Verum vakandi yfir mögulegum afleiðingum Covid-19 á andlega heilsu fólks

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í störfum þingsins í dag og vakti þar athygli á og rýndi í nýútkominn talnabrunn landlæknis sem fjallar um líðan fullorðinna Íslendinga árið 2020.

"Nýr talnabrunnur landlæknis er kominn út og fjallar hann í þetta sinn um líðan fullorðinna Íslendinga árið 2020. Það er umhugsunarvert að sjá að núna mælist andleg heilsa verst meðal ungra kvenna. Staðan er samt sem áður ekki alslæm en það er mikilvægt að skoða og rýna í þessa tölfræði. Árið 2019 sögðu 75% kvenna andlega heilsu sína góða eða mjög góða en árið 2020, sem þessi talnabrunnur fjallar nú um, var hlutfallið komið niður í 70%. Þar segir einnig að mælingar úr vöktun embættis landlæknis hafi ítrekað sýnt að fleiri konur en fyrr greina oft eða mjög oft frá mikilli streitu í daglegu lífi. Árið 2020 var þetta hlutfall nálægt 30%. Það má líka sjá mikinn mun eftir aldri en aðeins 6% þeirra kvenna eru í elsta hópnum, eða 65 ára og eldri, sem segja svo frá á meðan það voru 40% í þeim yngsta, þ.e. konur frá 18 ára til 24 ára. Það er hægt að halda áfram að greina talnabrunninn. Það mælist aukinn einmanaleiki hjá ungu fólki. Vissulega spilar Covid-19 inn í sem orsök en við verðum að vera vakandi yfir mögulegum afleiðingum. Ég vek athygli á þessu hér og í dag þar sem við höfum ítrekað kallað eftir aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu um allt land."

Upptöku af ræðu Önnu Kolbrúnar í þingsal má sjá hér