Þúsund orð um ekki neitt!

Þegar þetta er skrifað er nýlokið blaðamannafundi hvar þrír ráðherrar komu fram fyrir hönd framkvæmdavaldsins til að greina frá aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 og mögulegra efnahagslegra áhrifa hennar.  Ef frá er talin tímabundin niðurfelling gistináttaskattsins var annað sett fram sem óútfærðar „hugsanlega og kannski“ aðgerðir þar sem fæðuöryggi þjóðarinnar var ekki nefnt á nafn.  Hvað þá heldur viðbrögð við stöðu sjávarútvegsfyrirtækja sem nú glíma við loðnubrest annað árið í röð og fyrirtækja sem byggja afkomu sína á þjónustu við útgerðina.  Má því taka fundinn saman í eftirfarandi setningu. Þúsund orð um ekki neitt!

Svínaflensan, fjármálakreppan og nú COVID-19, samt eru til stjórmálaflokkar sem vilja innleiða óheft milliríkjaviðskipti með landbúnaðarvörur.  Vörum sem njóta opinberra styrkja og eru framleiddar við mun lakara lyfja- og dýravelferðareftirlit.  Það er flestum ljóst að slík innleiðing myndi ganga frá íslenskum landbúnaði í núverandi mynd.

Hvað þarf til?

Í svari frá dómsmálaráðherra við skriflegri fyrirspurn Karls Gauta Hjaltasonar þingmanns Miðflokksins, þar sem hann spurði dómsmálaráðherra meðal annars um birgðastöðu matvæla, kom í ljós að ekki hafa verið gerðar sérstakar viðbragðsáætlanir ef flutningsleiðir að landinu myndu lokast skyndilega.  Hinsvegar var þetta skoðað árið 2009 vegna heimsfaraldurs inflúensu en þá kom í ljós að birgðir af matvælum voru almennt frekar litlar.

Hvað þarf til þess að Íslendingar sem tilheyra þessu pólitíska umhverfi átti sig á mikilvægi þess að þjóðin sé sjálfbær í matvælaframleiðslu og að íslenskur landbúnaður verði að búa við það rekstrarumhverfi, stuðning og vernd til að hann geti verið fær um að tryggja þjóðinni fæðuöryggi til lengri tíma ?

Svarið við þessu er því miður að hvorki svínaflensan, fjármálakreppan né COVID-19 dugar þar til. Svo ekki er gott að gera sér í hugarlund hvílíkar hamfarir þyrfti til að breyta viðhorfum þessara ESB þjóna til mikilvægi íslenskrar matvælaframleiðslu og þörf hennar fyrir vernd og stuðning.  Við verðum að tryggja öfluga hagsmunagæslu íslensks landbúnaðar frammi fyrir sameginlegu EES nefndinni, ásamt því að efla íslenska matvæla framleiðslu.

 

Höfundur:  Þorgrímur Sigmundsson, varaþingmaður Miðflokksins

Greinin birtist á visir.is þann 12. mars, 2020