Áhættumat vegna framkvæmdar fjárlaga

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag og beindi eftirfarandi fyrirspurn til efnahags- og fjármálaráðherra:

"Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur unnið greiningu á áhættuþáttum við framkvæmd fjárlaga ársins 2021 og tekið saman yfirlit yfir málaflokka og fjárlagaliði sem þörf er á að hafa sérstakt eftirlit með eða þar sem grípa þarf til viðbótaraðgerða til að tryggja að útgjöld verði innan fjárheimilda á árinu. Þetta er athyglisvert minnisblað og það kemur hér fram að ráðuneytið telur, í framhaldi af fundi með öllum ráðuneytum í upphafi árs, að án frekari aðgerða gætu útgjöldin orðið 29 milljörðum kr. hærri en forsendur fjárlaga gera ráð fyrir.

Þetta eru náttúrlega verulega háar upphæðir.

Maður spyr sig: Hvað er verið að gera til að lágmarka að slíkt áhættumat raungerist? Þá höfum við lögin um opinber fjármál og þau eru mjög skýr. Ráðherra á að grípa til aðgerða ef sýnt þykir að fjárveiting dugir ekki, forstöðumenn bera ákveðna ábyrgð o.s.frv.

Lögin eru þannig úr garði gerð að þau loka á að það sé í raun og veru opinn tékki. Margir málaflokkar eru undir þessum 29 milljörðum og ég nefni hér t.d. atvinnuleysisbætur. Ég skil vissulega að óvissa sé í kringum þær. Þær eru stór hluti af þessu eða rúmir 19 milljarðar. Þarna er t.d. liður sem heitir útlendingamál, 500 milljónir. Nú fékk sá málaflokkur aukafjárveitingu í haust upp á 400 milljónir og enn er óvissa þar.

Maður spyr sig og ég spyr hæstvirtan ráðherra: Hvenær segir ríkið stopp þegar fjárveitingar eru búnar? Ef það koma t.d. 3.000 umsóknir á vegum hælisleitenda borgar ríkissjóður það þá bara? Eru ekki einhver úrræði til að við beitum þeim stjórntækjum sem við höfum í lögunum? Hvernig er verið að beita þessum stjórntækjum?"

Upptöku af ræðu Birgis og svar ráðherra í þingsal má sjá hér