Afstaða ráðherra til sóttvarnaaðgerða

Bergþór Ólason tók þátt í óundirbúnum fyrirspurnartíma mánudaginn 31. janúar, og spurði þar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um afstöðu hennar til sóttvarnaaðgerða.

Herra forseti. Mig langar við þetta tilefni að eiga orðastað við hæstv. utanríkisráðherra sem varaformann stærsta stjórnarflokksins. Það hafa verið æðimisvísandi skilaboðin sem hafa borist frá Sjálfstæðisflokknum, annars vegar þau sem koma með beinum hætti úr ríkisstjórninni, þær ákvarðanir sem kynntar voru síðastliðinn föstudag, og síðan það með hvaða hætti ráðherrar Sjálfstæðisflokksins tjá sig á tröppum Ráðherrabústaðarins eða í viðtölum. Við heyrum hæstv. fjármálaráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins, tala á þeim nótum að hann telji lagaforsendur vera brostnar fyrir þeim sóttvarnaaðgerðum sem við nú erum undirorpin. Hæstv. ráðherrar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hafa talað, að ég met með skynsamlegum hætti, í viðtölum og utan ríkisstjórnar, en síðan gerist ekki neitt. Það sem kynnt var hér síðastliðinn föstudag er auðvitað ekkert annað en framlengingaráætlun. Þetta er ekki afléttingaráætlun. Það er verið að framlengja þá stöðu sem er í sóttvörnum hér á landi án þess að nokkrar forsendur séu til. Og meira að segja með þeim hætti að formaður stærsta stjórnarflokksins, hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, telur lagaforsendur vera brostnar fyrir núverandi aðgerðum.
Hvers er að vænta frá stærsta stjórnarflokknum á næstu vikum og dögum, vil ég nú vona, í þessum efnum? Við vitum að ef einhver situr í gæsluvarðhaldi og í ljós kemur að engar forsendur eru til slíkrar vistunar þá er viðkomandi sleppt hið snarasta, innan dagsins. En nú er samfélaginu haldið í þessari stöðu og kynnt með pompi og prakt að viðhalda skuli slíkum óþarfaaðgerðum í sjö vikur. Ég hef séð líkmenn í jarðarför glaðlegri en ráðherrana sem sátu undir kynningu forsætisráðherra síðastliðinn föstudag.

 

Fyrirspurnina má sjá í heild sinni hér