Það vantar skýr svör um komu bóluefnis

Enn hafa stjórnvöld ekki getað sagt landsmönnum með fullnægjandi hætti hvenær verður búið að bólusetja þjóðina gegn kórónuveirunni. Ef marka má orð Kára Stefánssonar þá verður það ekki fyrr en seint á árinu, sem er óásættanlegt. Samkvæmt orðum forsætisráðherra virðumst við upp á náð og miskunn stjórnenda erlendra lyfjafyrirtækja komin. Frá því að Miðflokkurinn bað um umræðu í þinginu fyrir jól hefur ekkert skýrst frekar um tímasetningar á komu bóluefna. Þegar reynt er að knýja á um svör eru viðbrögð stjórnvalda að senda út enn eina fréttatilkynninguna um samninga um kaup á bóluefnum, en ávallt án afhendingartíma. Landsmenn eru engu nær og vonlaust er að gera nokkrar áætlanir.

Svo virðist sem sú ákvörðun stjórnvalda að leita á náðir Evrópusambandsins hafi ekki verið vel ígrunduð. Mörg hinna frjálsu ríkja hafa samið um nóg af bóluefni meðan ESB hefur verið í vandræðum og það réttilega gagnrýnt fyrir skrifræði og flókið kerfi. Utanríkisráðherra, sem varla hreyfir sig án þess að spyrja ESB, hefur væntanlega haft hönd í bagga með samninga um bóluefni og því hljóta hann og heilbrigðisráðherra að gefa sameiginlega skýrslu um hvernig staðið var að málum.

Í umræðuþættinum Kryddsíld á gamlársdag benti formaður Miðflokksins á klúður ESB en formaður Viðreisnar kom þá ESB strax til varnar. Þessi staða er ekki ný. Þegar ESB er gagnrýnt stíga fram einhverjir sem enn trúa á það sem lausn allra vandamála að ganga í ESB. Jafnvel þótt dæmin séu mörg um hversu óæskilegt er fyrir Ísland að gerast aðili. Trúin á hið útlenda yfirvald er sumum svo tamt að liggur við ofsatrú.

Bretar gengu úr ESB um áramótin og voru með þeim fyrstu til að tryggja sér nægt bóluefni en að hætta í ESB gekk ekki þrautalaust þrátt fyrir að Bretland sé efnahagslegt stórveldi og lykilþjóð í öryggismálum Evrópu. Bretar nýttu sér frelsið meðan helstu samstarfsaðilar og keppinautar verða bundnir skrifræðinu í Brussel.

ESB-trúin mun eflaust einnig gera vart við sig með þeim rökum að leiðin út úr efnahagsvandanum sé innganga í ESB. Það er vitanlega rökleysa líkt og það var eftir bankahrunið. Ef Ísland hefði verið í ESB 2008 værum við enn að glíma við hrunið líkt og Grikkir, Spánverjar, Ítalir o.fl. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs 2013- 16 hefði ekki tekist að láta kröfuhafa föllnu bankanna greiða hundruð milljarða í ríkissjóð hefðum við verið í ESB. Þá er líka ljóst að „hinir trúuðu“ munu ekki þola nokkra gagnrýni á samstarf Íslands og ESB, hvort sem það er á vettvangi EES-samningsins eða annars staðar.

Þegar stefna stjórnmálaflokkanna verður metin mun öllum verða ljóst að Miðflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem einarðlega er andvígur inngöngu Íslands í ESB. Þannig verða hagsmunir landsins best tryggðir.

 

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi og þingflokksformaður

Pistill sem birtist í Morgunblaðinu þann 4. janúar, 2021