Málefnastarf

Fyrirkomulag málefnavinnu á landsþingi Miðflokksins 5. og 6. júní 2021

Málefnanefnd flokksins óskar eftir tillögum og ábendingum frá félagsmönnum sem gætu gagnast við undirbúning málefnastarfsins á landsþinginu.

Á aukalandsþinginu okkar, sem haldið var í nóvember, var farið yfir grunnstefnuskjal flokksins og samþykktar á því nokkrar breytingar ásamt því að 10 nýjar ályktanir voru samþykktar á þinginu. Þó svo stutt sé liðið frá aukalandsþinginu er full ástæða til að rýna mál vel og vinna að nýjum ályktunum fyrir landsþingið. Málefnanefnd hefur fundað reglulega síðan í upphafi árs og er sú vinna því í fullum gangi.

Þá hafa einnig verið stofnaðir tveir vinnuhópar sem vinna að tillögum um stefnu í tveimur stórum málaflokkum, annarsvegar sjávarútvegsstefnu og hinsvegar íþróttastefnu fyrir landið.

Þátttaka hins almenna félagsmanns og fyrirkomulag málefnavinnu á landsþinginu:

Almennir félagsmenn geta tekið þátt í málefnavinnunni með því að senda málefnanefnd tillögur og síðan með því að taka þátt í málefnahópum sem munu starfa á landsþinginu sjálfu.
Félagsmenn eru því hvattir til að senda tillögur eða ábendingar um mál sem þeim finnst að þurfa að taka á í stefnuskjali flokksins eða með ályktunum á landsþinginu.

Sérstaklega viljum við einnig hvetja þingmenn flokksins, formenn deilda og kjördæmafélaga til að skapa umræðu á sínum vettvangi um málefnaskrána og koma með tillögur og ábendingar að ályktunum.

Frestur til að skila tillögum til málefnanefndar er til 8. maí eða 4 vikum fyrir landsþingið sjálft.

Málefnanefnd vinnur síðan drög að ályktunum sem lagðar verða fyrir landsþingið.

Á landsþinginu munu starfa nokkrir málefnahópar, sem verða kynntir er nær dregur. Þar gefst félagsmönnum tækifæri á að taka þátt í málefnastarfinu og ræða og fara yfir framkomnar tillögur.

Eins og fyrr sagði verða málefnahóparnir kynntir betur er nær dregur og opnað fyrir skráningar í hópana. Færi svo að ekki yrði hægt að halda landsþingið í Hörpu og það haldið rarænt, er einnig gert ráð fyrir að hægt verði að halda úti málefnavinnu með rafrænum hópum á þinginu.

Tillögur til málefnanefndar geta félagsmenn sent til: formanns Málefnanefndar, Hólmgeirs Karlssonar, á netfangið holmgeir@bustolpi.is eða til Önnu Kolbrúnar Árnadóttur annakolbrun@althingi.is fyrir 8. maí n.k.

f.h. Málefnanefndar Miðflokksins, Hólmgeir Karlsson, formaður