Árið 1918, fullveldisárið, var þjóðin meðal þeirra fátækustu sem við berum okkur saman við. Landsframleiðslan var til dæmis innan við helmingur þess sem var í Danmörku, en hún hafði þá fallið um rúmlega fimmtung á stríðsárunum og aðstæður landsmanna allar erfiðar. Einum 103 árum síðar er staðan önnur og hagur landsmanna hefur vænkast verulega.
Góð staða lands og þjóðar skýrist ekki síst af fullveldinu. Fullveldið gerir okkur kleift að ráða eigin málum og það er lykilatriðið í því að færa lífskjör þjóðarinnar frá botni þar sem stærstur hluti bjó við örbyrgð og í hæstu hæðir þar sem við stöndum jafnfætis þeim þjóðum sem búa við hvað mesta velsæld í heiminum.
Sjálfsákvörðunarréttinum og frelsinu sem fullveldið færði okkur á sínum tíma fylgir þó ábyrgð sem felst m.a. í því að sigla ekki sofandi að feigðarósi – farga fullveldinu, framselja vald yfir landi og þjóð til annarra ríkja eða ríkjasambanda eða tapa því frelsi sem við njótum hvert og eitt, í frjálsu landi.
Hver einstaklingur ber ábyrgð á sjálfum sér og nýtur frelsis til að athafna sig eins og hentar svo lengi sem að ekki er gengið á réttindi annarra. Lög og reglur taka í grunninn mið af því. Ábyrgðin nær því jafnt til framkomu í garð annarra, fjárhagslegra atriða eða til dæmis persónulegra sóttvarna svo tekið sé nærtækt dæmi. Ef við freistumst til að ýta ábyrgðinni yfir á aðra kvarnast fljótt úr frelsinu og við finnum okkur föst í barnfóstrusamfélagi, þar sem allir aðrir og þá sérstaklega hið opinbera á að passa upp á okkur og okkar.
Lýðveldið Ísland þarf einnig að gæta sinna hagsmuna gagnvart öðrum þjóðum og stjórnvöld mega ekki sofna á verðinum þegar kemur að fullveldinu. Taka þarf ákvarðanir sem tryggja hagsmuni landsmanna sem best, búa sem best um hnútana þannig að tækifærin séu til að grípa þau og samfélagið blómstri. Aðrir sjá um sig.
Það væri því gott að sjá stjórnvöld staldra við þegar kemur að reglugerðaflaumi utan úr Evrópu sem ætlast er til að Íslendingar stimpli helst með bundið fyrir bæði augu og fylgi í einu og öllu. Dómstóll í Evrópu virðist í hugum sumra hafa meira gildi en okkar æðsti dómstóll til 101 árs og ákveðið var að orkumálum væri líklega bara best komið í höndum erlendra aðila með innleiðingu þriðja orkupakkans. Þessu þarf að mæta af hörku – standa með hagsmunum Íslands í alþjóðasamhengi og verja það frelsi sem fullveldið færir okkur.
Til hamingju með 103 ára afmælið við öll, með fullveldið Ísland.
Pistill eftir Bergþór Ólason í Morgunblaðinu 1. desember, 2021.