Reykjanesbær - Launahækkun til sviðsstjóra

Svik og vandræðagangur meirihluta

Á síðasta bæjarstjórnarfundi lagði ég til breytingartillögu við fjárhaagsáætlun fyrir árið 2020 þess efnis að launahækkun til sviðsstjóra upp á 122 þúsund krónur á mánuði yrði dregin til baka.  Tillagan var felld af meirihluta bæjarstjórnar; Framsókn, Samfylkingu og Beinni leið.  Sviðsstjórar verða því með 1420 þúsund krónur í laun á mánuði eftir hækkunina.  Meirihlutinn telur þessa hækkun vera eðlilega og hefði greinilega viljað hækka sviðsstjórana enn meira ef marka má yfirlýsingu þeirra vegna gagnrýni minnar.  Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að sviðsstjórarnir hafi beðið um launahækkunina og fengið hana möglunarlaust.  Annað hljós hefur nú verið í strokki meirihlutans þegar kemur að kjarasamningi við VSFK.  Gerður er samanburður á launum sviðsstjóra á Akureyri og í Hafnarfirði en ekkert minnst á það að hvorug þessara sveitarfélaga eru undir eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga eins og Reykjanesbær.  Menn gleyma því greinilega að gæta verður ýtrustu varkárni í fjármálum bæjarins.  Ekki síst í ljósi þess að samdráttur er og atvinnuleysi mest í Suðurnesjum.

Verkalýðshreyfingin svikin

Verkalýðshreyfingin hefur brugðist harkalega við launahækkuninni til sviðsstjóra og kallað hana kalda vatnsgusu frá Reykjanesbæ.  Skal engan undra.  Hvað ætlar meirihlutinn að segja við þá 260 félagsmenn VSFK sem starfa hjá Reykjanesbæ og eru búnir að vera með lausan kjarasamning síðan í mars?  Fá þeir allir hækkun upp á 9%?  Gildir lífskjarasamningurinn ekki í Reykjanesbæ?  Sjá má á viðbrögðum meirihlutans að þeir eru að fara á taugum vegna málsins.  Grípa þeir þá til þess ráðs að gera mig tortryggilega og segja að ég hafi ekki gert athugasemdir við málið í bæjarráði.  Um það vil ég segja:  Í fyrsta lagi þá sat ég ekki umræddan fund í bæjarráði heldur varabæjarfulltrúi Miðflokksins og hefur hann gert ítarlega grein fyrir afstöðu sinni hér í blaðinu.  Þar kemr skýrt fram af hans hálfu að málið var aldrei borið upp til samþykkis í bæjarráði.  Formanni bæjarráðs var falið að vinna það áfram í tengslum við almennar kjaraviðræður.  Mikilvægt er að þetta komi fram.

Síðan er greinilegt að formaður bæjarráðs vann málið áfram á bak við tjöldin án aðkomu annarra verkalýðsfélaga og var því síðan laumað í gegn í þeirri einföldu trú að engin tæki eftir því.  Málatilbúnaður meirihlutans í garð bæjarfulltrúa Miðflokksins er því hrein ósannindi.

Vandræðagangur meirihlutans er best leystur með því að afturkalla launahækkun sviðsstjóra

Heitar umræður sköpuðust um breytingatillögu mína í bæjarstjórn enda ljóst að meirihlutinn er búin að koma sér í veruleg vandræði.  Það verður athyglisvert að sjá hvernig flokkur eins og Samfylkingin, sem hefur talið sig vera flokk verkafólks, getur horft framan í félagsmenn VSFK eftir þetta.  Framsókn er á sömu slóðum í vanræðaganginum, hækkar sviðsstjóra verulega í launum en sviku síðan kennara um launahækkun sem þeir lofuðu óspart fyrir kosningar.  Bein leið hefur síðan fyrrum verkalýsðleiðtoga í brúnni og verður vandséð hvernig hann ætlar að réttlæta málið.  Meirihlutinn á að viðurkenna mistök sín.  Hækkun upp á 122 þúsund á mánuði til sviðsstjóra sem höfðu fyrir rúmlega 1300 þúsund í mánaðarlaun er algjörlega taktlaust, er brot á lífskjarasamningi og setur bæjarfélagið í veruleg vandræði í yfirstandandi kjaraviðræðum.  Vandræðagangur meirihlutans er best leystur með því að afturkalla launahækkun sviðsstjóra.

Höfundur:  Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Reykjanesbæ.

Greinin birtist í Víkurfréttum þann 12. desember, 2019