Átaks er þörf nú sem aldrei fyrr

Áður óþekkt staða er kom­in upp hvað varðar inn­flutn­ing á fíkni­efn­um. Aldrei hef­ur eins mikið magn af fíkni­efn­um verið í um­ferð hér á landi og inn­flutn­ing­ur í sögu­legu há­marki. Verð á fíkni­efn­um „á göt­unni“ hef­ur stór­lækkað vegna mik­ils fram­boðs og tölu­vert virðist vera höndlað með lyf­seðils­skyld lyf á svört­um markaði. Af­leiðing þessa er meðal ann­ars sú að biðlist­ar í fíkni­meðferðir lengj­ast.

Mánu­dag­inn 14. októ­ber var sér­stök umræða á alþingi um fíkni­efni, biðlista og dauðsföll. Í tveim­ur ræðum sem und­ir­ritaður flutti í þeirri umræðu gerði ég biðlist­ana í fyrri ræðunni að um­tals­efni og til­tók meðal ann­ars að á sjúkra­hús­inu Vogi væri biðlist­inn kom­inn í 700 manns. Slík tala hef­ur aldrei sést áður. Í seinni ræðunni óskaði ég eft­ir að stjórn­völd hefðu skýra stefnu og lausn á þeim gríðarlega vanda sem inn­flutn­ing­ur á fíkni­efn­um er og fram­leiðsla fíkni­efna hér­lend­is. Í dag eru flest fíkni­efni ólög­leg fyr­ir utan áfengi og svo eru lyf­seðils­skyld lyf mis­notuð og í raun mörg hver fíkni­efni. Sann­ast sagna fannst mér eft­ir þessa umræðu í þing­inu eins og vilji ráðherra auk margra þing­manna til að tak­ast á við vand­ann væri harla óáþreif­an­leg­ur, ef svo má að orði kom­ast.

Í fjár­laga­vinn­unni á síðasta ári komu fram áherslu­atriði okk­ar í Miðflokkn­um í nefndaráliti við fjár­laga­frum­varpið. Þar lögðum við áherslu á nauðsyn þess að stór­efla starf­semi toll­gæslu við fíkni­efna­eft­ir­lit. Þar kem­ur meðal ann­ars fram að, fíkni­efna­sala á net­inu hef­ur stór­auk­ist og þyngt róður­inn í bar­átt­unni gegn fíkni­efn­um. En aukið fíkni­efna­eft­ir­lit á landa­mær­um skil­ar ár­angri. Í breyt­ing­ar­til­lögu við fjár­laga­frum­varpið sem Miðflokk­ur­inn lagði fram var lagt til stór­aukið eft­ir­lit til að stemma stigu við þeim aukna fíkni­efna­vanda sem við blasti. Breyt­inga­til­lag­an skipt­ist niður í nokk­ur áherslu­atriði. Þessi til­laga var því miður felld í at­kvæðagreiðslu fjár­lag­anna.

En svo að ég víki aft­ur að umræðunni um fíkn­vand­ann og þá staðreynd að biðlist­ar í meðferðir lengj­ast sí­fellt. Þegar sú staða er uppi verður al­menn­ing­ur óþreyju­full­ur, skilj­an­lega. Og þá fer að bera á rödd­um um að úrræði séu ekki nógu góð. For­eldr­ar sjá á eft­ir börn­um sín­um í fen fíkn­ar­inn­ar. Feður, mæður, bræður, syst­ur, frænd­ur, frænk­ur og vin­ir fest­ast í þessu feni. Fíkn­sjúk­dóm­ur­inn (alkó­hólismi) er aldagam­alt viðfangs­efni lækn­is­fræðinn­ar og hef­ur þró­ast í gegn­um árin. þróun fíkni­efna hef­ur líka auk­ist í þá átt að verða meira ávana­bind­andi og gera neyt­end­ur veika fyrr. Um 20% þeirra sem prófa verða fíkl­ar.

Meðferðir hafa líka þró­ast. Al­gengt er að ein­stak­ling­ar þurfi fleiri en eina meðferð til að ná bata. Þá þurfa dyrn­ar að standa opn­ar. Þeir sem sækja um í fyrsta skipti á Vogi fá for­gang sem og ung­ling­ar und­ir lögaldri. En þeir sem kall­ast end­ur­komu­menn verða að bíða, vegna þess að ekki er laust rúm. Ástæðan er fjár­skort­ur sem að stór­um hluta er vegna þess að ekki hafa náðst nýir samn­ing­ar við ríkið. Um 40% af kostnaði við rekst­ur SÁÁ eru feng­in með sjálfsafla­fé.

For­varn­ir eru ekki átaks­verk­efni held­ur lang­hlaup sem sí­fellt verður að vinna með og þróa. Staðan sem nú er uppi í fíkni­efna­heim­in­um og sí­fellt vax­andi biðlist­um í meðferðir er átaks­verk­efni sem stjórn­völd verða að opna aug­un fyr­ir.

 

Höfundur: Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. október, 2019.