Atkvæðakaup og þyrlupeningar

Forseti Alþingis gerði mikið úr því á vorþingi að gengið hefði verið til þess verks að jafna aðstöðumun frambjóðenda í aðdraganda kosninga. Markmiðið virtist vera að jafna stöðu þeirra sem sitja fyrir á þingi og þeirra sem þar eiga ekki sæti þegar kemur að kosningabaráttu. Töluverð gagnrýni kom fram á málið, enda blasti við öllum sem einhvern skilning hafa á að mestur er aðstöðumunurinn á milli stafandi ráðherra og annarra frambjóðenda í aðdraganda kosninga, en á því var ekki tekið af hálfu forseta Alþingis nema með veiklulegu yfirklóri.

Nú styttist í lokasprettinn fyrir kosningar, hina eiginlegu kosningabaráttu, og við blasir að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa að líkindum aldrei gengið eins frjálslega um ríkissjóð og nú. Það jaðrar við að sumir þeirra líti til ríkissjóðs okkar allra sem síns eigin kosningasjóðs.

Félagsmálaráðherra virðist til dæmis ekki komast fram úr rúminu öðru vísi en að veita tugi milljóna í verkefni sem talin eru geta skilað honum atkvæðum. Aðrir ráðherrar slá ekki af. Nú er beðið eftir myndum af samgönguráðherra þar sem hann stendur með haka og járnkall í veglínu Sundabrautar. Skóflan er orðin svo margmynduð, viljayfirlýsingarnar svo margar, handaböndin við borgarstjóra svo mörg að þetta er orðið hallærislegt.

Þyrlupeningar (e. Helicopter Money) er þekkt hugtak í fjármálafræðum, fyrst sett fram af Milton Friedman og er meðal annars notað þegar ríkisstjórnir eða seðlabankar auka peningamagn í umferð til að styðja við efnahag landa sinna og dreifa þannig peningunum um hagkerfið. Líkingin felur í sér að peningunum sé hent út úr þyrlu á ferð og lendi einhvers staðar – án tillits til þess hvar þörfin er mest eða hvar þeim er best varið fyrir þá sem standa straum af þeim, skattgreiðendur.

Við íslenskir skattgreiðendur stöndum þannig frammi fyrir því nú að sumir ráðherrar ríkistjórnarinnar æða um og dreifa peningum eins og þyrla – dreifa þeim til atkvæðakaupa, án þess að depla auga. Það má bregðast við þessu með því að setja reglur eins og til dæmis hefur verið gert í Kanada. Þar er ráðherrum bannað að koma fram í krafti embættis síns í kosningabaráttu. Þannig væri gerð tilraun til að vernda fé skattgreiðenda fyrir örvæntingarfullum ráðherrum í atkvæðaveiðum. Ef það þarf nauðsynlega að setja fé í verkefni eða taka fyrstu skóflustungu vegna byggingar dvalarheimilis nokkrum vikum fyrir kosningar, þá senda menn bara ráðuneytisstjórann í verkið.

Þannig er staða frambjóðenda til alþingiskosninga jöfnuð, eins og forseti Alþingis gerði tilraun til í vetur. Það er ekki okkar skattborgara að borga kosningauppákomur ráðherra.

 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi

bergthorola@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 22. júlí, 2021