Aðgerðir í stað orða.

Aðgerðir í stað orða

 
 
Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær innti Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra eftir fyrirhuguðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn þeirri vaxandi skipulögðu glæpastarfsemi sem lýst er í nýlegri skýrslu ríkislögreglustjóra.

Svör forsætisráðherra voru eins og búast mátti við, en því miður ekki meira en það. Þau voru almenns eðlis og áherslan töluvert á heilbrigðis- og félagsmálaþáttinn en hefðu að ósekju mátt vera skýrari um löggæsluþáttinn.

Þorsteinn varð eins og við var að búast fyrir vonbrigðum með svarið og benti á að efla þyrfti „löggæsluna, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, bæði hvað varðar mannafla, tæki og úrræði,“ og lagði áherslu á að þetta þyrfti að gerast núna.

Sú ábending er hárrétt, enda kemur fram í skýrslu ríkislögreglustjóra að skipulagðir glæpahópar verði þeim mun erfiðari viðureignar sem þeir fái rýmri tíma og svigrúm til að skjóta rótum.

Það er út af fyrir sig ágætt að ríkisstjórnin ætli að skoða þessi mál „með heildstæðum hætti“ eins og forsætisráðherra sagði í svörum sínum.

Enn betra væri þó ef gripið yrði tafarlaust til þeirra aðgerða sem líklegt er að dugi gegn yfirvofandi vá.