Varnir í þágu lýðræðis og mannréttinda

Á danska þjóðþinginu voru um miðjan mars samþykkt lög sem ætlað er að koma í veg fyrir að erlend öfgaöfl grafi undan dönsku samfélagi í krafti fjárframlaga inn í landið. Breið sátt var um setningu laganna og þingmenn úr flestum stjórnmálaflokkum Danmerkur studdu þau. Markmið laganna er að koma í veg fyrir að einstaklingar eða lögaðilar, þar á meðal stjórnvöld erlendra ríkja eða stofnanir og fyrirtæki á vegum þeirra, vinni gegn eða grafi undan lýðræði og mannréttindum með fjárframlögum til aðila í Danmörku.

Engin fjárframlög til trúarhópa frá vafasömum aðilum

Danskir stjórnmálamenn töluðu enga tæpitungu þegar þeir fögnuðu samþykkt frumvarpsins. Haft var eftir jafnaðarmanninum Mattias Tesfaye, ráðherra málaflokksins, að erlendis fyrirfyndust öfgaöfl sem leituðust við að snúa múslimskum samborgurum gegn Danmörku í því skyni að reka fleyg í danskt samfélag. Hann sagði fjölmiðla ítrekað hafa flutt fréttir á liðnum árum um danskar moskur sem þegið hefðu háar fjárhæðir frá Mið-Austurlöndum. Þessu vildi ríkisstjórnin vinna gegn og það væri höfuðmarkmið laganna.

Forystumenn annarra danskra stjórnmálaflokka töluðu um bann við fjárframlögum í moskur og kóranskóla. Hvaða málflutningi skyldi haldið uppi á þeim vettvangi? Lýðræði, mannréttindum og kvenfrelsi? Dæmi hver fyrir sig.

Katar borgaði stórmoskuna í Kaupmannahöfn

Lagasetningin kom meðal annars í framhaldi þess að dagblaðið Berlingske greindi frá því 22. janúar 2020 að Sádi-Arabía hefði með milligöngu sendiráðs síns í Danmörku lagt fram nærfellt 100 milljónir íslenskra króna til Taiba-moskunnar í Nørrebro-hverfinu. Stórmoska Kaupmannahafnar var opnuð í júní árið 2014 með framlagi upp á jafngildi 4,5 milljarða íslenskra króna frá Hamad bin Khalifa al Thani, fyrrverandi emír í Katar. Dönum var skiljanlega brugðið við þessi tíðindi.

Ríkisútvarpið greindi frá því 22. nóvember 2015 að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefði sagt það hafa komið sér í opna skjöldu þegar sendiherra Sádi-Arabíu greindi sér frá fyrirætlunum þarlendra stjórnvalda um að styrkja byggingu mosku hér á landi.

Forseta Íslands sýnilega brugðið

Forsetinn sagðist gjalda varhug við því. Ólafur Ragnar rifjaði upp við þetta tækifæri að lög í landinu bönnuðu erlendum aðilum að leggja fé í stjórnmálastarf á Íslandi og að breið pólitísk samstaða hefði ríkt um slíkt bann. Með líkum hætti fyndist forseta óeðlilegt að ríki eins og Sádi-Arabía hefði fullt frelsi til þess að blanda sér með fjármunum og íhlutunum af hálfu sendiráðsins í trúariðkun á Íslandi. Ólafur Ragnar sagðist hafa orðið svo hissa og lamaður við yfirlýsingu sendiherrans að hann hefði aðeins tekið á móti henni, sest niður og hugleitt hana. Síðan taldi hann rétt að greina frá henni, sem hann hefði gert.

Nauðsynleg viðbrögð

Ég hef ásamst öðrum þingmönnum Miðflokksins lagt fram þingsályktunartillögu í anda hinna nýju dönsku laga. Við flutningsmenn tillögunnar teljum að Íslendingar þurfi að læra af þeirri reynslu Dana sem leitt hefur til þess að í Danmörku hefur nú verið lögleitt bann við fjárframlögum eða annars konar stuðningi frá erlendum aðilum sem taldir eru varasamir vegna viðleitni þeirra til að vinna gegn eða grafa undan lýðræði og mannréttindum.

Löggjöf til að verja samfélagið

Margar Evrópuþjóðir hafa leitast við að bregðast við með sambærilegum hætti. Höfum við Miðflokksmenn því lagt til að dómsmálaráðherra láti semja lagafrumvarp um þetta efni og að það verði lagt fram á næsta haustþingi. Við viljum enga erlenda íhlutun af því tagi sem sendiherrann kynnti forseta Íslands.

 

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins

olafurisl@althingi.is

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 10. júní, 2021