Velkomin heim

Ég kom til Íslands fyrir 20 árum eða fyrst árið 2000. Síðan hefur margt breyst í lífi innflytjenda. Margir hafa flutt hingað til landsins frá árinu 2000. Margir fluttu hingað vegna vinnu, aðrir vegna fjölskyldusameiningar og sumir vegna annarra ástæðna. Má þar nefna flóttafólk víða að úr heiminum.

Samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands fluttu hingað rúmlega 51 þúsund erlendir ríkisborgar umfram brottflutta. Á sama tíma fluttu rúmlega 11 þúsund íslenskir ríkisborgarar frá landinu. Í dag eru um 67 þúsund af mannfjöldanum á Íslandi fæddir erlendis, þar af um 50 þúsund fæddir innan Evrópu.

Reikna má með að stór hluti erlendra ríkisborgara hafi flutt til Íslands á þeim tíma sem ég hef búið á Íslandi. Á þessu tímabili hef ég stofnað mitt heimili og alið upp dætur mínar. Af þessum fjölda innflytjenda og nýrra Íslendingar eru nú í ár, m.v. tölu Hagstofu Íslands, rúmlega 46 þúsund starfandi og 33% þeirra eru af erlendum uppruna og starfa á höfuðborgarsvæðinu. Þar af eru um 45% konur og 55% karlar. Þetta er því stór hópur sem skilar miklum tekjum í ríkissjóð Íslands. Þessi þjóðfélagshópur er verðmæt auðlind. Þetta eru nýir Íslendingar.

Án þessara innflytjenda, nýju Íslendinga, hefði íslenska ríkið, sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar ekki getað sinnt skyldu sinni og gætt vel að sínu fólki í grunnþjónustu. Flestir nýir Íslendingar byrja að vinna strax á fyrsta degi eða mjög fljótlega eftir að flutt hefur verið til landsins. Fyrsta kynslóð innflytjenda hefur í raun ekki þurft að nota grunnþjónustu sem samfélagið og ríkið hefur annars þurft að byggja upp, t.a.m. skólastofnanir. Langflestir byrja strax að afla ríki og sveitarfélögum tekna í formi skatta og gjalda. Það að ala upp einstakling frá fæðingu, í gegnum grunnskóla, menntaskóla og fleira kostar sitt.

Með tilkomu innflytjenda hefur samfélagið í þessu efni sparað gríðarlega mikið fjármagn. Eina undantekningin frá þessu varðar málefni flóttafólks sem eðli máls samkvæmt er kostnaðarsamt ferli. Engu að síðu hafa ríki og sveitarfélög fengið að njóta góðs af skatttekjum sem greiddar eru af nýjum Íslendingum. Einkageirinn hefur einnig getað nýtt starfskrafta nýrra Íslendingar til að stækka við sína þjónustu og náð að svara eftirspurn eftir henni.

Lengi get ég talið upp framlag innflytjenda til samfélagsins í heildinni. En ég verð að benda á að oftast vinnur þetta fólk erfiðustu verkin. Fjölmargir fá lægri laun en Íslendingar og vinna lengri vinnutíma. Oftast starfa nýir Íslendingar í vinnu sem er langt undir hæfileikum, menntunarstigi og getu þeirra. Það má með rökum segja að innflytjendur þurfi að leggja meira á sig en aðrir borgar til að öðlast þau lífsgæði sem flestum finnast sjálfsögð.

Hægt að flokka innflytjendur sem viðkvæman hóp. Þessi hópur þarf umgjörð og af mun betri gæðum. Það þarft að styrkja hópinn í ýmsum samfélagsþáttum. Það þarft t.d. að styrkja menntun þeirra og börn þeirra. Það þarf að styrkja tungumálastöðu þeirra, búa til aðstæður svo það séu raunverulega jöfn atvinnutækifæri með því að viðurkenna reynslu, menntun og hæfni þeirra. Ríki og sveitarfélög þurfa að stíga dýpra inn og þróa skilvirka aðlögunarstefnu (e. Integration policy).

Sem borgandi launþegi, atvinnurekandi, sem innflytjandi og sem samfélag í heildinni þurfum við öll að spyrja sjálf okkur hvort það sé ekki kominn tími til að tala opinskátt um málefni innflytjenda og stöðu þeirra sem telja fleiri tugi þúsunda einstaklinga.

Er ekki kominn tími til að gera betur við þennan hóp sem við erum nú með hér í landinu, þá sem hér eiga heima, eru orðnir hluti af okkar samfélagi og skila miklu í þjóðarbúið? Að mínu mati hefur ekki verið nóg að gert fyrir þá sem teljast innflytjendur á Íslandi og öðlast hafa öll sín réttindi með lögmætum hætti og skilað sínu.

Með því að standa við bakið á nýjum Íslendingum erum við að stuðla að þátttöku þessa þjóðfélagshóps í samfélaginu. Með menningarlegum fjölbreytileika (e. cultural diversity), innihaldsríkari sátt, meiri skilningi innan samfélags okkar tryggjum við sjálfbærni samfélagsins (e. social sustainability) til lengri framtíðar. Samhliða erum við saman að styrkja og þróa Ísland, íslenska menningu og velferð.

Sem réttlátt samfélag og sem samfélag sem vill stuðla að umburðarlyndi eigum við öll að vinna að þessu málefni saman svo þessi hópur sitji ekki eftir og finni sig sem „annar flokks“ á Íslandi.

Kæru innflytjendur og nýir Íslendingar: velkomnir heim.

 

Danith Chan skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavík suður fyrir komandi Alþingiskosningar

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 12. ágúst, 2021