Aðförin að Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni

Aðförin að Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni

Á fundi borgarráðs þann 23. júlí sl. var lagt fram bréf frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, dags. 22. júní 2020 og var efni þess samkomulag ríkissins og Reykjavíkurborgar um skipulag og uppbyggingu á landi við Skerjafjörð. Kynnti borgarstjóri að bréfið hefði borist Reykjavíkurborg í kjölfar fyrirspurnar á Alþingi til fjármála- og efnahagsráðherra um efnið, sem þegar betur var gáð var frá formanni Miðflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Í bréfi fjármálaráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið vekji athygli á að samkvæmt umræddu samkomulagi var gert ráð fyrir að allt byggingarland yrði selt með opnum og gegnsæjum hætti þar sem samið yrði við hæstbjóðanda á einstökum lóðum og lóðarhlutum. Ráðuneytið benti jafnframt á að samkvæmt fyrirliggjandi úthlutunaráætlun stæði til að ráðstafa án auglýsingar tilteknum byggingareitum í sérstökum tilgangi, þ.e. til Bjargs, Félagsstofnunar stúdenta og til byggingar hagkvæmra íbúða sem borga lítinn eða engan byggingarétt af lóðum.

Þá benti ráðuneytið jafnframt á að tæki Reykjavíkurborg ákvörðun um að fara þá leið þyrfti að taka mið af því í uppgjöri ríkis og borgar á söluandvirði byggingaréttarins og kæmi það til með að leiða til þess að borgin fengi lægri hlut í heildarsöluverði sem næmi þeim mismun sem yrði á úthlutunarverði og markaðsverði viðkomandi lóða og byggingarreita.

Kaupverð Reykjavíkur á landinu voru ákvarðaðar 440 milljónir í samningnum frá 2013, sem skilgreindar voru sem lágmarksverð fyrir landið. Var skilyrt að kaupverð fyrir land ríkissins yrðu greiddar þegar afsal yrði gefið út þegar fyrir lægi formleg tilkynning þáverandi innanríksráðuneytis/ISAVIA til Reykjavíkurborgar um að lokun norðaustur/suðvestur flugbrautar (neyðarbrautin) hafi tekið gildi gagnvart öllu flugi. Samkvæmt bréfinu frá ráðuneytinu gekk kaupsamningur og afsal eftir þann 11. ágúst 2016.

Samkvæmt samkomulaginu á Reykjavíkurborg að fá fyrstu 440 milljónirnar af sölu byggingaréttar, áður en ríkið fær krónu, en ríkið á að fá 560 milljónir stighækkandi þegar 1,25 milljarði væri náð á sölu byggingaréttar og 30% til viðbótar þegar þeirri upphæð væri náð. Með öðrum orðum – borgin var í yfirburðarstöðu í þessum samningum því Samfylkingin í borgarstjórn og Samfylkingin í ríkisstjórn gengu frá þessum díl. Þessi samningur Dags B. Eggertssonar og Katrínar Júlíusdóttur, þáverandi fjármálaráðherra var einhliða borginni í hag en ekki ríkissins, því líta má á að kaupverð Reykjavíkurborgar hafi verið lán til ríkissins. Eða enn frekar - gjöf ríkissins til Reykjavíkurborgar því ríkið átti 63,06% af landsvæðinu öllu.

Ef borgarstjóri og núverandi meirihluti nær ekki að selja byggingaréttinn fyrir meira en 440 milljónir fær ríkið ekkert í sinn hlut. Nái Reykjavíkurborg að selja byggingaréttinn fyrir 700 milljónir fær ríkið í sinn hlut einungis 260 milljónir.

Nú er fjármála- og efnahagráðuneytið að átta sig á orðnum hlut og er að úrskurða að Reykjavíkurborg beri tjón af því að auglýsa ekki byggingaréttinn á landinu og selja til hæstbjóðanda samkvæmt samningnum til að hámarka virði ríkisins.

Ég lít svo á að borgarstjóra sé alveg sama hvaða hvað útsvarsgreiðendum í Reykjavík blæði í endurgreiðslum til ríkissins fyrir flugvallarsvæðið – því hans markmið og Samfylkingarinnar er að koma flugvellinum í burtu úr Vatnsmýrinni „sama hvað það kostar“.

 

Höfundur:  Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 25. júlí, 2020