Alþjóðastjórnmál á krossgötum

„Ég er hér til að bjarga ykk­ur,“ sagði for­seti Banda­ríkj­anna á blaðamanna­fundi sem hald­inn var í Hvíta hús­inu vegna veirufar­ald­urs­ins. Vin­sæld­ir for­set­ans hafa aldrei verið meiri þrátt fyr­ir að stefni í að Banda­rík­in komi verst út úr far­aldr­in­um. Staða for­set­ans gæti þó breyst hratt til hins verra ef dauðsföll­um vegna veirunn­ar fjölg­ar að mun og hag­kerfið nær sér ekki á strik fram að for­seta­kosn­ing­um. Til þessa hef­ur for­set­inn eignað sér þá efna­hags­legu vel­gengni sem ríkti í land­inu fyr­ir veirufar­ald­ur­inn. Krepp­an mikla árið 1929 olli mikl­um breyt­ing­um á hinu póli­tíska lands­lagi í Banda­ríkj­un­um. Þáver­andi for­seti, Hoo­ver, sem var al­mennt tal­inn hafa verið aðgerðalít­ill í bar­átt­unni við krepp­una, tapaði kosn­ing­un­um með eft­ir­minni­leg­um hætti árið 1932 fyr­ir Roosevelt, sem kom fram með skýra áætl­un til að end­ur­reisa efna­hag­inn. Hugs­an­lega gæti sag­an end­ur­tekið sig á haust­mánuðum og nýr hús­bóndi tekið við í Hvíta hús­inu.

 

Aðgerðal­eysi ESB í veirufar­aldr­in­um dýr­keypt

Ég er ekki hér til að bjarga ykk­ur. Þessi orð gætu hæg­lega hafa fallið af munni Ursulu von der Leyen, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, í miðjum far­aldr­in­um. Á heims­ráðstefn­unni um efna­hags­mál í Dav­os í Sviss sem hald­in var í janú­ar, ein­um mánuði áður en fyrsta veiru­smitið kom upp á Ítal­íu, minnt­ist von der Leyen ekki einu orði á veirufar­ald­ur­inn held­ur ræddi ilofts­lags­mál. Þetta gerðist þrátt fyr­ir að á sömu ráðstefnu hefðu banda­rísk­ur far­sótt­ar­sér­fræðing­ur varað sterk­lega við því sem væri í vænd­um og hinn sama dag settu Kín­verj­ar Wu­h­an-borg í sótt­kví. Um kvöldið hélt svo Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in WHO neyðar­fund um málið í Genf. Mál mál­anna hjá von der Leyen voru hins veg­ar lofts­lags­mál­in. Hún hef­ur nú beðið Ítali af­sök­un­ar á að Evr­ópu­sam­bandið hafi ekki rétt fram hjálp­ar­hönd á neyðar­stundu.

Þrátt fyr­ir að hafa lifað af fjár­málakrepp­una 2008, flótta­manna­straum­inn til Evr­ópu og Brex­it er ekki sjálf­gefið að ESB lifi veirufar­ald­ur­inn af í nú­ver­andi mynd. Sam­bandið ligg­ur und­ir ámæli fyr­ir aðgerðal­eysi á mörg­um sviðum í bar­átt­unni við far­ald­ur­inn. Ljóst er að fram­kvæmda­stjórn­in svaf á verðinum. Það gæti reynst sam­band­inu dýr­keypt. Ítal­ir eru reiðir í garð sam­bands­ins. Þar líta menn svo á að Rúss­ar og Kín­verj­ar hafi verið þeir einu sem komu þjóðinni til aðstoðar á hættu­tím­um. Af­sök­un­ar­beiðni ESB til Ítal­íu dug­ir skammt. Óánægj­an nær til fleiri ríkja. Alþjóðastjórn­mál­in standa á kross­göt­um vegna veirufar­ald­urs­ins. Evr­ópu­sam­bandið gæti þurft að berj­ast fyr­ir lífi sínu á kom­andi miss­er­um. Á hliðarlín­unni fylgj­ast Rúss­ar vel með fram­gangi mála.

 

Höf­und­ur:  Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokks­ins

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 28. apríl, 2020