Verslun í dreifbýli

Þegar fólk velur sér búsetu skiptir miklu máli hvaða þjónusta er á staðnum. Í raun er það oft ákvörðunarástæða fyrir því hvar fólk ákveður að setjast að, en atvinnumöguleikar spila eðlilega stærsta þáttinn. Margvísleg þjónusta, sem fólki á höfuðborgarsvæðinu finnst sjálfsögð eins og dagvöruverslun, heilsugæsla, grunn- og leik skóli, sundlaug, íþróttaaðstaða og lyfjaverslun er í huga margra sú aðstaða og þjónusta sem á að vera í næsta nágrenni við heimili.

Banki, vínbúð, verslun og pósthús

Vandi minni byggðarlaga er stundum einmitt þessi að tryggja opinbera þjónustu á svæðinu og laða að annan rekstur sem erfitt er að vera án. Í smáum samfélögum getur þessi barátta hreinlega snúist um að viðhalda byggðinni. Á undan förnum árum hefur ýmis þjónusta á minni stöðum úti á landi dregist saman og útibúum hríð fækkað og má þar nefna banka útibú, pósthús, apótek og sýslumanns embætti.

Engin dagvöruverslun á Kirkjubæjarklaustri

Þegar eina dagvöruverslunin í víðfeðmu sveitarfélagi lokar, kemur það hart niður á íbúunum. Þetta gerðist á Kirkjubæjarklaustri um síðustu áramót. Íbúar í þorpinu þurfa nú að aka um langan veg til að komast í næstu dagvöruverslun. Hætt er við að lokunin hafi neikvæð áhrif á byggðaþróun á svæðinu. Tilraunir með dagvöru í sjálfsafgreiðslu eru góðra gjalda verðar en koma ekki í stað verslunar. Að fá vörur afhentar úr netverslun tvisvar í viku telja heimamenn aldrei koma í stað verslunar á staðnum. Þjónustuskerðingin fyrir íbúa Skaftárhrepps er mikil og eins og málin standa nú er engin lausn í sjónmáli. Í venjulegu árferði er mikill straumur ferðamanna um svæðið, ekki síst á sumrin og ætti staðsetning fyrir verslun á Kirkjubæjarklaustri að vera álitlegur kostur.

Verulegur verðmunur

Rekstraraðilar lítilla dagvöruverslana fá langt í frá sömu kjör hjá birgjum og matvörukeðjurnar og oft borgar sig fyrir þá hreinlega að trilla innkaupakerrunni í verslununum sjálfum til innkaupa. Samkvæmt skýrslu Emils Bjarna Karlssonar, sem tók út vanda dreifbýlisverslana, er allt að helmings munur á verði í verslunum. Þær eigi ekki kost á hagkvæmum inn kaupum vegna smæðar sinnar. Þá sé flutningskostnaður hár og rekstraráhætta mikil. Verslanirnar gera oft innkaup í lágvöruverslunum, þrátt fyrir að varan hafi þá farið í gegn um framleiðanda, heildsala, flutningsaðila og álagningu í lágvöruversluninni, en er samt ódýrari.

Veigamikið hlutverk

Verslanir í dreifbýlinu gegna veigamiklu hlutverki í að viðhalda byggð á svæðunum. Vandinn felst einkum í því að erfitt er að halda vöruverði niðri. Leita þarf allra leiða til að styðja við þessa þjónustu og ein leið til þess gæti verið að samnýta þjónustu sem veitt er af ríkinu við verslunarrekstur og skjóta þannig fleiri stoðum undir reksturinn.

 

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi
Greinin birtist í Dagskránni - Fréttablaði Suðurlands þann 17. mars, 2021