft­ast er fjallað um ein­hvers kon­ar vanda­mál sem tengj­ast grein­inni en minna um mik­il­vægi grein­ar­inn­ar fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag eða ár­ang­ur­inn og sókn­ar­fær­in sem eru mörg. Of marg­ir átta sig ekki á og þekkja ekki til þeirra miklu og mik­il­vægu vinnu sem bænd­ur og aðrir fram­leiðend­ur mat­væla lands­ins inna af hendi fyr­ir okk­ur hin sem „hvorki þekkj­um haus né sporð á bú­fénaði“ eins og sagt var við mig einu sinni.

Íslensk­ur land­búnaður er at­vinnu­grein þar sem mik­il færi eru á að nýta mun bet­ur nátt­úru lands­ins og hug­vit lands­manna. Ein­stak­ar auðlind­ir lands­ins, hrein­ir bú­stofn­ar, holl­usta og sag­an er oft grunn­ur hug­mynda. Finna má dæmi í frétt­um sl. vik­ur og mánuði af frum­kvöðlum sem eru að skapa eitt­hvað nýtt. Þau eru með nýj­ar vör­ur og fram­leiðslu­ferla kring­um ís­lensk mat­væli og hafa óbilandi trú á getu sinni og Íslands til þess að fram­leiða mat­væli inn­an­lands. Þarna eru sann­ar­lega vaxt­ar­sprot­ar sem fjölgað geta at­vinnu­tæki­fær­um á þess­um síðustu og verstu tím­um.

Þannig eru mörg ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæki byrjuð eða eru að hefja starf­semi í kring­um land­búnað og mat­væla­fram­leiðslu, allt frá skyr­flög­um til mat­vara með colla­geni eða prótein og etanol unnið úr mysu og enn aðrir leita leiða til að fram­leiða prótein úr grasi. Fólk trú­ir á ís­lensk­an land­búnað. Ungt fólk er þar oft­ar en ekki í far­ar­broddi með ein­hverja reynslu að baki t.d. úr viðskipta­líf­inu eða ný­út­skrifuð úr há­skóla og eiga a.m.k. eitt sam­eig­in­legt, brenn­andi áhuga og trú á vör­unni sinni sem teng­ist ís­lensk­um land­búnaði og mat­væl­um með ein­um eða öðrum hætti. Versl­un­in sér þetta líka og set­ur upp mynda­lega standa þar sem ýtt er und­ir sýni­leika þeirra gagn­vart neyt­end­um sem taka vel í nýj­ung­arn­ar.

Sum­ir virðast halda að sjálfsagt sé að fara í versl­un eða panta á net­inu ör­ugg­ar, holl­ar og góðar ís­lensk­ar mat­vör­ur. Það er ekk­ert sjálfsagt við það vegna þess að á bak við mat­vör­una, skyrið og lamba­lærið svo eitt­hvað sé nefnt, eru mörg hand­tök sem miða að því að skapa verðmæti úr ís­lensku hrá­efni sem seld eru á sann­gjörnu verði.

Standi ís­lensk­ur land­búnaður jafn­fæt­is sam­keppn­islönd­un­um, þar sem tekið er með í sam­an­b­urðinn aðföng, laun, aðbúnaður, stærðar­hag­kvæmni o.fl. og að inn­flutt­ar vör­ur séu rétt tollaðar er ég sann­færður um að sú trú sem bænd­ur, frum­kvöðlar og marg­ir aðrir hafa á grein­inni sé rétt og enn fleiri munu sjá hversu mik­il­væg­ur og hag­kvæm­ur ís­lensk­ur land­búnaður er fyr­ir okk­ur öll. Það vant­ar hins veg­ar land­búnaðarráðherra sem hef­ur áhuga á og stend­ur með grein­inni, ráðherra sem hlust­ar á bænd­ur og berst stolt­ur fyr­ir bætt­um starfs­skil­yrðum land­búnaðar­ins. Ungt fólk trú­ir á grein­ina af hverju ekki ráðherra.

Höf­und­ur:  Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Suðvest­ur­kjör­dæm­is og vara­formaður Miðflokks­ins. 

Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 16. október, 2020