Að kunna ekki - eða vilja alls ekki lesa í aðstæður

Á borgarstjórnarfundi í gær, þann 2. júní lagði ég fram þessa tillögu: „Borgarstjórn samþykkir að borgarlínuverkefninu verði frestað um óákveðinn tíma. Þess í stað verði lögð áhersla á að fjármagni, sem annars yrði varið í það verkefni verið ráðstafað í lagninu Sundabrautar með nýju samkomulagi á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ríkissins.“ Þegar þessi grein er skrifuð hefur fundurinn ekki verið haldinn og er ég ekki vongóð um að tillagan verði samþykkt frekar en aðrar framfara tillögur sem ég hef lagt fra í borgarstjórn. Borgarstjóri og meirihlutinn í Reykjavík kunna ekki – eða vilja alls ekki að lesa í aðstæður. Keyra skal þrengingarstefnuna áfram með útrýmingu akgreina og bílastæða á stóru svæði auk lokunar á bíla á stóru svæði í miðbænum. Alfa þeirra og omega er það sem er kallað borgarlína sem enginn veit hvað er – síst af öllu meirihlutinn. Í það minnsta er lítið um svör þegar spurt er út í þetta fyrirbæri. Samt er búið að ráða fólk á fullt af skrifborðum vegna fyrirbærisins og skipa starfshópa sem telur yfir tug einstaklinga. En aftur að því að kunna ekki – eða vilja alls ekki að lesa í aðstæður sem uppi eru í samfélaginu. Fjármálaráðuneytið áætlar að halli á ríkissjóði verði tæplega 500 milljarðar í ár og á næsta ári.  Þessi uppsafnaði halli samsvarar 5,35 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Ég hef lagt fram fyrirspurn sama efnis er snýr að borginni sem hljóða svo:

1.           Hverjar eru skuldir Reykjavíkurborgar á hverja fjögurra manna fjölskyldu í Reykjavík eftir lántökuna sem farið var í 28. maí, vegna A-hluta Reykjavíkur?

2.           Hverjar eru skuldir Reykjavíkurborgar á hverja fjögurra manna fjölskyldu í Reykjavík miðað við 28. maí vegna samstæðunnar allrar?

A-hluti Reykjavíkur/borgarsjóður, ber rúmlega 100 milljarða skuldir og samstæðan öll ber rúmlega 300 milljarða skuldir. Samgöngusáttmáli ríkissins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var undirritaður fyrir nokkrum misserum. Fjármögnunin var skýr frá hlið ríkissins og skilyrt. Enda kom það skýrt fram í ræðu fjármálaráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi, að framtíð sáttmálans yrði ákvörðuð á Alþingi. Það ber merki um dómgreindarbrest hjá borgarstjóra að ætla sér að keyra borgarlínuverkefnið áfram þegar ekki er búið að samþykkja frumvarp til laga um að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Á fundi borgarráðs þann 28. maí samþykkti meirihlutinn að Reykjavíkurborg myndi auka framlög sín úr 430 milljónum  í 995 milljónir inn í sáttmálann. Öll áhersla er lögð á borgarlínu og búið er að fjölga í „stýrihópi um borgarlínu.“ Það er mjög óábyrgt miðað við ástandið. Það sem segir í erindi SSH um borgarlínu, sem lá fyrir fundinum kemur eftirfarandi fram varðandi Reykjavíkurhlutann:  „undirbúningur“ 600 milljónir og „áframhaldandi undirbúningur“ 180 milljónir eða samtals 780 milljónir samtals á árinu. Ekkert er gert með bættar ljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu sem er mesta samgöngubótin og sameiginlegur skilningur var á að væri í forgangi til að auka umferðarflæði en gert er ráð fyrir að einungis 68 milljónir fari í það verkefni. Uppbygging og lagning Sundabrautar er og hefur verið forgangsmál í fleiri ár. Reykjavíkurborg hefur gert allt sem hægt er til að hindra þá mikilvægu framkvæmd, þrátt fyrir aðvaranir Vegagerðarinnar. Í lögum segir að ef sveitarfélag hindri samgöngubætur sem eru á vegum ríkissins greiði sveitarfélagið mismuninn. Fyrir um 10 árum barst borginni slíkt erindi frá Vegagerðinni þegar girt var fyrir besta kost Sundabrautar með skipulagningu byggðar á því svæði. Var upphæðin þá 10 milljarðar. Síðan þá hefur verið skipulagt svæði fyrir byggð í Vogabyggð sem þrengir enn frekar að Sundabraut og nú eru framkvæmdir hafnar í Gufunesi sem þrengja mjög að lagningu brautarinnar eða nánast útiloka.

 

Höfundur:  Vigdís Haukdsóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins

Greinin birtist í Grafarvogs- og Árbæjarblaðinu þann 3. júní, 2020