Vaxandi atvinnugrein í landbúnaði

Nýlega fékk ég boð um að kynna mér starfsemi líftæknifyrirtækisins Ísteka, sem hefur aðsetur í Reykjavík. Þingmenn fengu margir sambærilegt boð og var ástæða þess nýlegt frumvarp um að banna alla blóðtöku úr merum sem gerð er í þeim tilgangi að vinnu úr því vöru til útflutnings.

Alvarlegt er að komið sé fram á þingi frumvarp um að banna tiltekna atvinnustarfsemi, sem hefur verið starfrækt hér á landi í yfir 40 ár. Ríka kröfu verður að gera um vönduð vinnubrögð og ítarlegan rökstuðning þegar gengið er fram með slíkum hætti. Með boði sínu vildi fyrirtækið kynna þingmönnum starfsemi sína og svara spurningum, sem ég nýtti mér.

Verðmætt hormón

Hjá fyrirtækinu starfa yfir 40 manns, helmingur þeirra háskólamenntað starfsfólk svo sem líf-, lífeinda-, lífefna-, efna-, lyfjaog matvælafræðingar. Í fyrirtækinu er unnið verðmætt hormón úr merarblóði (ECG) sem nýtt er til að samstilla gangmál dýra. Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sýndi mér vinnsluferlið og kynnti fyrir mér starfsemina.

Hundrað bændur

Á bak við framleiðsluna eru um 100 bændur um allt land sem halda nálægt 5.000 hryssur. Það er því óhætt að segja að hér sé um mikilvæga og stækkandi landbúnaðargrein að ræða. Afurðaverð til bænda hefur haldist stöðugt undanfarin ár og hækkað töluvert umfram verðlagsþróun. Verðið er fyrirsjáanlegt og fyrirtækið gefur út verðskrá fram í tímann. Það var því ánægjulegt að kynnast vaxandi atvinnugrein í landbúnaði.

Dýravelferðarsamningar

Fyrirtækið tók að eigin frumkvæði að gera sérstaka velferðarsamninga við þá bændur, sem þeir eru í viðskipum við og halda hryssurnar og er slíkt líklega einsdæmi hér á landi. Samningarnir hafa það að markmiði að tryggja velferð meranna. Vel er fylgst með hryssunum og í öllum tilvikum er það dýralæknir sem sér um blóðtökuna einu sinni í viku og hann fylgist jafnframt með ástandi dýranna og aðbúnaði. Tímabil blóðtöku er frá 2-3 vikum upp í átta hjá hverri einstakri hryssu, en hryssuhóparnir eru frjálsir úti í náttúrunni, en ekki í húsum. Á vegum Ísteka er að auki dýralæknir sem fylgist með að velferðarsamningarnir séu haldnir. Aðspurður sagði framkvæmdastjórinn að afföll í hópi meranna væru ekki meiri en almennt gerist í hrossahópum, en sérstaklega væri fylgst með líðan þeirra. Matvælastofnun og Lyfjastofnun hafa eftirlit með viðeigandi hlutum framleiðslunnar, sem undir þeirra verksvið heyrir.

Afurðin ekki mikil að vöxtum

Afurðin sjálf er ekki mikil að vöxtum eftir að hafa farið í gegnum langt og strangt vinnsluferli í fyrirtækinu, því einungis 2-3 kílógrömm af hormón eru flutt er úr landi. Þá er búið að skilja að allan blóðvökva og prótein úr hráefninu, sem telur tugþúsundir lítra. Fyrirtækið vinnur nú að því að þróa aðferð til að nýta það sem fellur út í vinnsluferlinu til uppgræðslu.

Brýnt að kynna sér málin

Kom ég af fundi fyrirtækisins margs vísari og upplýstur um að fyrirtækið nýtur viðurkenningar og vinnur í samræmi við ítrustu kröfur á grunni alþjóðlegra staðla og eftirlits. Atlaga þingmanna að starfsemi fyrirtækisins geigar af þeirri ástæðu að hún styðst ekki við rök eða vísindalega þekkingu. Slík framganga gagnvart innlendri atvinnustarfsemi sem framleiðir fyrir erlendan markað undir ströngum kröfum dæmir sig sjálf. Í sumar mun ég að sjálfsögðu taka boði um að vera viðstaddur blóðtökuna sjálfa.

 

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

kgauti@althingi.is 

Greinin birtist í Bændablaðinu þann 29. apríl, 2021