Uppgangur og tækifæri á vestfjörðum

Gríðarleg uppgangur hefur orðið á Vestfjörðum síðustu ár í kjölfar aukins fiskeldis. Útflutningaverðmæti hefur aukist á hverju ári um marga miljarða króna og horfur á að svo verði áfram. Þessi nýja atvinnugrein hefur vakið Vestfirðingum von í brjósti og breytt atvinnuástand dregur unga fólkið aftur heim. Hús rísa og mannlífið blómstrar. En þó að Vestfirðingar séu spenntir fyrir þessari nýju atvinnugrein vita þeir að fara verður að með gát og ná takti við náttúru og umhverfi. Reynsla mín af Vestfirðingum segir mér að þeim er vel treystandi til að meta hagsmuni sína með skynsömum hætti í sátt við menn og náttúru, fái þeir aðstöðu til þess. 

Það hefur verið mér lærdómsríkt, sem fulltrúa í atvinnuveganefnd Alþingis, að fá að koma að þessari vinnu undanfarin ár og sjá þau tækifæri sem bíða ef rétt er að málum staðið. Á síðustu metrum vinnunnar vorið 2019 breytti meirihluti nefndarinnar „skurðpunkti“ gömlu og nýju laganna, sem varð til þess að rótgróið fyrirtæki fékk litla sem enga úthlutun. Nýlegur úrskurður úrskurðarnefndar vekur ýmsar spurningar um framkvæmd á vettvangi stofnanna. Niðurstaða meirihluta atvinnuveganefndar er að hafast ekki að í málinu sem eru vonbrigði, enn virðast hagsmunir heimamanna ætla að gleymast. Það hefur verið áhersla mín frá upphafi í málinu, að gera þetta á forsendum heimamanna og með þeirra hagsmuni í huga.  

En það er ekki nóg að reyna að byggja upp stjórnsýslu og atvinnuumhverfi fyrir þessa nýju og mikilvægu atvinnugrein. Því miður skortir enn verulega á almennilega uppbyggingu innviðaþjónustu vegna hins gríðarlega atvinnuuppgangs á Vestfjörðum. Það er nánast sama hvar gripið er niður, það þarf að bæta samgöngur, raforkuöryggi, heilbrigðisþjónustu og vinna gegn skorti á húsnæði. Það er margt sem þarf að bæta á Vestfjörðum svo byggðalögin geti náð að blómstra nú þegar tækifærin eru að aukast.

 

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins í norðvesturkjördæmi

Greinin birtist á bb.is þann 22. maí, 2021