Úrræði og úrbætur: Byggðarfesta í Norðvesturkjördæmi

Hvert kjördæmi hefur sýna sérstöðu. Að sjálfsögðu þykir hverjum sinn fugl fagur og er ég engin undantekning. Norðvesturkjördæmi er landmesta kjördæmið en um leið það fámennasta. Sjávarútvegur og landbúnaður hafa verið stærstu atvinnuþættir svæðisins um langa tíð en eiga undir högg að sækja víðast hvar.

Gripið hefur verið til aðgerða í tengslum við sjávarútveg til að viðhalda og tryggja byggðarfestu. Má þar nefna almennan byggðakvóta sem ætlað er að mæta áföllum vegna breytinga á aflamarki einstakra tegunda, til stuðnings byggðarlögum m.a. sem eru mjög háð veiðum og vinnslu á botnfiski eða hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu aflaheimilda sem ógnar atvinnuástandi byggðarlags. Byggðarkvóta er almennt úthlutað til þriggja ára í senn.

Um sértækan byggðarkvóta gegnir öðru máli honum er úthlutað í gegn um byggðarstofnun til brothættra byggða m.ö.o. byggðarlaga sem eru í bráðum og alvarlegum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.

Ekkert kerfi er fullkomið það er eins öruggt og dauðinn og skattarnir. Því miður er hægt að segja að um almennan byggðarkvóta hefur ekki verið almenn sátt.

Aðrar aðgerðir eins og línuívilnun á landbeitta línu var sett á til að efla atvinnu í landi. Reyndist sú aðgerð prýðilega en hefur nú verið skert og eru margar útgerðir sem stunda veiðar á línu hættar að beita í landi og notast í staðinn við beitningarvélar um umborð í bátum.

Ýmsar hugmyndir um  ívilnanir til stuðnings sjávarbyggðum hafa komið fram og er ívilnun til dagróðrabáta ein af þeim. Hvort af slíku verður er ekki gott að segja en sjálfsagt að skoða.

Strandveiðar voru settar á árið 2009 og var þá potturinn um 4000 tonn. Í dag er potturinn um 11000 tonn og stefnir í að hann dugi ekki til út sumarið vegna mikillar ásóknar. Að mati undirritaðs hefur reynsla strandveiða verið sú að um þær veiðar ríki almenn sátt. Hvort um hið fullkomna kerfi er að ræða eða ekki virðist ánægjan með kerfið vera almenn og þær gagnrýnisraddir sem heyrðust í árdaga þess hafa þagnað. Ungir menn að taka sín fyrstu skref í útgerð og þeir elstu eru gjarnan að klára sinn sjómannsferil og allt þar á milli.  Fiskur landaður úr strandveiðibátum hefur þótt prýðishráefni sem sést best á því að verð hafa á strandveiðitímabilunum hækkað ár frá ári.

Mín skoðun er sú að almenna byggðakvóta þurfi að endurskoða. Þessum heimildum eru í mörgum úthlutað til byggðarlaga án krafna um vinnslu á staðnum og uppfylla þ.a.l. ekki tilgangi byggðarkvótans. Við verðum að skoða með opnum hug hvort ekki sé skynsamlegt að horfa til frekari undirbyggingar strandveiða og línuívilnunar. Inn í jöfnuna á að sjálfsögðu að taka hvort ívilnanir dagróðrabáta sé kostur sem styðja myndi frekar við landsbyggðina.

 

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist á Bæjarins Besta þann 2. júní, 2021