Það getur verið misgaman í þinginu, en eitt er það sem þingflokkur Miðflokksins hefur sérstaklega gaman af; Sjónvarpslausir fimmtudagar. Það er hlaðvarpið sem þingflokkurinn heldur úti þar sem við gerum upp vikuna í þinginu og pólitíkinni.
Það er ekki útilokað að af og til höfum við talað aðeins „of skýrt“, stundum látið vaða á súðum, en aldrei verið meiðandi.
Þáttur númer 100 fór í loftið í gær.
Áfanganum var fagnað með viðeigandi hætti, pönnukökum og kaffi, á meðan málin voru krufin til mergjar í hundraðasta sinn.
Í þættinum fengum við til okkar gesti úr þinginu, einn úr hverjum þingflokki, og ræddum þingveturinn fram undan, uppákomur síðustu vikna og mánaða og krydduðum þetta allt með hæfilegum skammti af kæruleysi og léttleika.
Svandís Svavarsdóttir, verðandi formaður VG, reið á vaðið og ræddi við okkur tímasetningu kosninga, sjávarútvegsmál og fleira.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, einn skemmtilegasti þingmaðurinn, mætti fyrir Viðreisn og ræddi leyndardóma landafræðinnar, með meiru.
Diljá Mist Einarsdóttir, litla orkuverið, mætti fyrir Sjálfstæðisflokkinn og skammaði okkur venju fremur lítið.
Jakob Frímann Magnússon, okkar besti Stuðmaður í Flokki fólksins, hrósaði okkur og við þökkuðum auðvitað fyrir með pönnukökum frá Sigrúnu Aspelund.
Kristrún Frostadóttir, spútnik liðinna missera, kom í hljóðverið og rammaði inn verkefni vetrarins eins og þau blasa við nýrri Samfylkingu.
Gísli Rafn Ólafsson, „disaster expert“, kom fyrir hönd Pírata og útskýrði fyrir okkur þáttarstjórnendum sem enn notumst við faxvélina að gervigreindin gæti orðið til gagns.
Að endingu mætti svo Þórarinn Ingi Pétursson, hinn eini sanni framsóknarmaður, og ræddi landbúnaðarmál.
Í þessum 100. þætti stikluðum við sem sagt á stóru og litlu. Engum dylst að samlífi stjórnarflokkanna gæti verið betra, svo ekki sé meira sagt. Ég gef mér að skrifstofustjóri Alþingis hafi nú þegar tekið út viðbótartryggingu fyrir þriðju hæð nýbyggingar Alþingis, þar sem þingmenn stjórnarflokkanna þriggja deila hæð og hryðjurnar ganga yfir.
Fyrir ykkur sem hafið hlustað á hlaðvarpið hingað til segi ég: við erum rétt að byrja. Fyrir þau ykkar sem enn hafa ekki hlustað segi ég: nú er tíminn til að byrja.
Þættina má sækja á allar helstu hlaðvarpsveitur og þeir eru sömuleiðis aðgengilegir í gegnum heimasíðu Miðflokksins, þar sem jafnframt er hægt að skrá sig í flokkinn.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is