Heimsbyggðin hefur ekki farið varhluta af heimsfaraldrinum sem enn geysar og hefur hann lagt efnahag þjóða í rúst mismunandi eftir löndum. Hér á landi var tekið þannig á málum að persónufrelsi okkar sem á að vera varið í stjórnarskrá - var skert með víðtækum hætti. Sagan á eftir að gera þennan tíma upp.
Kórónuveiran sem skálkaskjól?
Ég varaði við því í upphafi faraldursins að kórónuveiran yrði ekki notuð sem skálkaskjól fyrir nánast hvað sem er í íslensku samfélagi og þá sérstaklega ekki sem skálkaskjól fyrir stjórnmálamenn sem sætu með meirihlutavald í sínum höndum, hvort sem væri hjá ríki eða í sveitarstjórnum.
Því miður báru þessi varnaðarorð ekki árangur því sú hefur því miður orðið raunin. Verst er þó skálkaskjól veirunnar þegar kemur að fjármálum þessara opinberu aðila. Þau sveitarfélög sem voru mjög skuldsett áður en faraldurinn skall á kenna nú veirunni um slaka stöðu sína.
Verst er ástandið í hinni ofurskuldsettu höfuðborg okkar – sjálfri Reykjavík undir stjórn borgarstjóra Dags B. Eggertssonar og viðreista meirihlutanum hans. Það eru aumir stjórnmálamenn sem haga sér og málflutningi sínum með þessum hætti og það versta er að þeir telja að almenningur sjái ekki í gegnum málatilbúnaðinn. Líklega trúa þeir þessu sjálfir.
Ég hef lengi haft áhyggjur af mannréttindum okkar sem varin er í 73. gr. stjórnarskrárinnar en hún hljóðar svo: „Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.“
Ritskoðun var byrjuð löngu fyrir faraldurinn undir stjórn Vinstri grænna. Fundið var upp nýyrðið upplýsingaóreiða yfir ritskoðun og er rannsóknum á óreiðunni stjórnað af Þjóðaröryggisráði sem er undir stjórn forsætisráðherra. Eftir að veiran skall á hefur verið slegið í klárinn í þessum efnum og sett var upp sérstakur vinnuhópur um sem ber heitið „Upplýsingaóreiða og COVID-19“ til að allt yrði nú rétt matreitt ofan í landann.
Hvar eru mannréttindin okkar til frjálsra skoðanaskipta? Hvert erum við komin?
Valdaframsal
Stórtækt valdaframsal hefur átt sér stað frá kjörnum fulltrúum hvort sem er hjá ríki eða borg. Ríkinu er stjórnað í dag á reglugerðum sem heilbrigðisráðherra setur sem vart eiga sér stað í lögum.
Reykjavíkurborg er stjórnað af sérstakri neyðarstjórn þar sem borgarstjóri er einráður ásamt embættismönnum. Neyðarstjórn Reykjavíkur hefur tekið sér óeðlilegt vald og vald í mjög langan tíma – eða hátt í ár. Neyðarstjórn hefur m.a. tekið sér það vald að fjalla um fjármál borgarinnar sem er brot á sveitarstjórnarlögum enda fer borgarráð með fjárheimildir samkvæmt stjórnskipulagi borgarinnar að fjárhagsáætlun lokinni sem borgarstjórn samþykkir ár hvert. Borgarráð hefur ekki afsalað sér neinum völdum til neyðarstjórnar.
Svo virðist sem ekki gildi lengur sveitastjórnarlög, stjórnsýslulög eða samþykktir borgarinnar um störf borgarstjórnar, borgarráðs og fagráða. Á engan hátt er hægt að tala um að neyðarstig hafi staðið síðastliðna tíu mánuði vegna þess að ástandið hefur verið viðvarandi. Neyðarstjórn á að virkja þegar alvarleg, tímabundin vá steðjar að eins og nú síðast í vatns- og aurflóðunum á Seyðisfirði.
Daglegur og hefðbundinn rekstur Reykjavíkur getur aldrei verið keyrður áfram á lögum um almannavarnir nr. 82/2008, frekar en að rekstur ríkisins sé keyrður áfram á reglugerðum sem eiga sér ekki næga stoð í lögum. Hvert erum við komin?
Endurheimt stjórnarskrárvarins réttar
Ekki er víst að við endurheimtum mannréttindi okkar á ný á einum degi. Kerfið lætur ekki svo auðveldlega af völdum sínum. Hvað er betra fyrir stjórnkerfið en að hafa alla hrædda og óttaslegna?
Við verðum að standa saman að því sem þjóð að þessu ástandi linni. Við verðum að standa saman að því sem þjóð að þeir sem voru kosnir í lýðræðislegum kosningum stjórni ríki og sveitarfélögum á grunni laga. Valdaframsalinu verður að linna og endurheimt lýðræðisins verður að verða að veruleika – annars getum við gleymt öllum lögbundnum kosningum í landinu.
Ég óska Reykvíkingum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs með von um að árið 2021 verði okkur öllum farsælt og gott.
Vigdís Hauksdóttir
Höfundur er oddviti Miðflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur
Greinin birtist í Kjarnanum þann 26. desember, 2020