Urða eða brenna?

Mikill og vaxandi áhugi er á umhverfismálum þegar flestum er orðið ljóst að á skortir að hegðun mannsins í náttúrunni sé sjálfbær. Mikið liggur við að þjóðir heims taki upp umhverfisvænni lifnaðarhætti. Eitt af úrlausnarefnunum er úrgangsmálin og þar undir er meðhöndlun sorps.

Í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn minni um urðun úrgangs kom fram að hérlendis eru urðuð vel yfir tvö hundruð þúsund tonn af úrgangi árlega á nokkrum urðunarstöðum, mest í Álfsnesi. Mestallt heimilissorp hefur verið urðað, en sá háttur mun brátt heyra sögunni til og telst ófullnægjandi, enda er mengun frá urðunarstöðum mun meiri en til dæmis frá sorpbrennslum eins og þær eru útbúnar í dag. Flestum urðunarstöðum verður lokað á næstu árum og brýnt að huga að öðrum lausnum.

Á síðustu þremur þingum hef ég lagt fram tillögu til þingsályktunar um að ráðherra kanni hagkvæmni og möguleika þess að reisa hátæknisorpbrennslustöð fyrir það sorp sem ekki er unnt að endurvinna hér á landi. Slíkar brennslustöðvar eru vel þekktar í nágrannalöndunum. Með tækni nútímans er mengun frá þeim næsta lítil. Tillagan hefur ekki fengið afgreiðslu úr nefnd.

Nú ber hins vegar svo til að vakning hefur orðið í þessum málum og er það vel. Fjögur sorpsamlög á suðvesturhorni landsins og umhverfisráðherra hafa gert með sér samning um forverkefni til að innleiða framtíðarlausn á meðhöndlun á brennanlegum úrgangi í stað urðunar. Í þessu felst könnun á hagkvæmni þess að reisa hér sorpbrennslustöð.

Mestallt sorp leggst til á suðvesturhorni landsins og því eðlilegt að reisa slíka stöð þar. Á móti kemur að á svæðinu er nægt framboð á orku, bæði raf- og varmaorku. Önnur svæði búa ekki svo vel.

Unnt er að stórbæta endurvinnslu á sorpi með bættri flokkun og endurnýtingu, en sú lausn mun ekki duga nema að hluta til. Talið er að þrátt fyrir að ýtrustu spár um endurnýtingu gangi eftir verði um 100 þúsund tonn af úrgangi árlega hér á landi sem losna þarf við og þar eru einungis tveir kostir í stöðunni, að flytja úrganginn út til endurnýtingar eða brenna hér innanlands.

Aukning hefur orðið á útflutningi á úrgangi og hefur magnið verið í kringum 120 þúsund tonn árlega, helst járn, plastefni, pappír og pappi. Langmest er flutt til Evrópu, en nýlegar fréttir um að sorp þaðan endi í einhverjum tilfellum á sorphaugum í Afríku eða Asíu eru ekki traustvekjandi. Að auki rímar flutningur sorps landa á milli illa við meginreglu umhverfisréttar um að leysa skuli mengunarmál eins nálægt upprunastað og kostur er.

Þegar ráðist verður í að undirbúa frekari brennslu sorps hérlendis er nauðsyn á að ríkið komi kröftuglega að málinu, enda hafa staðbundin stjórnvöld í Evrópu greiðan aðgang að sjóðum sambandsins ólíkt sveitarfélögum hér.

 

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

kgauti@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 24. júní, 2021