Heillaóskir til Breta á merkum tímamótum

Bretar gengu formlega úr Evrópusambandinu um áramótin og hætta um leið að lúta reglum þess. Þar með hafa Bretar endurheimt að fullu sjálfsákvörðunarrétt sinn þótt samskipti þeirra mótist að sjálfsögðu af þeim alþjóðlegu samningum sem þeir eru aðilar að. Það er ástæða til að óska Bretum til hamingju á þessum tímamótum og óska bæði þeim og Evrópusambandinu velfarnaðar nú þegar tekist hefur að ljúka útgöngusamningi sem virðist hvorum tveggja til hagsbóta og sóma. Við blasir að hrakspár margra Evrópusambandssinna hér á landi um samninginn hafa ekki ræst, þvert á móti virðist hann hagstæður Bretum sem geta nú einhent sér í verkefni sem bíða og eflt um leið samkeppnisstöðu breska hagkerfisins. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þau miklu samskipti sem við Íslendingar höfum við Breta og einstök lönd Evrópu. Þess vegna hljótum við að fagna með þeim niðurstöðu samninganna og horfa full tilhlökkunar fram á veginn með þá von í brjósti að samskipti verði betri, skilvirkari og innihaldsríkari í framtíðinni.

Meðal þess ávinnings fyrir Ísland sem útganga Bretlands úr Evrópusambandinu felur í sér er að svigrúm skapast til þess að semja um hagstæðari viðskiptakjör við Breta en áður voru fyrir hendi í gegnum EESsamninginn. Ekki síst þegar kemur að tollum á sjávarafurðir. Þá geta skapast ný tækifæri fyrir landbúnaðarvörur, iðnað og þjónustu ásamt fjárfestingum á báða vegu. Bretar eru nú í þeirri aðstöðu að endurmeta og endurraða samskiptum sínum við aðrar þjóðir og hafa þeir lýst yfir áhuga sínum á að eiga mikil og góð samskipti við okkur Íslendinga áfram. Við hljótum að taka því fagnandi og einhenda okkur í að efla og styrkja samskipti við Breta sem og aðrar þjóðir Evrópu. Þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tók við völdum 2013 og ég tók við sem utanríkisráðherra ríkti enn tortryggni í garð Breta í kjölfar bankahrunsins og hvernig þeir tóku á málum í tengslum við fjármálatilskipanir Evrópu. Það var hins vegar ánægjulegt að finna það strax í samskiptum við breska stjórnmálamenn að þeir mátu samskiptin við Ísland mikils og virtu þá afstöðu sem Íslendingar höfðu tekið undir forystu Sigmundar Davíðs að lög skyldu gilda um Icesave-málið og önnur skyld mál. Var það því gagnkvæmur vilji landanna tveggja að koma samskiptum í betra horf. Sem betur fer tókst það og þegar ríkisstjórnin fór frá völdum höfðu þau batnað mikið.

Tryggja þarf hagstæð viðskipti

Það er mikilvægt að tryggja sem fyrst trausta og skýra samninga við Breta á öllum sviðum viðskipta, menningar og stjórnsýslu. Báðar þjóðirnar eru samstarfsþjóðir á sviði varnarmála í gegnum NATO og það samstarf ætti að hafa allar forsendur til að eflast og styrkjast, ekki síst í tengslum við öryggis-, varnar- og umhverfismál í Norður-Atlantshafinu. Það er ljóst að næstu vikur og mánuði þarf að skýra margt og læra ný vinnubrögð og mikilvægt að íslensk stjórnvöld haldi vel á málum. Það er ánægjulegt að tekist hefur að tryggja óbreytt kjör í tollaviðskiptum á milli Íslands og Bretlands en bráðabirgðafríverslunarsamningur var undirritaður stuttu fyrir áramót. Það þarf að halda áfram að vinna að því að tryggja hnökralaus viðskipti milli landanna en það þarf ekki að hafa mörg orð um það hve mikilvægt markaðssvæði Bretland er fyrir íslenskar afurðir. En við getum gert betur og það hlýtur að vera markmið Íslendinga að ná enn betri samningum.

Samningurinn milli Breta og Evrópusambandsins staðfestir einnig hve mikilvægt er að tryggja áframhaldandi yfirráð okkar Íslendinga yfir eigin fiskimiðum. Bretar neyddust til að beita fiskveiðiréttindum sem skiptimynnt í samningaviðræðum en náðu um leið fullveldi yfir efnahagslögsögu sinni. Þeir hafa efni á því en við ekki. En samningurinn færir breskum sjávarútvegi mörg verkefni við að nútímavæðast og eflast. Þar höfum við Íslendingar margt fram að færa eins og kom fram í samkomulagi því sem gert var við Breta fyrir skömmu um samstarf í sjávarútvegsmálum.

Með samningi sínum við Evrópusambandið tryggðu Bretar fullveldi sitt og lögsögu. Út frá þeim grunni munu þeir starfa næstu árin og þar eiga þeir og Íslendingar að geta mæst, sem tvær fullvalda þjóðir í nánu og innihaldsríku samstarfi.

Höfundur:  Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 11. janúar, 2021