Að eyða og afla

Að eyða og afla.

Það er alkunn lenska að lofa gulli og grænum skógum fyrir kosningar. Eftir kosningar reka þau hin sömu sig oft á að erfitt er að standa við loforðin, því engir eru fjármunirnir til að standa við þau. Það er eins og stundum haldi fólk að uppi á hæð eigi sveitarfélagið tank fullan af peningum rétt eins og í sögunni um Jóakim Aðalönd í Andabæ. Því miður er raunin ekki sú, heldur þarf að afla tekna til að standa undir öllum fögru loforðunum.

Nú streyma bæklingar framboðanna inn um póstlúgur í sveitarfélaginu. Margt er þar gott nefnt en sumt kannski raunveruleikafirt. Að gamni mínu tók ég einn þessara bæklinga og taldi í málefnalistanum þá liði sem vísuðu til meiri útgjalda sveitafélagsins. Mér taldist til að þeir væru á bilinu 20 til 30 talsins.

Tillögur á tekjuhliðinni í sama bækling eru efnislega þær að lækka skatta og efla þjónustu, til lengri tíma litið, auk sóknar í atvinnumálum, án þess að svara þeirri sjálfgefnu spurningu: Hvernig?

Hér er tekjuvandamálið í hnotskurn. Það virðist vanta innsæi í hvernig fyrirtæki og ný störf verða til sem auka tekjur sveitarfélagsins.  Sveitarstjórn hefur lítið um það að segja hvaða atvinnugreinar sækja inn á svæðið nema með tilliti til umhverfisþátta o.þ.h. Það eru fyrst og fremst þeir aðilar sem sýna sveitarfélaginu áhuga til atvinnuuppbyggingar sem ráða því hvaða starfsemi og fjárfesting byggist upp. Það er í verkahring sveitarfélagsins að liðka hratt fyrir þeim sem áhuga sýna og einnig hafa upplýsingar á reiðum höndum um innviði svo sem lóðir og orkuafhendingu. Það er slæmt ef aðilar sem hér vilja hefja atvinnustarfsemi hrökklast burtu vegna lítils skilnings sveitarstjórnar á þjónustuhlutverki sínu við slíka aðila.

Hér er ekki verið að lasta störf sveitastjórna, heldur aðeins verið að benda á vankunnáttu og ef til vill getuleysi til að örva uppbyggingu atvinnustarfsemi.

Við hjá Miðflokknum viljum breyta þessu ástandi með því að bjóða fram til sveitarstjórnar fólk sem hefur langa reynslu af atvinnurekstri og stofnun fyrirtækja. Fólk sem talar sama tungumál og það fólk sem hingað mun leita til að hefja atvinnurekstur innan sveitarfélagsins. Við bjóðum fram fólk sem hefur langa reynslu af að markaðssetja og selja vörur og þjónustu bæði innanlands sem utan. Nýtum þá reynslu til að efla atvinnulíf í sveitarfélaginu!

Að auki leggjum við til að ráðinn verði sérstakur atvinnu og markaðs fulltrúi sem hefur það hlutverk að markaðssetja vel skipulagt sveitarfélagið allt, og þjónusta þá aðila sem eru að skoða atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Til að hraða ákvarðanaferli leggjum við einnig til að sú þungavigtarmanneskja sem í þetta starf verður ráðin heyri beint undir sveitarstjórn og atvinnumál þannig tekin út úr fyrirhuguðu Byggðaráði. Slíku starfi fylgir kostnaður, en ætti að borga sig hratt upp ef rétt er að verkum staðið.

Þröstur Jónsson oddviti Miðflokksins í kosningum sameinaðs sveitarfélags á Austurlandi 19. september.