Nýtt sjúkrahús SÁÁ

Nýtt sjúkrahús SÁÁ

 

 
Eftir Sigurð Pál Jónsson: "Farið er að þrengja að umhverfi Sjúkrahússins Vogs í dag og á þjónusta í núverandi húsnæði sífellt erfiðara með að mæta kröfum nútímans."
Gríðarlegur árangur í meðferð fíknisjúkdóma var staðreynd og bjartsýni ríkti fyrstu árin eftir að Samtök áhugafólks um áfengisvandann, SÁÁ, voru stofnuð árið 1977. Krafturinn sem þessu nýju samtökum fylgdi fyrir rúmum 40 árum var mikill. Menn sóttu þekkingu til Bandaríkjanna, þar sem árangursríkar meðferðir eru stundaðar og gera það enn. Þar er líka vagga AA-samtakanna. En tímarnir breytast og mennirnir með, en þó er fíknisjúkdómurinn (alkóhólismi) samur við sig. Biðlistarnir á sjúkrahúsið Vog telja í dag um 600 manns og listarnir hafa verið allt of langir í allt of langan tíma. Fyrir því eru ýmsar ástæður, þó aðallega ófullnægjandi þjónustusamningur við ríkið og hefur reksturinn verið fjármagnaður að hluta til með sjálfsaflafé. Farið er að þrengja að umhverfi Sjúkrahússins Vogs í dag og á þjónusta í núverandi húsnæði sífellt erfiðara með að mæta kröfum nútímans um kynjaskiptingu og aldursgreiningu og öðrum kröfulýsingum hins opinbera sem voru óþekktar á þeim tíma sem sjúkrahúsið var byggt við Stórhöfða. Stærðin og hönnun hússins er takmarkandi þáttur í því hvernig hægt er að auka afköst sjúkrahússins og stytta biðlista, bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk. Frá þeim tíma þegar sjúkrahúsið var byggt hefur fólki hér á landi fjölgað um meira en hundrað þúsund manns.

 

Biðlistar lengjast en framlög óbreytt

Núverandi þjónustusamningur milli SÁÁ og heilbrigðisyfirvalda gerir í raun ráð fyrir að SÁÁ fjármagni stóran hluta þjónustunnar, en bilið sem SÁÁ er gert að brúa er allt of stórt og því þarf að breyta. Heilbrigðisyfirvöldum er varla stætt á því að leggja stöðugt fram nýjar kvaðir um aðbúnað og þjónustu án þess að fjármagn fylgi kostnaðaraukanum á sama tíma og fólkinu í landinu fjölgar og biðlistar lengjast. SÁÁ-fólk er stórhuga og bjartsýnt í baráttunni við fíknisjúkdóma nú sem fyrr og áformar að byggja nýtt sjúkrahús í landi Víkur á Kjalarnesi þar sem eftirmeðferðarstöð samtakanna er nú starfrækt.

 

SÁÁ ætti að hafa afl og aðstöðu til að byggja nýtt sjúkrahús á Vík og ljúka framkvæmdum um það bil þegar Sundabraut verður tekin í notkun. Til þess þurfa margar hendur að vinna saman létt verk.

Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Birtist í Morgunblaðinu 15. ágúst, 2019.